Fundarboð: Afmælishátíð í Árnesi 17. mars 2012 kl. 14

Aside

Fjörutíu ár eru nú liðin síðan barátta heimamanna í Gnúpverjahreppi fyrir verndun Þjórsárvera hófst.

Nú hyllir undir lok þeirrar baráttu og því ber að fagna.

Þann 17. mars 1972 boðaði landgræðslunefnd Ungmennafélags Gnúpverja til almenns sveitarfundar um Þjórsárver og þá ógn sem steðjaði að þeim vegna hugmynda um risastórt miðlunarlón sem hefði sökkt verunum. Þessi atburður markaði upphaf varðstöðunnar um Þjórsárver sem markaði tímamót í sögu náttúruverndar á Íslandi.

Fundurinn var fjölmennur og stóð fram á nótt. Þar kom fram einhugur um að vernda bæri Þjórsárver. Samþykkt var ályktun þar að lútandi og til er ítarleg fundargerð. Þegar hún er lesin – nú 40 árum síðar – er ljóst að þessi fundur skipti sköpum um framgang mála á þeim tíma og fyrir baráttuna alla tíð síðanÍ tilefni þessara tímamóta boða Vinir Þjórsárvera, Áhugahópur um verndun Þjórsárvera, Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands til fundar í félagsheimilinu Árnesi. Skyggnst verður inn í tíðarandann í Gnúpverjahreppi fyrir fjörutíu árum, litið yfir farinn veg og horft til framtíðar. Meðal framsögumanna eru Birgir Sigurðsson rithöfundur, sem var einn þeirra sem stóðu fyrir fundinum árið 1972, Gísli Már Gíslason prófessor og formaður Þjórsárveranefndar og Helga Ögmundardóttir mannfræðingur sem hefur rannsakað bakgrunn þess að Gnúpverjar tóku sér svo afgerandi stöðu með náttúrunni, óbyggðunum og fuglum himinsins. Flutt verður tónlist og kaffiveitingar verða á boðstólum.

Erindi flutt á 40 ára afmæli Árnesfundarins, 17. mars 2012

Aside

Helga Ögmundardóttir, mannfræðingur.

 Ágæta samkoma.

Ég vil byrja á því að þakka fyrir að fá að tala hér í dag, og óska ykkur, og okkur öllum, til hamingju með daginn!

Ástæðan fyrir því að ég var fengin til að tala hér í dag er sú að ég gerði rannsókn á deilunni um Norðlingaölduveitu á árunum 2004 til 2008 og skrifaði doktorsritgerð í mannfræði um hana, sem ég varði við Uppsalaháskóla í Svíþjóð fyrir tæpu ári síðan.

Ritgerðin er á ensku og heitir The Shepherds of Þjórsárver – Traditional Use and Hydropower Development in the Commons of the Icelandic Highland.  Á íslensku Fjárhirðar Þjórsárvera – hefðbundin nýting og uppbygging vatnsaflsvikjana á afréttum hálendis Íslands.  Hún er rúmar 300 blaðsíður og ég ætla ekki að gera tilraun til að gera henni allri skil á þessum 15 mínútum sem ég hef hér, en stikla þess í stað á stóru.

Ég hef samið þetta erindi nokkrum sinnum í huganum undanfarnar vikur því eins og þið vitið er viðfangsefnið margslungið og hægt að nálgast það frá ýmsum hliðum.

Það er líka staðreynd að málið er ekki til lykta leitt og því ekki hægt að líta í hinn sögulega baksýnisspegil og segja sögu baráttunnar og setja svo punkt á eftir.  Eða eins og einn viðmælandi minn af eldri kynslóðinni sagði við mig, ég man ekki nákvæmlega hvaða ár en það var á einhverjum þeim tímapunkti þegar vopnahlé varð í deilunni um Norðlingaölduveitu; hann sagði “þeir koma alltaf aftur”.

Það má ekki láta blekkjast þótt ekkert heyrist úr herbúðum virkjunarsinna, jafnvel árum saman, því maskínan mallar einhvers staðar þarna undir og undirbýr næsta áhlaup.

