Látið Þjórsárver lifa í friði -Þorsteinn Ólafsson

Inni á hálendi Íslands, sem fljótt á litið virðist vera jöklum klætt, eru Þjórsárver einstök gróðurvin. Sunnan við Arnarfellsjökul (Hofsjökul) er þetta furðulega gróðurland, sem fyllist af litfögrum blómplöntum á sumrin. Þetta furðulega land sem virðist nærast á sífreranum og hefur staðist eyðingaöfl jökulkvíslanna og sínagandi sandsins sem engu eirir á þessu vindblásna hálendi. Þeir sem koma í þessa paradís verða snortnir af því ótrúlega kraftaverki sem alltaf endurtekursig á hverju ári. Áður en snjóa leysir er gæsin búin að gera sér hreiður og er orpin. Kúrir sig niður og lætur fenna yfir sig. Svo belja stórfljótin undan jökulröndinni og snjórinn hverfur. Ungarnir skríða úr eggjunum. Gróðurinn vaknar til lífsins áður en skaflarnir eru horfnir og fuglarnir komast á beit. Blómin birtast svo í allri sinni litadýrð. Samt er jörðin alltaf frosin. Kannski gerist þetta kraftaverk vegna þess að frostið skammtar gróðrinum vökvun.

Gnúpverjum er annt um þessa gróðurvin lengst inni á afréttinum sínum. Þessa gróðurvin sem þeir hafa fleiri heyrt um en séð, öðru vísi en í hugskoti sínu. Þeir gera sér grein fyrir að þessi vin eins og allar vinjar eyðimarkanna er viðkvæm. Það má ekkert út af bera. Hún hverfur kannski ef aðeins hlýnar í veðri. Hún gæti horfið ef Þjórsá fer úr farvegi sínum og hættir að verja landið með vatninu sínu. Hún getur horfið ef gert verður lón neðst í verinu. Grunnt lónið mun einhvern tíma fyllast af jökulleir sem getur hjálpað vindinum að sverfa úr bökkunum. Við fjöruborð lónsins fær vindurinn næringu sína. Við þekkjum þennan vikurblandaða jarðveg, sem fýkur á landið niður í Norðurleit. Við viljum ekki að tekin sé nein áhætta. Við erum og höfum alltaf verið ofurseld náttúruöflunum. Þjórsárver eru í þeirra hendi. Við viljum ekki að græðgi mannskepnunar verði til þess að leggja eyðingaröflum náttúrunnar vopn í hendur.

Gnúpverjar hafa áður tekist á við utansveitarmenn um landið sitt. Um miðja 19. öldina tókust þeir á við nágranna sína á Skeiðunum um beit fyrir tryppi á afréttinum sínum. Þeim tókst að koma í veg fyrir að Skeiðamenn héldu áfram að reka tryppi á fjall. Um líkt leyti fengu þeir fulltingi sýslumanns Árnesinga til þess að skógarhögg var takmarkað í Búrfelli. Gekk á þeim árum mjög á skóginn í Skriðufelli og Búrfelli vegna kolagerðar og Rangvellingar sóttu mjög í Búrfellsskóg.

Rúmlega einni öld síðar þurftu Gnúpverjar aftur að rísa upp og verja landið. Nú voru uppi hugmyndir um að vinna annars konar eldivið. Nú þurfti ekki að smíða ljái. Uppi voru hugmyndir um að setja gróðurvinina, ævintýralandið undir vatn. Eldiviðurinn var rafmagn og smíðisefnið ál. Árið 1972 voru til bændur í Gnúpverjahreppi sem vissu að landið getur verið mikilsvirði eins og það er, með blómum tjörnum, fuglum og jafnvel tófum.

Nú eru miklu fleiri sem vita að fegurð landsins eru gæði sem við höfum efni á og nú finnst Gnúpverjum nóg komið. Við viljum þyrma Þjórsárverum, við viljum eiga það sem eftir er af Dynk, Kjálkaversfossi og Gljúfurleitarfossi.

Höfundur er Þorsteinn Ólafsson og ættaður úr uppsveitum Árnessýslu
greinin var birt 26.6.2001

Comments are closed.