Guðmundur Páll Ólafsson og bréf hans til Umhverfisstofnunar

Áhugahópunum um verndun Þjórsárvera hefur borist afrit af bréfi Guðmundar Páls Ólafssonar, náttúrufræðings varðandi fyrirspurn hans til Umhverfisstofnunar
varðandi umsögn Umhverfisstofnunar frá 4. júlí 2003.


Stykkishólmi 17.10.2003

Umhverfisstofnun

Davíð Egilson forstjóri

Sigurður Örn Guðleifsson, hdl.

TILEFNI: “Niðurstaða Umhverfisstofnunar er að fyrirhugaðar framkvæmdir Landsvirkjunar við Þjórsárver, eins og þær hafa verið kynntar stofnuninni, hafi ekki langtímaáhrif inn í friðlandið í Þjórsárverum og skapi því ekki hættu á að friðlandinu verði spillt… “

ERINDI: Umfjöllun gpó vegna svars Umhverfisstofnunar

Svar Umhverfisstofnunar (UST) frá 24. september, 2003 við fyrirspurn minni (Fyrirspurn gpó) sem barst stofnuninni með tölvupósti þann 14. september sl. og síðan með formlegu bréfi sendu í ábyrgðarpósti 15.september hefur orðið mér alvarlegt umhugsunar- og áhyggjuefni.

Aðfaraorð

Fyrirspurnin varðaði ofangreinda umsögn Umhverfisstofnunar frá 04.07.2003 um langtímaáhrif 568m uppistöðulóns á friðlandið í Þjórsárverum. Umsögnin hefur verið túlkuð af stjórnmálamönnum, embættismönnum og fjölmiðlum sem vistfræðileg úttekt stofnunarinnar enda fullyrt í henni að uppistaðan hafi EKKI áhrif á friðland, þ.e. vistkerfi, Þjórsárvera til langs tíma. Slík fullyrðing er í eðli sínu vistfræðileg vegna þess að um er að ræða vistkerfi friðlands, ekki afmarkað fyrirbæri svo sem berggrunn eða jökul.

Ég vil strax taka fram að ég er ekki sérfræðingur á neinu sviði náttúrufræða og hef aðeins unnið almenna úttekt á náttúru landsins eins og fram kemur í bókum mínum. Í þeim efnum hef ég lagt áherslu á vistfræði og náttúruvernd. Umfjöllun mín hér á eftir snýst þess vegna um vistfræði og verndun friðlands, votlendis-heimsminjar sem Íslendingar ættu að vernda með oddi og egg og vera stolt af líkt og Gnúpverjar, og nú Skeiðamenn einnig, sem barist hafa fyrir verndun Þjórsárvera í 30 ár.

Ísland er lítið land og margt bendir til þess að stjórnvöld muni leika hálendi Íslands svo illa á 10-15 árum að þar verður fátt þess virði að vernda. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar hefur uppi gríðarleg stóriðjuáform og verksmiðjuvæðingu á Íslandi en henni fylgja heljarvirkjanir, háspennulínur og hraðbrautir. Landsvirkjun hefur jafnvel seilst lengra en ætlað var eins og þegar hún stal upptakakvíslum Skjálfandafljóts í Vonarskarði í skjóli myrkurs. En fyrir nokkrum áratugum stíflaði Landsvirkjun upptakakvíslar fljótsins og veitti þeim í suður. Enginn leyfi voru fyrir þessum vatnaflutningi og fáir vissu af landspjöllunum fyrr en Skjálfandafljót varð að sprænu í byggð. Skjálfandafljót snerist hins vegar gegn þessum vatnaflutningum og rauf sér leið til norðurs á ný. Þá ber framganga Landsvirkjunar í Þjórsárverum skýran vott um siðleysi gagnvart stórmerkum þjóðararfi.

Minnt skal á að uppistöðulón jökulvatna þróast fljótt í eyðimörk sem lætur af sér vita strax á öðru ári þegar lækkar í lóni og jökulaur þornar og fýkur. Uppistöðulón jökulvatna eru eyðimerkursmíð og þeir sem sömdu umsögn Umhverfisstofnunar þyrftu að rannsaka hvort ekki sé nóg um eyðimerkur á hálendi Íslands. Uppistöðulón inni í Þjórsárverum á jaðri friðlandsins er mörgum auðsæ ógn á ógn ofan en eyðimerkur umlykja verin á þrjá vegu.