Eins og nafn bókarinnar bendir til beini ég í rannsókninni sjónum að því fólki sem staðið hefur vörð um Þjórsárver síðustu áratugi, einkum Gnúpverjum sem eiga jú afrétt á svæðinu sem deilt er um.  Ég þarf víst ekki að tíunda það hér!  Að sjálfsögðu koma aðrir við sögu, bæði samherjar þeirra annars staðar á landinu, sem og erlendis, og svo talsmenn virkjana innan og utan sveitar.  Í brennidepli eru andstæðingar virkjunar Þjórsár við Norðlingaöldu, því ég sá strax að hjá þeim væri að finna áhugverðasta efnið í rannsókn á slíkri deilu.  Auk þess var mér ljóst að skoðanir og röksemdafærsla virkjuninni í hag hefðu fengið næga kynningu í ýmsum fjölmiðlum og á heimasíðum valdamikilla og fjársterkra aðila.

Sem mannfræðingur beinist áhugi minn einkum að röddum þeirra sem standa andspænis valdi og peningum, oft í að því er virðist vonlausri stöðu, en sem hafa samt kjark og þolgæði til að standa uppi í hárinu á slíku valdi, jafnvel áratugum saman eins og í því tilfelli sem um er fjallað hér.  Ég sá strax að saga og sérkenni þessarar deilu fælu í sér mjög áhugaverða nálgun og upplýsingar um staðarsamfélagið – hreppinn – nágrenni þess, íslenskt samfélag og samskipti og stöðu þessara félagslegu eininga við hinn stóra heim.  Um allan heim hafa og eru að gerast slíkir hlutir: lítil samfélög standa andspænis valdamiklum fyrirtækjum og ríkisvaldi sem ásælast auðlindir þeirra og hvernig sem hið pólitíska kerfi er vaxið á hverjum stað verða íbúar samfélagsins að gera upp hug sinn um hvort og hvernig auðlindirnar eru nýttar.  Sú ákvörðun er aldrei auðveld og oftar en ekki klýfur hún fjölskyldur, ættir og heil samfélög, en það sem eftir stendur er hvernig fólkið lifir með og vinnur úr afleiðingum ákvörðunarinnar.

Hvort sem staðið er gegn ákveðinni auðlindanýtingu eða hún boðin velkomin hefur það afleiðingar fyrir ófæddar kynslóðir og menningu þess staðarsamfélags sem um ræðir.  Algengast er að líklega að sú auðlind sem nýtingarsinnar ásælast endar með því að vera nýtt á einn eða annan hátt og það þarf ekki alltaf að vera neikvætt fyrir þá sem næst búa.  En það sem skiptir máli er eðli auðlindarinnar, stærð hennar og umfang og síðast en ekki síst sú merking sem hún hefur í hugum þeirra sem þekkja hana best.

Það er hérna sem Þjórsárver; vistkerfið, landsvæðið, afrétturinn, eða hvað maður vill kalla það, fer að verða áhugavert fyrir mannfræðinginn: merking þess er svo djúp og margslungin fyrir alla sem þekkja til, og þeirra sem ekki þekkja en hafa haft veður af, að hreinlega allir verða að hlusta.  Nafnið – Þjórsárver – er ekki bara orð eða hugtak, það er heill heimur af tengdum hugmyndum, sem kalla fram í hugum okkar alls kyns aðrar hugmyndir, tilfinningar og vitneskju og það að hugsa um Þjórsárver, hvað þá að koma þangað, breytir lífi manns.  Svæðið er þannig, sem afréttur, vistkerfi eða landsvæði, hluti af sjálfsmynd heimamanna, Sunnlendinga, Íslendinga, umhverfisverndarsinna, vísindamanna eða hvaða hóps sem hefur komið við sögu þess á einn eða annan hátt.

