Bréfi til Vina Þjórsárvera, frá 3. janúar 2014

Bréfi til Vina Þjórsárvera

3. janúar 2014

Kæru félagar, gleðilegt ár.

Það er nokkuð liðið frá því að bréf hefur verið sent út til félaga og því löngu tímabært að flyta fréttir af starfi stjórnar.

Fyrst er að greina frá því að ekkert varð af aðalfundi félagsins s.l. sumar eins og boðað var í byrjun í júní. Þegar til kastanna kom var það veðrið sem setti strik í reikninginn og gönguferðin um Þjórsárver féll niður. Endurskoðaðir reikningar, skýrsla stjórnar og kjör stjórnar bíða því afgreiðslu aðalfundar sumarið 2014.

Stjórnin hefur þó ekki setið auðum höndum og hefur haft ýmsu að sinna undanfarin misseri. Þann 21. júní var áformað að skrifa undir nýjan friðlýsingarsáttmála um Þjórsárver sem hefði getað orðið lokapunktur í 41 árs baráttu fyrir að vernda svæðið fyrir virkjunarmannvirkjum. Því miður aflýst umhverfisráðherra fundi í Árnesi þar sem skrifa átti undir nýja og bætta friðlýsingarskilmála. Ástæðan var að Landsvirkjun kom með hótanir um málaferli ef ekki yrðir tekið tillit til hagsmuna fyrirtækisins.

Í kjölfarið hefur stjórn félagsins sent viðkomandi aðilum bréfi þar sem hvatt var til að farið verði að niðurstöðu rammaáætlunar. Einning voru skrifaðar blaðagreinar til að vekja athygli á málinu. Þá átti stjórnin fund með umhverfisráðherra 20. september s.l. Á fundinum upplýsti ráðherra að ákvörðun hans um að fresta frágangi málsins myndi ekki að hafa áhrif á hvar suðurmörk friðlandsins yrðu dregin. Annað hefur því miður komið á daginn. Þann 27. desember s.l. sendi umhverfisráðuneytið bréf til Skeiða- og Gnúpverjahrepps með tillögu að friðlandsmörkum þar sem búið var að draga suðurmörkin með þeim hætti að Landsvirkjun gæti komið þar fyrir veitumannvirkjum, fleygur inní friðlandið upp með Þjórsá við Eyvafenskrókinn. Friðlýsing á forsendum Landsvirkjunar. Það er ekki boðlegt.

Að mati stjórnar félagsins er ný tillaga umhverfisráðherra um friðlandsmörkin ekki í samræmi við gildandi lög og þingsályktun. Í lögum segir að „stjórnvöld skulu þegar Alþingi hefur samykkt verndar- og nýtingaráætlun hefja undirbúning að friðlýsingu landssvæða sem ástæða þykir til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu samkvæmt verndarflokki áætlunarinnar“. Í skýringum við frumvarpið er tekið fram að virkjunarsvæði í vatnsafli miðist við allt vatnasvið fallvatns ofan þeirrar virkjunar sem nýtir fallið og farveg fallsvatnsins neðan virkjunar. Áformin ganga einnig beinlínis gegn þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, sem tilgreinir að mannvirki rétt við friðlandið yrði lýti og beinir athyglinni að sérstæðum fossum í Þjórsá sem yrðu fyrir neikvæðum áhrifum Norðlingaölduveitu.

Stjórnin hefur haft samráð við Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands og Náttúruverndarsamtök Suðurlands. M.a. hefur það samráð leitt til þess að umhverfisráðherra hefur verið sent sameiginlegt erindi, eins og lesa má í meðfylgjandi bréfi þar sem tillögu umhverfisráðherra um suðurmörk friðlandsins er mótmælt.

Stjórn félagsins hefur leitað ráða hjá lögmönnum til að skoða lögformleg atriði er varða friðlýsingu Þjórsárvera. Það er lögmannstofan Réttur sem veitir leiðsögn í málinu og hefur skilað ganglegri greinargerð um það. Þessu fylgir að sjálfsögðu nokkur kostnaður og því er sjóður félagsins nú tómur og enn eftir að greiða hluta þess kostnaðar (100.000 kr). Félagar eru því hvattir til að greiða árgjaldið fyrir starfsárið 2013-2014 nú þegar. Árgjaldið er 500 kr. Þar sem félagar eru aðeins um 30 talsins er þörf á hærri framlögum frá félögum sem hafa fjárhagslegt bolmagn svo endar nái saman. Reikningsnúmerið er : 0536-26-014501, og kt. 501111-0150. Félagar eru hvattir til að bregast skjótt við og greiða sitt árgjald, og eftir getu viðbótarframlag.

Baráttan fyrir verndun Þjórsárvera heldur áfram og félagið okkar Vinir Þjórsárvera verður á varðbergi og mun grípa til frekari aðgerða ef þörf krefur. Markmiðið er að ljúka 40 ára baráttu fyrir friðun svæðisins með stækkun friðlandsins í Þjórsárverum sem byggir á forsendum verndunar, en ekki virkjunar eins og nýtt útspil umhverfisráðherra ber með sér. Ef tilefni verður til mun málið enda fyrir dómsstólum.

Hollt er að minnast orða Guðmundar Páls Ólafssonar, eins stofnfélaga Vina Þjórsárvera. Í bók sinni Vatnið í náttúru Íslands kynnir hann nýja og framsækna hugmynd um Íslandsgarða. Þar segir hann m.a. „verndun lands verður að grundvallast á landslagsheildum – skilningi á vistkerfum – með öðrum orðum samhengi í náttúrunni.“ Sú tillaga sem umhverfisráðherra boðar nú er brot á þessu mikilvæga samhengi sem Guðmundur Páll beinir athyglinni að. Þetta samhengi verður að vera leiðarljós í nýju og stærra friðlandi Þjórsárvera.

Með góðri kveðju, frá stjórn félagsins

Sigþrúður Jónsdóttir
Árni Bragason
Tryggvi Felixson
Pálína Axelsdóttir Njarðvík
Óttar Ólafsson

Meðfylgjandi er bréf sem sent var til umhverfis- og auðlindaráðherra í dag.

Bréf til umhverfisráðherra 3. janúar 2014

Comments are closed.