Auðvitað hlýtur allt þetta að vera stjórnendum Umhverfisstofnunar vel kunnugt og því ættu þeir að hafa varann á þegar Landsvirkjun seilist í heimsminjar– sem alþjóðasamfélagið og Alþingi Íslendinga hefur lagt blessun sína yfir – og vernda á til langs tíma, ella bregðast þeir skyldu sinni.

Í þágu stjórnvalda

Mörgum brá í brún þegar Umhvefisstofnum fullyrti í umsögn sinni og yfirlýsingu að stífluútfærsla Landsvirkjunar í 568 m hæð HEFÐI ENGIN LANGTÍMAÁHRIF á friðlandið í Þjórsárverum. Ekki þarf á þungavigtarþekkingu hvorki í vistfræði né á Þjórsárverum að halda til að efast stórlega um að uppistöðulón (eyðimerkuruppspretta) sem á teikniborðinu er rétt um 0,5 metra neðan við hæðarlínu friðlandsmarka, nálægt þeim og jafnvel innan við þau, hafi engin langtímaáhrif?

Í Greinargerð með umsögn Umhverfisstofnunar er blákalt sagt á bls. 3: ”Upplýsingar um aursöfnun þegar lón stendur 568 m.y.s. eru ekki fyrir hendi…” Með öðrum orðum: Við vitum ekki en samt fullyrðum við… Eru þetta sæmandi vinnubrögð?

Fáfræði um aursöfnun hefði átt að nægja til að hafna útfærslu Landsvirkjunar vilji Umhverfisstofnun bera ábyrgð á gjörðum sínum. Er hægt að réttlæta það að blessa framkvæmd sem hefur ófyrirsjáanleg og jafnvel óafturkræf áhrif á friðland Þjórsárvera um alla framtíð?

Óþarfi er að orðlengja að vonbrigði mín með vinnubrögð hinnar nýju stofnunar eru veruleg. Engu er líkara en að loks hafi tekist að berja saman stofnun sem þjónar stjórnvöldum og Landsvirkjun í þrjátíu ára stríðinu gegn Þjórsárverum og heimamönnum. Þjórsárver eru eitt dýrmætasta svæði hálendisins. Þau hafa alþjóðlegan verndarstimpil; eru á Ramsarskrá síðan 1979 yfir mikilvæg votlendi heimsins en meginkrafa í Ramsarsáttmálanum er að vernda vistkerfið. Og því er mér er spurn: Er ekkert í náttúru Íslands þess virði að vernda gegn áformum Landsvirkjunar? Hverjum á að treysta fyrir náttúruarfi þjóðarinnar þegar stjórnvöld og stjórnsýslan bregst?

Umsögn Umhverfisstofnunar lýsir afleitum vinnubrögðum og engum dylst sem til þekkir að hún er í hróplegu ósamræmi við vinnubrögð forverans, Náttúruverndar ríkisins, í meðferð Þjórsárvera. Þess vegna ber að skoða allar leiðir til að ógilda umsögn UST.

Í upphafi svarbréfs UST til mín kemur fram að Landsvirkjun biður um “formlegt samþykki” Umhverfisstofnunar í erindi dags. 28. mars 2003. Í Greinargerð með umsögninni er vísað til “formlegrar afstöðu” sem Landsvirkjun biður um.

Umhverfisstofnun lék tveimur skjöldum í þessu örlagamikla ferli og samdi furðulegustu “umsögn” í sögu náttúruverndar á Íslandi. Þar með vékst stofnunin undan ábyrgð, dæmdi sjálfa sig úr leik og um leið allan almenning á Íslandi. Hún afsalaði Þjórsárverum í hendur Landsvirkjun þegar hún sniðgekk Þjórsárveranefnd, lögbundinn umsagnaraðila í málefnum Þjórsárvera og fræðilegan og lögbundinn ráðgjafa sinn, Náttúrufræðistofnun Íslands, einnig. Hefði Umhverfisstofnun leitað umsagnar er deginum ljósara að sérstakt leyfi hefði þurft að veita vegna umhverfisspjalla. Þá hefði aðkoma náttúruverndarfélaga og einstaklinga verið allt önnur.