Hvað varðar Gnúpverja og margra nágranna þeirra sérstaklega hefur andstaðan við virkjun þar orðið hluti af menningu og minni staðarsamfélagsins.  Þetta hefur bæði gert fólk sterkara og sameinað það, en getur einnig verið ákveðinn veikleiki, sérstaklega þar sem það sundrar litlu samfélagi.  Og svo lengi sem deilan er óleyst og framkvæmdir í rauninni stöðugt yfirvofandi, sbr. “þeir koma alltaf aftur”, getur það tært huga þeirra sem gefast ekki upp en hafa tekið þá ákvörðun að standa vörð um verin, og stundum skilið eftir djúp sár.  Þegar því er ógnað sem er hluti af persónulegri og félagslegri sjálfsmynd manns gefur það auga leið að einhvers staðar innst inni krauma óþægindi og jafnvel sársauki.  Þessi staðreynd er eitt af því sem ég sá fjótt að var einn af meginþráðum þessarar sögu og mikilvægur hluti af rannsókn minni gekk út á að skilja hvernig fólk lifir með slíku.  Ekki má gleyma því að ofan á þessa deilu bætast svo hlutir, sem aukið geta álag á íbúana, eins og sameiningar sveitarfélaga, þjóðlendumál, fækkun íbúa, breytingar á búskaparháttum og annað slíkt.  Þetta kann að hljóma dramatískt, en þannig er það nú með öll samfélög mannanna að í þeim eiga sér stað bæði góðir hlutir og slæmir.  Sú menning sem þróast á hverjum stað snýst um að íbúarnir njóti þess góða og lifi með og þrátt fyrir hið slæma, sem einstaklingar og sem hópur.  Það er, þegar á hólminn er komið, ekkert smáræðis álag fyrir eitt samfélag að standa í slíkri deilu sem deilan um Þjórsárver er, þótt í lið með því sláist margt gott fólk innanlands og utan.

 

Þótt ég fjalli ekki sérstaklega um það í ritgerðinni get ég ekki látið vera að leiða hugann að hugtakinu sjálfbærni sem svo oft ber á góma í umræðum um umhverfismál og náttúruvernd þessa dagana.  Töluvert er vitað og fjallað um sjálfbæra nýtingu vistkerfa, og náttúru yfirleitt, þótt ekki sé hún iðkuð nema að litlu leyti, sem og hugmyndina um sjálfbært hagkerfi, en þegar talið berst að félags- eða menningarlegri sjálfbærni vefst flestum tunga um tönn.  Ef við skoðum einföldustu skilgreininguna á sjálfbærri auðlindanýtingu, þá gengur hún út á að ekki megi ganga á náttúruna og auðlindir hennar í dag þannig að það komi í veg fyrir að komandi kynslóðir njóti sömu möguleika og lífsgæða og við, hér og nú.  Þá má spyrja sig hvernig félagsleg sjálfbærni myndi geta litið út?  Svarið gæti verið á þá leið að það félags- og menningarlega kerfi sem ríkir á hverjum stað á hverjum tímapunkti mætti ekki fara þannig með þátttakendurna að afkomendur þeirra muni lifa erfiðara, innantómara og yfirleitt verra félags- og menningarlífi en þeir.  Þau samskiptamynstur, viðhorf, gildi, minningar og sögur sem þróast hafa í samfélaginu mega þannig ekki verða harðneskjulegri, neikvæðari, eða meira niðurdrepandi fyrir þá sem inn í það fæðast, þannig að þeir finni ekki til samkenndar né hafi áhuga á að búa með hinum íbúunum.  Þetta er áhugaverð hugleiðing fyrir okkur Íslendinga núna svona rétt eftir hrun.  Það er ekki félagslega sjálfbært samfélag ef unga fólkinu líður ekki vel, þykir ekki vænt um nágranna sína, á ekki í ríkulegum og eðlilegum samskiptun, og vill helst flytja burt eins fljótt og auðið er.  Þetta er afar einfölduð mynd af því sem í húfi er en nægir okkur hér og nú.  Ég er með þessum vangaveltum ekki að halda því fram að svona sé komið fyrir fólki í þessu samfélagi, þar sem lífið gengur að mestu leyti sinn vanagang og fólki líður almennt vel, en það er mikilvægt að leiða hugann að því hvaða áhrif langdregnar deilur geta haft á samfélag eins og þetta.

Það er alveg ljóst að óleyst deila sem tekur orku og tíma, skapar illindi og klýfur náinn hóp fólks, áratugum saman, stuðlar ekki að félagslegri sjálfbærni til lengdar.

