Þjórsárver, stjórnvöld fari að leikreglum – Tryggvi Felixson

Fyrir um fjórtán árum síðan höfðu tveir ráðherrar Framsóknarflokksins frumkvæði að því að leggja upp í þá vegferð sem gengur undir nafninu »rammaáætlun«. Uppruninn liggur í áætlanagerð sem hófst þegar Steingrímur Hermannsson var forsætisráðherra en málið komst fyrst á rekspöl í ráðherratíð Sivjar Friðleifsdóttur og Finns Ingólfssonar. Ákvörðun þeirra byggði á hugmynd um að skoða margar tillögur um virkjanir samtímis og draga þær í þrjá dilka; landsvæði sem vænlegt væri að virkja (nýtingarflokk), svæði sem skoða þyrfti betur (biðflokk) og svæði sem heppilegast væri að hlífa við virkjunarframkvæmdum (verndarflokk). Þáverandi formaður Landverndar, Jón Helgason, fyrrverandi forseti Alþingis, vann ötullega að því að koma þessu verkefni í gang. Markmiðið var að ná sem víðtækastri sátt um landnýtingu með víðtæku samráði, opnu matsferli og greiningu hæfustu sérfræðinga. Þær leikreglur sem fyrrgreindir ráðherrar lögðu grunn að voru lögfestar 16. maí 2011 í lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Í 6. gr. segir: »stjórnvöld skulu þegar Alþingi hefur samþykkt verndar- og nýtingaráætlun hefja undirbúning að friðlýsingu landssvæða sem ástæða þykir til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu samkvæmt verndarflokki áætlunarinnar«. Í skýringum við frumvarpið er tekið fram að virkjunarsvæði í vatnsafli miðist við allt vatnasvið fallvatns ofan þeirrar virkjunar sem nýtir fallið og farveg fallsvatnsins neðan virkjunar. Einnig er tilgreind sú meginregla að hvers konar framkvæmdir og rannsóknir vegna virkjunarkosta í verndarflokki séu óheimilar.

Á vorþingi 2013 var samþykkt þingsályktun sem setur hugmyndir um Norðlingaölduveitu í verndarflokk. Mörk þess svæðis sem um er að ræða má skilgreina bæði með þeim lögskýringum sem að framan greinir og í skýrslu verkefnistjórnar rammaáætlunar. Ekki fer á milli mála að átt er við Þjórsá frá upphafskvíslum allt suður að Sultartangalóni. Þar sem vatnasviði að austan hefur þegar verið raskað með Kvíslaveitum er aðeins um vatnasviðið að vestan að ræða. Kvíslaveitur fékk Landsvirkjun á sínum tíma heimilaðar þegar ljóst var að veruleg andstaða var við allar hugmyndir um veitur eða virkjanir sem hefðu áhrif á Þjórsárver. Litu margir svo á að það væri sátt sem fæli í sér að ekki yrði frekar gengið á vatnasviðið í ofanverðri Þjórsá. Það varð því miður ekki reyndin.

Umhverfisráðherra boðaði til fundar 19. júní sl. þar sem ætlunin var að staðfesta stækkun friðlandsins um Þjórsárver á þann hátt að útlokaði Norðlingaölduveitu. Það var í góðu samræmi við fyrrnefnd lög, niðurstöðu rammaáætlunar og samþykkt Alþingis. Ráðherra hugðist gera það sem honum ber samkvæmt lögum, enda væri hann að öðrum kosti að ganga gegn lögum. Við þessi tíðindi greip Landsvirkjun til örþrifaráða. Fyrirtækið gleymdi loforðum að fara að niðurstöðu rammaáætlunar. Ráðherra var hótað lögsókn skrifaði hann undir. Þessi viðbrögð Landsvirkjunar sköpuðu tímabundna óvissu um hvort lögformlega væri rétt að öllu staðið. Nú hefur málið verið skoðað og ljóst er að rétt hefur verið að öllu staðið. Því ætti ekkert að vera að vanbúnaði fyrir umhverfisráðherra að fara að lögum og hefja hið snarasta undirbúning að friðlýsingu til að ljúka þeim deilum um þetta svæði sem staðið hafa í liðlega hálfa öld. Við sem trúum enn á réttarríkið Ísland treystum því að umhverfisráðherra gangi frá málinu, í samræmi við lög og þá hugmyndafræði sem ráðherrar Framsóknarflokksins lögðu grunn að, þegar vinna við rammaáætlun hófst árið 1999. Að breyta leikreglum nú yrði engum til vegsauka og skapaði réttaróvissu um niðurstöður rammaáætlunar í heild.