Leikflétta eða leikrit?

Ljóst er af svari UST að það hefur þótt óæskilegt að fagstofnanir kæmu að umsögninni og til þess að sneiða hjá lögboðnum umsagnaraðilum ákveður UST upp á eigin spýtur að stífluútfærsla Landsvirkjunar skaði ekki friðlandið í Þjórsárverum.

Í svari UST Bls. 1-2 kemur fram: Tillaga “Landsvirkjunar eins og hún var kynnt stofnuninni til skoðunar í þeim tilgangi að kanna hvort hætta væri á að hún spillti friðlandinu og þar með að sækja þyrfti um leyfi stofnunarinnar fyrir framkvæmdinni.”

Með öðrum orðum: UST viðurkennir að spilli framkvæmdin friðlandinu þurfi sérstakt leyfi Umhverfisstofnunar. Það leyfi verður að byggja á vistfræðilegum forsendum og rannsóknum. En hér fer UST ekki alls kostar með rétt mál. Vistfræðileg umfjöllun verður að liggja fyrir hvort sem náttúruspjöll eru yfirvofandi eða ekki. Þess vegna á ALLTAF að leita til faglegra umsagnaraðila. En það kostar tíma og mikla vinnu vegna þess að vísindastofnanir sem búa yfir vistfræðilegri þekkingu á Þjórsárverum yrðu að skoða öll gögn vandlega.

Villuráfandi svar Umhverfisstofnunar ber líka að skoða í ljósi fyrirspurnar Gísla Más Gíslasonar, formanns Þjórsárveranefndar, til forstjóra UST þar sem GMG spyr hvort ekki hefði verið rétt að ráðfæra sig við nefndina. Hann biður jafnframt um túlkun á auglýsingu um friðland í Þjórsárverum, það er að segja hlutverki Þjórsárveranefndar.

”Skal nefndin (þ.e. Þjórsárveranefnd) ennfremur fjalla um endanleg mörk umræddra mannvirkja, ráðstafanir til að draga úr óæskilegum áhrifum þeirra á vistkerfi Þjórsárvera og hugsanlega endurskoðun á vatnsborðshæð miðlunarlónsins”.(Sbr. 2 bls. 2. málsgr. 5. lína).

Hvað skyldi nú þessi setning þýða? Skyldi hún þýða að Umhverfisstofnun eigi að sneiða hjá umsögn og ráðgjöf Þjórsárveranefndar? Varla. Áður hafði formaður Þjórsárveranefndar varað Umhverfisstofnun við með því að skilgreina túlkun sína á úrskurði setts ráðherra fyrst með tölvupósti 1. apríl og síðan með formlegri afstöðu og ítarlegum rökstuðningi 4. apríl s.l.

Einkennilegt að þessi gögn vantar í bréf UST.

Eina leið UST til þess að greiða götu Landsvirkjunar hratt og örugglega var sú formsins vegna að lýsa því yfir að tillaga Landsvirkjunar hefði engin langtímaáhrif. Með umsögninni veitir Umhverfisstofnun fyrirfram syndakvittun fyrir vafasömum framkvæmdum með því að stíga eitt eða tvö óhefðbundin skref til hliðar við almennar vinnu- og siðareglur.

Aldrei hefði forverinn Náttúruvernd ríkisins staðið þannig að málum, hvað þá Náttúruverndarráð hið forna. Með aðför sinni að Þjórsárverum hefur Umhverfisstofnun stórlega veikt nátturvernd á Íslandi og var hún þó ekki burðug fyrir.

Forstjóri og lögfræðingur UST fullyrða að ekki hafi verið “nauðsynlegt að afla frekari umsagna en gert var … til að komast að efnislega réttri niðurstöðu í málinu.” Hver er hin “efnislega rétta” niðurstaða? Er það niðurstaða sem hentar Landsvirkjun og ríkisstjórn eða ætti það að vera fræðilega rökstudd niðurstaða?

Því miður á umsögn Umhverfisstofnunar ekki aðeins við um útfærslu Landsvirkjunar í 568m hæð heldur líka “TVÖ SETLÓN” norðan friðlandsins – sem er ný útfærsla á “Setlóni með veitu” sem settur umhverfisráðherra nefndi svo en áður hafði grímulaust verið kölluð: 6.áfangi Kvíslaveitu – og Landsvirkjun hafði fallið frá í eitt skipti fyrir öll vegna fyrirsjáanlegs skaða fyrir verin.