Þetta er umhugsunarefni fyrir hvert það yfirvald sem slær um sig með tali um sjálfbæra þróun, og slík deila er ekkert einsdæmi á Íslandi, hvorki í sögulegum né landfræðilegum skilningi, þótt þessi sé sérlega langdregin og risti djúpt.  Yfirvald og ríkisfyrirtæki sem kynda undir slíkri deilu með stefnu sinni, áratugum saman, en þykjast að öðru leyti styðja sjálfbæra þróun, þurfa að enduskoða þekkingu sína á hvað sjálfbærni þýðir – ekki bara sem fræðilegt hugtak heldur stefna og takmark í raunverulegum aðstæðum.

Ein af þeim niðurstöðum sem ég kemst að í rannsókninni minni er að hér hefur fólki að mestu tekist að meðhöndla þessa deilu á uppbyggilegan hátt þannig að hún veitir þeim miklu frekar innblástur en að hún eyðileggi andrúmsloftið milli manna, þótt óneitanlega hafi hún skilið eftir sár sem seint gróa.  Það er ekki sjálfgefið að slíkt gerist og heimurinn er fullur af dæmum um hið gagnstæða þar sem ágreiningur um auðlindanýtingu hefur skilið eftir samfélag í sárum, ekki síst ef nýtingin hefur fengið að eiga sér stað á ágengan og eyðileggjandi hátt.  Sú staðreynd að ekki hefur verið hróflað við helgidómi Þjórsárvera, þótt nagað hafi verið í jaðrana svo á sér, er lykillinn að því að hér er fólk stolt yfir árangri sínum og staðráðið í að halda áfram á sömu braut.  Það sýnir mikinn félagslegan þroska og meðvitund um sögu og menningu að samfélagið hefur getað komist svo klakklaust í gegnum síðustu 40 sem raun ber vitni.

 

Í lokin ætla ég að gerast ögn heimspekilegri og velta fyrir mér hvað í ósköpunum það sé sem fær fólk til að halda út jafn langa baráttu og þessa sem hér um ræðir, og af hverju það byrjar yfirleitt að mótmæla formlega og sem ein heild, eins og gerðist hér í Árnesi fyrir 40 árum.  Það hefur alltaf vafist fyrir fræðimönnum hvað það sé sem tengir mann og náttúru.  Skýringarnar eru margar og bera keim af þeim tíma og samfélagi sem þær eiga rætur sínar í.  Svo mikið er okkur ljóst að við erum upprunnin og háð náttúrunni, og verðum alltaf, og það að eyðileggja hana og raska ferlum hennar er eins og að saga undan sér greinina sem maður situr á eða slátra einu mjólkurkúnni sinni fyrir stundargróða.  Skynjun okkar á okkur sjálfum, sem einstaklingum og sem hópi, er ómöguleg án þess umhverfis sem við dveljum í, ekki síst þess sem er stærra og yfirgripsmeira en nokkuð það sem við höfum skapað sjálf.  Það er aðeins andspænis því sem við skynjum sem náttúrulegt sem við skiljum hvað það er að vera manneskja.  Því þótt við séum af henni komin aðskiljum við okkur frá henni en því hefur einmitt verið haldið fram að þessi tvíhyggja sé rótin að því hve illa við höfum farið með náttúruna.

Þegar við stöndum andspænis og umlukin fyrirbærum náttúrunnar eigum við samskipti við hana, og hún svarar okkur og segir okkur sannleikann um okkur sjálf og aðra menn.  Þegar við förum á vit hennar sem hópur, eins og þegar farið er í fjallferð eða bara ferðalag inn á afrétt, sést svart á hvítu hvaða mann hver og einn hefur að geyma og hvaða gildi hver hefur fyrir hina í hópnum.  Hlutverk og samskipti innan hópsins í ríki náttúrunnar draga fram aðalatriði þess sem á sér stað niðri í byggð og það sem mestu máli skiptir er að í hópnum ríki traust, samstaða og skipulag.