Umhverfisstofnun gengur svo langt að samþykkja tvö setlón með fyrirvara um vöktun. Hún samþykkir í blindni að bæta við öðru lóni án krafna um ítarlegar rannsóknir, auk þess sem stærra lónið brýtur lög, því lón yfir 3 km3 verður að fara í mat á umhverfisáhrifum. Mat á umhverfisáhrifum er lögbundið ferli hafi Umhverfisstofnun ekki kynnt sér málið. Auk þess sem skortir verulega á rannsóknir eru uppi alvarlegar efasemdir um lónin eins og fram kemur í bréfi formanns Þjórsárveranefndar þann 4. apríl:

Landsvirkjun gerir ráð fyrir að taka nær allt vatn (mínus 2 m3/s sem má minnka í 1 m3/s eða auka í 3 m3/s). Mér sýnist þetta vera um 90% af meðalsumarrennsli Vesturkvíslar sem fer í setlónið. Hverjir svo sem þessir ,,sérfræðingar” voru sem Lv skipaði í vinnuhóp í samráði við Umhverfisstofnun, þá er alveg ljóst að grunnvatnsstaða lækkar við það að 90% af vatni er tekið úr á og flutt burtu. Það skiptir engu máli hvort afgangurinn, 10% verði látið renna meðfram bökkum svokallaðs Þjórsárkvíslavers (innan friðlandsins), þá hefur þetta áhrif á grunnvatnsborð í Arnafellsveri, Illaveri, Oddkelsveri og Tjarnarveri að vestan og Þjórsárjökulsveri, Eyvindarkofaveri og Þúfuveri að austan. Í úrskurði ráðherra segir að ,,gert verði setlón vestan Þjórsárlóns, utan friðlandsins, með tilheyrandi leiðigörðum, stíflum og skurðum. Veita ber vatni úr lóninu í kvíslar neðan þess þannig að tryggt verði að grunnvatnsstaða innan friðlandsins haldist að mestu óbreytt”. Ennfremu r segir: ,,Heimilt er að veita vatni að öðru leyti úr lóninu í Þjórsárlón”. Veita vatn í Þjórsárlón er ,,sekúnder” aðgerð, ef vatn verður aflögu til þess. Lv. segir að ,,niðurstaða sérfræðinga …tryggja sem næst óbreytt meðalgrunnvatnsborð í austurjaðri Þjórsárkvíslavers”. Úrskurður ráðherra er einmitt þannig ,,að tryggð verði að grunnvatnsstaða innan friðlandsins haldist ,,sem næst óbreytt”. Þetta þýðir á grunnvatnsstaða með tilheyrandi grunnvatnssveiflum verði ,,sem næst óbreytt” í Þjórsárverum…

Stofnunin leggur til að lónin verði vöktuð.

Vistfræðingar hafa áhyggjur af því að setlón Jóns Kristjánssonar með veitu (6.áfangi) boði verulega hættu fyrir friðland Þjórsárvera þótt veitan standi utan við friðlandsmörkin (Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Gísli Már Gíslason og fleiri). Tvö setlón sem Landsvirkjun vill byggja verður að líta á sem alvarlegustu friðlandsógnina til þessa. Langtímaáhrif lónanna hafa ekki verið könnuð, vatnafar er langt í frá fullkannað og allflestar rannsóknir vegna mats á umhverfisáhrifum þeirra hafa ekki farið fram. Þetta veit Umhverfisstofnun.

Rannsóknagögn Umhverfisstofnunar:

Gögn sem Umhverfisstofnun byggir álit sitt á 568m lónhæð eru:

a. b. c. d. Bréf frá Landsvirkjun,

e. Skýrsla OS-2003/014,

f. Grunnvatn í Þjórsárkvíslaveri, nokkrar ábendingar eftir Freystein Sigurðsson frá 25. júní 2003,

g. Úrskurður Jóns Kristjánssonar setts umhverfisráðherra frá 30. janúar 2003

h. Norðlingaölduveita. Forathugun á nýrri tilhögun. Verkfræðistofu Sigurðar

Thoroddsen hf. frá 24. janúar 2003.

Úrskurður setts umhverfisráðherra er eins og öllum er kunnugt ekki vísindarit og honum fylgdu gögn merkt h. Norðlingaölduveita. Forathugun…VST. Sjálfur hef ég gagnrýnt úrskurð Jóns Kristjánssonar þar sem hann býr til 6.áfanga Kvíslaveitu án mats á umhverfisáhrifum, heimilar stórt setlón sem eitt og sér brýtur í bága við lög um mat á umhverfisáhrifum og í þriðja lagi þá er niðurstaða J.Kr. þversögn við kröfur hans sjálfs um verndun Þjórsárverafriðlands. En þrátt fyrir alvarlegar þversagnir í úrskurði Jóns Kristjánssonar þá blasir alls staðar við vilji til að vernda friðland Þjórsárvera og að náttúran eigi að njóta vafans.

Umhverfisstofnun hefur virt þennan vilja að engu.

Vísindalegur bakhjarl Umhverfisstofnunar?

Skýrsla OS og ábendingar F.S. fjalla um grunnvatn í Þjórsárkvíslaveri. Þessi gögn eru því ekki gjaldgeng í röksemdum UST við veitutillögu Landsvirkjunar við Norðlingaöldu og geta ekki einu sinni varpað daufu ljósi á langtímaáhrif á Eyvafen og neðanvert friðland Þjórsárvera fremur en skýrslur um vatnafar á Kárahnjúkasvæðinu.

Eins og áður er nefnt kemur fram í greinargerð UST að rannsóknir á aursöfnun í Eyvafeni (568 m lónhæð) skortir. VST fullyrðir að vísu í skýrslu sinni bls. 4: “Lón með allt að 570 m.y.s. skerðir ekki gróðurlendi í friðlandinu, en ekki hefur þótt raunhæft að gera ráð fyrir fullvirkri aurskolun með öllu hærra lóni en í hæð 566 m.y.s.”

Fullyrðing VST um að uppistöðulón í allt að 570 m hæð skaði ekki gróður í Þjórsárverum stenst ekki. Öll uppistöðulón jökulvatns í gróðurlendum eru ávísun á alvarlegar gróðurskemmdir. Þar myndast fljótlega fjöruborð og á vetrum botnfrýs; gróður hverfur og jökulaur sest til. Eftir stendur lónbotn sem er sendinn og fokgjarn. Fjöruborðið stækkar stöðugt og nagar nærliggjandi gróður og jarðveg en fokefnin sækja inn á gróðurlendi og spilla.

Lón við Norðlingaöldu í 566 m hæð er í keilulaga hvilft og þess vegna er aurskolun talin möguleg þar. Aurskolun á marflötu landi Eyvafens í 568 m hæð er óhugsandi og hún er krafa í úrskurði ráðherra. Aurskolun á flatlendi er álíka heimskuleg tilhögun eins og að rykbinda jökulaur í Hálslóni. Séu þetta enn tillögur verkfræðinga Landsvirkjunar ættu þeir endilega að fá sér aðra vinnu, heppilegri fyrir þjóðina.

Í gróðurrannsóknum á Eyvafeni á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands kemur fram að gróðurfar í Eyvafeni sem Landsvirkjun vill sökkva á vetrum er fágætt og merkilegt. Þar kemur einnig fram að jarðvegur er sendinn í Eyvafeni, 60-70 sm þykkur að jafnaði. Með lóni í Eyvafeni kafnar gróður og frýs og þar með er Eyvafen orðið að eyðimörk á 1-2 árum.

Hvernig stendur á því að UST kynnti sér ekki vistgerðarannsóknir Náttúrufræðistofnunar, sem eru m.a. ný nálgun á vistkerfi Þjórsárvera, áður en umsögn var veitt?

Hvers vegna forðast UST öll gögn er varða vistfræði?

Hvers vegna forðast UST heildarsýn á friðland Þjórsárvera?

Þegar allt er á botninn hvolft þá er ljóst að rannsóknagögn Umhverfisstofnunar reynast aðeins vera “Bréf” Landsvirkjunar. Það er þunnur þrettándi fyrir vistfræðilega úttekt á langtímaáhrifum. Er Landsvirkjun loks orðinn vísindalegur bakhjarl Umhverfisstofnunar á sviði umhverfismála, náttúruverndar og vistfræði?