Þarna verður boðorðið “einn fyrir alla og allir fyrir einn”, eins og hjá Skyttunum forðum daga, æðst, og þegar komið er aftur til byggða hafa ævagömul bönd verið treyst og endurnýjuð, bönd sem athafnir og samskipti milli einstaklinga og fjölskyldna í sveitinni njóta góðs af.  Umhyggja og samvinna milli nágranna og vina í byggð verður þannig óaðskiljanleg frá hinni árvissu ferð í óbyggðir, og þótt ekki taki allir þátt í ferðinni sjálfri, eru allir íbúar sveitarinnar, sem og vinir og ættingjar annars staðar, með á vissan hátt, því allir vita hvað stendur til og hvað er í húfi.  Sögur og kvæði um fjallferðir fortíðarinnar viðhalda böndunum og kenna ungviðinu hvert sé gildi afréttarins og náttúrunnar þar.

Heimspekingurinn Heidegger orðaði það einhvern veginn þannig að náttúran kalli nafn okkar og segi okkur þannig hver við séum, og ef við hlustum, svörum við henni með því að standa um hana vörð og varðveita allt sem í henni er.  Þegar við munum ekki lengur hver við erum, köllum við aftur til hennar og spyrjum hver við séum, og hún svarar og segir okkur sannleikann um okkur, séum við að hlusta.  Eða við spyrjum hana ekki og missum tengslin og þá vita allir hvernig fer.  Þetta er það sem er kallað firring.  Ástand hennar, sem við fyrst og síðast berum ábyrgð á, segir allt um okkur og hvers virði menning okkar sé.  Það er heildin sem skiptir máli, hún má því ekki vera hlutuð sundur, og heildarmynd samfélagsins á sína samsvörun í heildamynd náttúrunnar sem speglar sig í henni.  Sé maður tilbúinn að fórna dýrmætustu hlutum þeirrar náttúru sem maður ber ábyrgð á, hefur maður jafnframt fyrirgert rétti sínum að fyrir manni sé borin virðing í því samfélagi sem sækir innblástur og sjálfsskilning í þessa sömu náttúru.

72% atkvæðisbærra Gnúpverja

72% atkvæðisbærra Gnúpverja

Þriðjudaginn 26. júní 2001 var Siv Friðleifsdóttur, umhverfisráðherra, Valgerði Sverrisdóttur, iðnaðarráðherra og Kartínu Fjelsted, alþingsmanni fyrir hönd Umhverfisnefnd Alþingis afhent undirskriftalistar sem áhugahópur um verndun Þjórsárvera stóð fyrir að safna í Gnúpverjahreppi 23.-25. júní 2001.

72% atkvæðisbærra Gnúpverja til kosningar til sveitarstjórnar undirrituðu áskorunina.
Skorað er á stjórnvöld að tryggja til frambúðar verndun Þjórsárvera og heimila engar frekari virkjunarframkvæmdir þar og í efri hluta Þjórsár. Ennfremur er minnt á fyrri samþykktir Gnúpverja um þessi mál.

Fimmtudaginn 28. júní 2001 var sveitarstjórn Gnúpverjahrepps afhent sömu undirskriftalistar.

birt 29.6.2001

Opinn fundur í Norræna húsinu 7. október 2003

Opinn fundur í Norræna húsinu 7. október 2003 kl. 16.30-18.30

Lón, náttúra og lögfræðileg álitmála vegna Þjórsárvera
Hver verða áhrif lóns í 568 m.y.s á Þjórsárver og setlóna og veitu austan Arnarfells?
Hvaða er í húfi í Eyvafeni?
Hefur verið farið að lögum?

Þetta eru spurningar sem reynt verður að svara á opnum fundi í Norræna húsinu í Reykjavík þriðjudaginn 7. október n.k.

Áhugahópur um verndun Þjórsárvera boðar til opins fundar í Norræna húsinu til að fjalla um áhrif uppistöðulóns í 568 m.y.s. á lífríki og landslag í Þjórsárverum. Á fundinum verður einnig fjallað um lögfræðileg álitamál vegna úrskurðar Jóns Kristjánssonar setts umhverfisráðherra og ákvörðunar Samvinnunefndar um miðhálendi Íslands að taka til umfjöllunar og efnislegrar meðferðar tillögu Landsvirkjunar um breytingar á skipulagi miðhálendisins, í trássi við vilja viðkomandi sveitafélags. Meðal frummælenda á fundinum verða Katrín Theodórsdóttir lögmaður, Hlynur Óskarsson náttúrufræðingur og Þóra Ellen Þórhallsdóttir líffræðingur. Á fundinum mun Jóhann Ísberg sýna nýlegar myndir úr Þjórsárverum. Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.