Túlkun upplýsinga

Fyrirspurn gpó: Hverjir túlkuðu gögnin fyrir UST? Var nefnd eða ráðgjafahópur skipaður til að fjalla um langtímaáhrifin?

Í svari UST bls.4 kemur fram að leitað hafi verið til tveggja valinkunnra manna utan stofnunarinnar “varðandi tiltekna þætti málsins”. Ekki var “talin ástæða til að skipa sérstaka nefnd né ráðgjafahóp til að fjalla sérstaklega og frekar um “langtímaárhif” tillögu Landsvirkjunar að veitutilhögun.”

Þetta er ónákvæmt ef marka má Greinargerð með umsögn UST bls. 3. Þar kemur fram að UST kallaði fjóra einstaklinga en ekki tvo til að fara yfir tillögurnar. Allir eru þeir viðurkenndir í sínum fögum. Einn er annálaður jarðfræðingur á Orkustofnun. Hinir þrír eru verkfræðingar en tveir þeirra vinna á Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen og eru því beinir hagsmunaaðilar. Enginn vistfræðingur kom að álitinu og enginn frá vísindastofnun sem vinnur að rannsóknum á lífríki landsins hvað þá lífríki Þjórsárvera. Þetta er undarlegt, ekki síst vegna þess að ráðgjafarnir eru einsleitur hópur þótt engri rýrð sé kastað á mannkosti þeirra, síður en svo. Hins vegar vekur það spurningar ef verkfræðingar teljast ígildi vistfræðinga og eðlilegt að spurt sé hvort Umhverfisstofnun hafi ekki aðgang að líffræðingum og vistfræðingum sem best þekkja til lífríkis Þjórsárvera?

Svar UST bls. 2: “Umhverfisstofnun telur að álit stofnunarinnar sé byggt á þeirri vísindalegu þekkingu um vistfræði Þjórsárvera sem var til staðar þegar umsögnin var gefin.”

Hvar var þessi þekking til staðar? Var hún á Umhverfisstofnun? Hefur Umhverfisstofnun unnið að rannsóknum í Þjórsárverum? Vann Náttúruvernd ríkisins að rannsóknum þar? Eru einhverjir sérfræðingar á Umhverfisstofnun sem hafa unnið að rannsóknum í Þjórsárverum og sérhæft sig í vistfræði veranna? Hvar kemur þessi vísindalega og vistfræðilega þekking fram í umsögn Umhverfisstofnunar?

Varúðarreglan óþekkt?

Fyrirspurn gpó: Var niðurstaða UST í samræmi við Varúðarregluna – að náttúran skuli njóta vafans?

Svar UST bls. 2: “… Við gerð umsagnar stofnunarinnar var tekið fullt tillit til þessa lögmæta varúðarsjónarmiðs 38. gr. náttúruverndarlaga.”

38. gr. Náttúruverndarlaga heitir “Hætta á röskun náttúruminja”og fjallar um hættu á því að spilla friðlýstum náttúruminjum með framkvæmdum. Þessi grein Náttúruverndarlaga hefur aldrei verið kölluð varúðarregla, hvorki með stóru vaffi né litlu, svo vitað sé fyrr en nú, og vekur það nokkra undrun satt að segja. Varrúðarreglan, sem Íslendingar samþykktu með undirritun á Ríóyfirlýsingunni í Brasílu árið 1992, er ein mikilvægasta grundvallarregla í umhverfismálum. Hún hljóðar svo í þýðingu umhverfisráðuneytisins:

”Varrúðarreglan kveður á um að ekki skuli að öðru jöfnu ráðist í framkvæmdir sem kunna að hafa alvarleg eða óbætanleg umhverfisáhrif í för með sér, fyrr en sýnt er að þær hafi ekki slík áhrif.“

Í umsögn Umhverfisstofnunar er Varúðarreglunni snúið á haus og framkvæmdin látin njóta vafans, enda virðast bréfritarar á Umhverfisstofnun ekki kannast við eina mikilvægustu alþjóðasamþykkt sem til er í umhverfismálum.

Álit Umhverfisstofnunar

Svar UST bls. 2: “Umhverfisstofnun gaf álit á framkvæmd sem búið var að úrskurða um á æðra stjórnsýslustigi og fólst í að heimila framkvæmd með ákveðnum skilyrðum.”

Hið rétta er að Umhverfisstofnun gaf álit á allt annarri útfærslu á framkvæmd en búið var að úrskurða um – bæði hvað varðar Norðlingaölduveitu og 6.áfanga Kvíslaveitu.

Svar UST bls. 3: “Umsögn Umhverfisstofnunar er ekki stjórnvaldsákvörðun heldur álit stofnunarinnar á tiltekinni veitutillögu sem lögð var fyrir stofnunina og byggð á þeim lagagrunni sem nefndur var að framan. Við úrlausn þeirrar stjórnsýsluathafnar er Náttúrufræðistofnun Íslands ekki lögbundinn umsagnaraðili. 

Umsögn Umhverfisstofnunar átti að sjálfsögðu að byggja á fræðilegum og faglegum grunni – og fara að lögum. Þess vegna er henni beinlínis skylt að leita umsagnar fagstofnana. Engin fær leið er fyrir UST að meta langtímaáhrif 568 m stíflu á friðland Þjórsárvera út frá þeim gögnum sem UST hefur haft til hliðsjónar og síst með Landsvirkjun ofan í hálsmálinu. Enginn sérfræðingur í vistkerfi Þjórsárvera er tiltækur á stofnuninni þótt innan Náttúruverndarsviðs stofnunarinnar sé einstaklingur sem hefur ágæta yfirsýn. Fingraför hans á umsögn Umhverfisstofnunar eru hins vegar hvergi sjáanleg.

Bolabrögðin verða að teljast ærin að ákveða fyrst að langtímaáhrif 568 m stíflu séu engin til að komast hjá því að leita til lögbundinna umsagnaraðila. Margt bendir því til þess að Umhverfisstofnun hafi einmitt farið á svig við lög í umsögn sinni þar sem hún rauf eðlilegt ferli. Ófróður er ég um lög en umsögnin var í það minnsta ákvörðun stjórnsýslu sem studdist ekki við bestu þekkingu á vistkerfi Þjórsárvera.

Rakalaus fullyrðing

Svar UST bls. 4: “Framkvæmdin eins og hún var kynnt stofnuninni er að öllu leyti fyrir utan friðlandsmörkin og hefur ekki langtímaáhrifi inn í það.”

Umhverfisstofnun leitaði fyrst og fremst til sérfræðinga á sviði set-, straum- og grunnvatnsfræða. Málið er margfalt flóknara. Vistkerfi Þjórsárvera er vissulega háð þessum þáttum en örlítil breyting á vatnsstöðu og rennsli getur haft afdrifarík og langvarandi áhrif. Enginn þessara ágætu ráðgjafa er sérfræðingur í vistkerfi Þjórsárvera og mér er til efs að þeir hafi fullyrt að 568 m stífla hafi engin áhrif á vistkerfið – enda geta þeir það ekki. Álit Umhverfisstofnunar virðist lafa á vatnafræðilegum rökum sem eru EKKI sett í samhengi við vistfræði Þjórsárvera. Þess vegna er niðurstaða Umhverfisstofnunar ekki aðeins RÖNG heldur fullkomlega ábyrgðarlaus.

Flestum sem til þekkja er ljóst að friðlandsmörkin eru óljós og ónákvæm. Þau voru bráðabrigðalína sem strikuð var á milli tveggja staða á gróft landakort. Á stórum svæðum liggur hún þvert yfir gróðurlendi og víða er marflatt land. Báðir þessir þættir bera vott um óeðlileg mörk friðlands og ekki verður nokkurri skynsemi komið við að ákveða friðlandsmörk í 568,5 m hæð yfir sjó við Eyvafen. Slíkt viðmið er býsna veruleikafirrt og heimskt þegar land er marflatt og hulið gróðri svo dæmi séu tekin. Talan 568,5 getur ekki verið heilög. Í 568 metra hæð er lónhæðin á flatlendi ólíkt lónhæð í 566 metrum. Á þessu marflata landi munu staðalfrávik hæðamælinga Landsvirkjunar vera +/- 0,5 metrar samkvæmt mínum heimildum. Þetta þýðir að punktur sem á að marka útlínu lóns gæti verið á allt að 1 m dýpi og lónið mun stærra en fram kemur á kortum. Með öðrum orðum: Lónhæð í 568 m hæð þýðir að lónið er sums staðar komið langt inn fyrir friðlandið. Aðeins út frá flatlendi og staðalskekkju í mælingum hefðu rauðu ljósin átt að blikka um alla Umhverfisstofnun – eða gerði “vísindalegi bakhjarl” stofnunarinnar – Landsvirkjun – ekki grein fyrir þessu?