birt 3.10.2003

Meirihluti fulltrúa í hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps hafna Norðlingaölduveitu -2005

Á 52.fundi hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps þriðjudeginum 3. maí 2005 lagði oddviti fram eftirfarandi tillögu: ,,Hreppsnefnd samþykkir að fresta endanlegri afgreiðslu Aðalskipulags þar til Samvinnunefnd miðhálendis hefur afgreitt breytingu í Svæðisskipulagi miðhálendis. Hreppsnefnd fer fram á við Skipulagsstofnun að lagabundnir frestir verði framlengdir sem því nemur.”

Tillagan samþykkt samhljóða.

Oddviti lagði eftirfarandi bókun fyrir hönd meirihluta hreppsnefndar fskj 1.

Undirritaðir fulltrúar í hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps hafna Norðlingaölduveitu.

Víðtæk umfjöllun hefur farið fram um tillögu að Aðalskipulagi fyrir Skeiða- og Gnúpverjahrepp. Allan tímann hafa verið miklar efasemdir meðal meirihluta hreppsnefndarmanna, íbúa og annara landsmanna um ágæti þess að samþykkja gerð Norðlingaölduveitu á Gnúpverjaafrétti. Við lokaafgreiðslu aðalskipulagstillögunnar hvílir mikil ábyrgð á herðum hreppsnefndarmanna ekki síst hvað varðar Norðlingaölduveitu sem er stórtækt inngrip í annars ósnortið landsvæði innan marka hreppsins.

Ekki hefur tekist að sýna framá að íbúar Skeiða- og Gnúpverjahrepps hafi neina hagsmuni af framkvæmd Norðlingaölduveitu hvað varðar atvinnuuppbyggingu til lengri eða skemmri tíma. Þvert á móti álíta undirritaðir hreppsnefndarmenn að bygging Norðlingaölduveitu skaði hagsmuni ferðaþjónustunnar sem er eina vaxandi atvinnugreinin í hreppnum. Með því að samþykkja Norðlingaölduveitu í Aðalskipulagi væri hreppsnefnd að ganga þvert á fyrsta markmið skipulagslaga sem segir: ,,að þróun byggðar og landnotkunar á landinu öllu verði í samræmi við skipulagsáætlanir sem
hafi efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi að leiðarljósi.”

Ekki hefur verið sýnt framá þjóðhagslega nauðsyn þess að Norðlingaölduveita verði að veruleika. Raforkuframleiðsla á Íslandi er nú á fleiri höndum en áður eins og sannast á því að aðilar aðrir en Landsvirkjun hafa svarað eftirspurn og gert samninga um raforku til stóriðju. Skeiða- og Gnúpverjahreppur hefur innan sinna marka tvær virkjanir. Því til viðbótar liggur fyrir að samþykktar verða tvær virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Þar með telja undirritaðir fulltrúar í hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps að stuðningur við raforkuframleiðslu í landinu hafi verið með fullum sóma frá hendi Skeiða- og Gnúpverjahrepps þó að nú verði látið staðar numið.

Aðalsteinn Guðmundsson
Matthildur E. Vilhjálmsdóttir
Hrafnhildur Ágústsdóttir
Tryggvi Steinarsson

Þrándur Invarsson lagði fram eftirfarndi bókun: Förum þess á leit að hreppsnefnd standi við samkomulag sem gert var við Landsvirkjun og samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á hreppsnefndarfundi 1. júní 2004. Svohljóðandi:” Erindi frá Landsvirkjun varðandi aðalskipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2003-2015 Norðlingaöldulón. Í erindinu fer Landsvirkjun framá að yfirfallshæð stíflu við Norðlingaöldulón verði 567.8 m y.s. Að vetrarlagi yrði lónið rekið í um 567,5 m y.s. til þess að komast hjá alvarlegum vandamálum vegna ísmyndunar. Oddviti lagði til að hreppsnefnd samþykkti að gera ráð fyrir þeirri tilhögun í aðalskipulagi. Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða”.