“The Island effect”

Til viðbótar má hafa eftirfarandi í huga. Vistfræðileg reynsla víðsvegar um heim hefur kennt mönnum að svokölluð “eylendi” í náttúrunni eru ávallt viðkvæm fyrir áreiti (Island effect) og láta undan með tímanum. Friðlandið í Þjórsárverum er aðeins brot af slíku “eylendi” en Þjórsárverin eru í heild slíkt fyrirbæri. Þess vegna er afar mikilvægt að stækka friðlandið í landfræðilega heild Þjórsárvera eins og Umhvefrisstofnun hefur líka lagt til. Þessa nauðsynlegu og eðlilegu stækkun friðlandsins hefði Umhverfisstofnun átt að virða þegar umsögn UST um tillögu Landsvirkjunar var til umfjöllunar. Umsögn Umhverfisstofnunar er þar af leiðandi þversögn við eigin ábendingu um stækkun friðlandsins. Hún brýtur freklega í bága við úrskurð setts umhvefisráðherra; reglur um lögboðna umsagnaraðila og er að líkindum margfalt lögbrot.

“Skrumskæling á lýðræði”

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra vitnaði í umsögn UST og kallaði það “skrumskælingu á lýðræði” þegar meirihluti hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps hafnaði stífluútfærslum Landsvirkjunar. Friðrik Sophusson forstjóri Landsvirkjunar gekk einnig mjög hart fram í sleggjudómum sínum og vitnaði í umsögn Umhverfisstofnunar og hefur sent sína menn austur í sveitir til að koma vitinu fyrir skilningssljóa heimamenn, eins og hann gaf svo smekklega í skyn.

Spyrja má í sömu andrá hvort það geti verið “skrumskæling á lýðræði” þegar embættismenn, sem eiga að gæta hags núverandi og komandi kynslóða með því að varðveita náttúrugersemar landsins, gefa út álit um eitt stórbrotnasta og viðkvæmasta svæði á Íslandi sem stenst engan veginn lágmarkskröfur sem gerðar eru til faglegrar úttektar? Eða voru það kannski iðnaðarráðherra og forstjóri Landsvirkjunar sem skrumskældu lýðræðið?

Niðurstaða:

Með óvandaðri, pólitískri umsögn hefur Umhverfisstofnun sýnt alvarlegt dómgreindarleysi. Ég skora á Umhverfisstofnun að draga umsögn sína til baka og standa faglega að nýrri umsögn núna þegar framkvæmdum hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Aðeins þannig getur stofnunin aflað sér trausts og virðingar á ný.

Með vinsemd,

Guðmundur Páll Ólafsson, náttúrufræðingur

Neskinn 1, 340 Stykkishólmi

Gögn:

Bréf Gísla Más Gíslasonar formanns Þjórsárveranefndar til gpó frá 06.10.2003 (Fylgiskjal)

Fyrirspurn Guðmundar Páls Ólafssonar til Umhverfisstofnunar. Dags. 14.september, 2003

Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi. Framkvæmdaáætlun til aldamóta.

Umhverfisráðuneytið. Júni, 1997

Tilvísun í Þóru Ellen Þórhallsdóttur: Erindi flutt í Norræna húsinu 7.október, 2003 og viðtal í Speglinum 9.10.2003

Tilvísun í vistgerðarannsóknir og sendinn jarðveg Eyvafens. Sigurður Magnússon: Erindi flutt í Norræna húsinu 7. október, 2003

Weiner, Jonathan. The Next One Hundred Years. Shaping the Fate of Our Living Earth. Bls. 163-190. Bantam Books. N.Y.1991. Tilvísun í vistfræðileg “eylendi” (Island Effect):

Afrit sent hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Þjórsárveranefnd, Náttúrufræðistofnun Íslands, Líffræðistofnun Háskóla Íslands, þingmönnum og öðrum þeim er þörf þykir.

birt 4.11.2003

Comments are closed.