Þrándur Ingvarsson
Gunnar Örn Marteinsson
Ólafur Fr. Leifsson.

birt 4.5.2005

Héraðsdómur Reykjavíkur ógilti hluta úrskurðar Jóns Kristjánssonar, setts umhverfisráðherra

Héraðsdómur Reykjavíkur ógilti í gær (27.6. 2006) þann hluta úrskurðar Jóns Kristjánssonar, setts umhverfisráðherra, frá í janúar árið 2003 að gerð set- og miðlunarlóns Norðlingaölduveitu, í norðausturhluta Þjórsárvera, þyrfti ekki að sæta umhverfismati. Með úrskurði sínum fyrir þremur árum felldi Jón úr gildi eldri úrskurð Skipulagsstofnunar en þar var fallist á byggingu Norðlingaölduveitu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum

Áhugahópur um verndun Þjórsárvera og ýmsir einstaklingar stefndu íslenska ríkinu, Skipulagsstofnun og Landsvirkjun og kröfðust þess að úrskurður Jóns Kristjánssonar yrði felldur úr gildi í heild sinni.Héraðsdómur sýknaði stefndu af þeim kröfum. Íslenska ríkinu og Landsvirkjun var gert að greiða stefnendum 1,5 miljón króna í málskostnað.

Dómurinn staðfestir þann málflutning Áhugahópsins að mat á umhverfisáhrifum hafi ekki verið lögformlega rétt.

Mikilvægasta atriði málsins var, að í matsferlinu var bætt við framkvæmdum sem ekki höfðu verið kynntar og metnar með lögformlegum hætti. Sú viðbót sem fólst í lónum og veitum austan við Arnarfell hefði valdið mjög alvarlegum umhverfisárhrifum og dregið stórlega úr náttúruverndargildi Þjórsárvera. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri ólögmætt.

Víðtæk og vaxandi samstaða hefur verið að myndast um þá tillögu Áhugahópsins að stækka beri friðlandið í Þjórsárverum og að fallið verði alfarið frá öllum áformum um virkjunarframkvæmdir þar. Niðurstaða Héraðsdóms styrkir enn frekar þennan málflutning.

Áhugahópurinn hvetur nýjan umhverfisráðherra til að fylgja fráfarandi kollega sínum að málum og vinna að því að stækka friðlandið í Þjórsárverum þannig að það nái til svæðisins í heild.

65% þjóðarinnar stækkun friðlandsins í Þjórsárverum

Samkvæmt skoðanakönnun sem Gallup framkvæmdi fyrir Nátturuverndarsamtök Íslands dagana 4. – 18. nóvember styður 65% þjóðarinnar stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

Spurt var, ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að stækka friðlandið í Þjórsárverum? Hlynntir voru 64.9%, andvígir voru 14,5% en 20,7% tóku ekki afstöðu.

Þessi niðurstaða er skýr ábending til Landsvirkjunar og stjórnvalda að láta af áformum um virkjanirframkvæmdir í Þjórsárverum. Landvernd kynnti nýlega álit tveggja alþjóðlegra viðurkenndra sérfræðinga, Jack D. Ives frá Kanada og Roger Crofts frá Skotlandi þar sem meðal annars kemur fram að núverandi mörk friðlandsins séu algjörlega ófullnægjandi og þau endurspegli ekki þau verðmæti sem er að finna á vefsetrinu www.natturuverndarsamtok.is

birt 3.12.2004

Félagar í Áhugahópi um verndun Þjórsárvera lýsa yfir ánægju með þá ákvörðun Landsvirkjunar að fresta áformum -2003

Félagar í Áhugahópi um verndun Þjórsárvera lýsa yfir ánægju með þá ákvörðun Landsvirkjunar að fresta áformum um Norðlingaöldveitu.

Náttúrufarsleg sérstaða og mikilvægi Þjórsárvera er óumdeilt en djúpstæður ágreiningur var um í hvaða mæli mannvirki myndu spilla þessum verðmætum. Með úrskurði Jóns Kristjánssonar setts umhverfisráðherra fyrr á þessu ári virtist komin fram sátt í málinu. Ástæða er til að undirstrika að sú útfærsla Landsvirkjunar sem sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hafnaði var ekki sú lausn sem kynnt var með úrskurði ráðherra. Í útfærslu Landsvirkjunnar var miðlunarlónið tvöfalt stærra að flatarmáli og þétt við mörk friðlandsins.

Því hefur ítrekað verið lýst yfir af hálfu Landsvirkjunar að virkjun í Þjórsárverum væri forsenda orkusölu til stækkunar álvers Norðuráls í Hvalfirði, – Norðlingaölduveita væri eini virkjunarkosturinn sem fullgera mætti innan þess skamma tíma sem til framkvæmda gafst, þ.e. svo hefja mætti orkusölu árið 2006. Nú hefur komið fram að það kunni að vera til aðrar og heppilegri leiðir til að mæta þessari orkuþörf. Því virðist óþarft að hrófla við Þjórsárverum. Svo dýrmætu svæði á ekki að raska nema ríkir þjóðarhagsmunir séu í húfi. Stærstu og verðmætustu gróðurvin landsins á að vernda óspillta sé þess nokkur kostur.

Í nýlegum drögum að náttúruverndaráætlun eru kynntar tillögur um að færa mörk friðlandsins til samræmis við náttúrleg mörk Þjórsárvera. Með ákvörðun Landsvirkjunar er rutt úr vegi síðustu hindrunum til þess að svo megi verða.

Nánari upplýsingar gefa Sigurður Steinþórsson, Hæli, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, sími 486-6033, 897 9833 og Sigþrúður Jónsdóttir, Tröð, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, sími 486-6057.

birt 5.9.2003

Bréf til formanns Framsóknarflokksins -2002

Formaður Framsóknarflokksins Hr. Halldór Ásgrímsson
Afrit: Guðni Ágústsson varaformaður
faxnúmer: 540 4301

Varðandi úrskurðinn setts umhverfisráðherra um Norðlingaölduveitu

Eins og öllum er kunnugt, hefur lengi verið deilt um áform Landsvirkjunar um að byggja Norðlingaölduveitu í Þjórsárverum.

Í vetur leið kvað settur umhverfisráðherra, Jón Kristjánsson, upp úrskurð sinn í þessu viðkvæma deilumáli. Sá úrskurður, eins og hann var kynntur virtist það vel ígrundaður að sátt gæti tekist um hann, þrátt fyrir mismunandi áherslur deiluaðila.

Veigamesti þátturinn í því að úrskurðinum var svo vel tekið var svokölluð aurskolunarútfærsla, og að lónið er nánast í árfarveginum, og gengur sáralítið upp á grynningar og gróið land. Lögð var til grundvallar tillaga VST, sem miðast við lónhæð í 566 metrum yfir sjávarmáli.

Nú ber hins vegar svo við að Landsvirkjun vinnur að stíflu í allt að 568,5 metra hæð yfir sjávarmáli.

Á fundi sem haldinn var í Reykjavík í síðust viku fyrir tilhlutan náttúruverndarsamtaka, lýstu fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna sem setu eiga á Alþingi yfir þeim skilningi þeirra á úrskurðinum; þar sé gengið út frá 566 metra hæð yfir sjávarmáli og engu öðru.

Með þessu bréfi er þess farið á leit að formaður Framsóknarflokksins, sem bæði fer með umhverfismál og iðnaðar- og orkumál, hlutist til um að úrskurður Jóns Kristjánssonar, eins og hann var kynntur, verði virtur. Ítrekað er að ef sú sátt sem virtist ætla að verða um úrskurðinn á að halda, verða orð að standa. Verði lónhæðin ekki sú sem gengið var út frá þegar úrskurðurinn var kynntur, 566 metrar yfir sjávarmáli, er verið að blekkja almenning og engin sátt um hann með augljósum ófriði og afleitri niðurstöðu fyrir land og fólk.

Tröð, 30. apríl 2003

Virðingarfyllst

f.h. áhugahóps um verndun Þjórsárvera

 

________________________________
Sigþrúður Jónsdóttir

________________________________
Halla Guðmundsdóttir

birt 30.4.2002