Ágætu félagar – höldum hátíð!

LogoVTEins og þið væntanlega vitið þá hefur friðlandið í Þjórsárverum verið stækkkað og staðfesti umhverfisráðherra það með undirskrift sinni þann 9. október s.l. Auglýsing til kynningar tillögu að mörkum og friðlýsingarskilmálum kom út 4. júlí og var athugasemdafrestur til 3. október.
Í tilefni af þessum mikilvæga áfanga í verndun Þjórsárvera ætla Vinir Þjórsárvera að halda hátíð í Félagsheimilinu Árnesi þann 25. nóvember kl. 20:00
Það var einmitt í Árnesi sem baráttan gegn uppistöðulóni í Þjórsárverum hófst árið 1972, en þá voru uppi hugmyndir um 200km2 lón sem hefði eyðilagt mestan hluta Þjórsárvera. Þá risu Gnúpverjar upp og mótmæltu á fundi í Árnesi! Við eigum þeim sem að því stóðu mikið að þakka. Hefðu þau áform ekki verið stöðvuð, hefðu þau sem síðar stóðu vaktina ekkert getað gert því Þjórsárver væru löngu horfin í jökullón.

Við vonum að sem flestir félagsmenn og aðrir vinir Þjórsárvera komi og fagni saman.

Með bestu kveðju.
Stjórn Vina Þjórsárvera,
Sigþrúður Jónsdóttir,
Tryggvi Felixson,
Guðbjört Gylfadóttir,
Pálína Axelsdóttir Njarðvík
Jóhanna Höeg Sigurðardóttir

P.S. Gistihúsið Denami í Vestra-Geldingholti verður opið þessa helgi ef einhver kýs að gista í nágrenni Árness eftir hátíðina og njóta sveitarinnar ögn lengur. Bóka þarf gistingu í siðasta langi fimmtudaginn 23. nóvember sjá: www.denami.is

Aðalfundur Vina Þjórsárvera 2017

Aðalfundur Vina Þjórsárvera verður haldinn í Eystra-Geldingaholti í Gnúpverjarhreppi föstudaginn 21. júlí kl 18:00.

Hluti stjórnarinnar ásamt fylgifiskum fara í stutt óvissu-ferðalag inn á Gnúpverjarafrétt þann -20. júlí og fram á föstudag til setja niður þær stikur sem ekki tókst að klára í fyrra, er það hjá Geldingatanga rétt framan Gljúfurleitarfoss.

Að því loknu verður ekið og gegnið á valda staði á afréttinum. Það gæti verið Kjálkaversfoss, Tjarnaver,  Hnífárver, Kisugljúfur eða hinn sérstaki kofi við Kisu.

Allir félagar og velunnarar Þjórsárvera eru velkomnir að slást í för. Félagið býður upp á kvöldverð inn á afrétti, einhvers staðar þar sem ákveðið verður að gista -í tjöldum.

Vinsamlega látið Sigþrúði Jónsdóttur, s. 846 5247 vita ef þú vilt koma í óvissuferðina, þó fyrirvarinn sé skammur.

Að stika gönguleið að Dynk og Glúfurleitarfossi

Kæru félagar í Vinum Þjórsárvera

Eins og þið munið þá fékk félagið styrk árið 2014 til að stika gönguleiðina að fossunum í Þjórsá, Dynk og Glúfurleitarfossi. Í fyrra stóð til að fara í verkið en uðurm við að fella ferðina niður vegna kulda og ófræðar inn afréttinn. Nú virðar aldeilis betur og lítur vel út með færð og gróður. Við stefnum að því að fara og stika þessa undurfögru gönguleið helgina 9. -10. júlí n.k. Félagið hefur fengið fjallmannahúsið í Gljúfurleit þessa daga og þar höfum við aðstöðu til að elda borða og gista. Þetta er ágætt hús með eldhúsi, matsal og svefnlofti og bæði vatnssalerni og fínum kamri! Við fáum húsið og aðstöðuna án endurgjalds hjá sveitarfélaginu.
Aðalfundur Vina Þjórsárvera verður haldinn í þessari ferð.

Aðeins er jeppafært inn á þetta svæði svo við þurfum að skipuleggja ferðina og sameinast í bíla. Vinsamlega látið mig vita hvort þig getið komið í þessa vinnuferð og hvort þið hafið bíl til fararinnar eða þurfið far hjá öðrum.   Vona að við sjáumst sem flest. Fossagöngur hafa alltaf verið góðar. Vinsamlega munið að greiða árgjald félagsins sem er 500 kr.  kt: 501111-0150 banki: 0536-26-014501

Með kærum kveðjum, Sigþrúður Jónsdóttir, formaður s. 846 5247

Bréfi til Vina Þjórsárvera, frá 3. janúar 2014

Bréfi til Vina Þjórsárvera

3. janúar 2014

Kæru félagar, gleðilegt ár.

Það er nokkuð liðið frá því að bréf hefur verið sent út til félaga og því löngu tímabært að flyta fréttir af starfi stjórnar.

Fyrst er að greina frá því að ekkert varð af aðalfundi félagsins s.l. sumar eins og boðað var í byrjun í júní. Þegar til kastanna kom var það veðrið sem setti strik í reikninginn og gönguferðin um Þjórsárver féll niður. Endurskoðaðir reikningar, skýrsla stjórnar og kjör stjórnar bíða því afgreiðslu aðalfundar sumarið 2014.

Stjórnin hefur þó ekki setið auðum höndum og hefur haft ýmsu að sinna undanfarin misseri. Þann 21. júní var áformað að skrifa undir nýjan friðlýsingarsáttmála um Þjórsárver sem hefði getað orðið lokapunktur í 41 árs baráttu fyrir að vernda svæðið fyrir virkjunarmannvirkjum. Því miður aflýst umhverfisráðherra fundi í Árnesi þar sem skrifa átti undir nýja og bætta friðlýsingarskilmála. Ástæðan var að Landsvirkjun kom með hótanir um málaferli ef ekki yrðir tekið tillit til hagsmuna fyrirtækisins.

Í kjölfarið hefur stjórn félagsins sent viðkomandi aðilum bréfi þar sem hvatt var til að farið verði að niðurstöðu rammaáætlunar. Einning voru skrifaðar blaðagreinar til að vekja athygli á málinu. Þá átti stjórnin fund með umhverfisráðherra 20. september s.l. Á fundinum upplýsti ráðherra að ákvörðun hans um að fresta frágangi málsins myndi ekki að hafa áhrif á hvar suðurmörk friðlandsins yrðu dregin. Annað hefur því miður komið á daginn. Þann 27. desember s.l. sendi umhverfisráðuneytið bréf til Skeiða- og Gnúpverjahrepps með tillögu að friðlandsmörkum þar sem búið var að draga suðurmörkin með þeim hætti að Landsvirkjun gæti komið þar fyrir veitumannvirkjum, fleygur inní friðlandið upp með Þjórsá við Eyvafenskrókinn. Friðlýsing á forsendum Landsvirkjunar. Það er ekki boðlegt.

Að mati stjórnar félagsins er ný tillaga umhverfisráðherra um friðlandsmörkin ekki í samræmi við gildandi lög og þingsályktun. Í lögum segir að „stjórnvöld skulu þegar Alþingi hefur samykkt verndar- og nýtingaráætlun hefja undirbúning að friðlýsingu landssvæða sem ástæða þykir til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu samkvæmt verndarflokki áætlunarinnar“. Í skýringum við frumvarpið er tekið fram að virkjunarsvæði í vatnsafli miðist við allt vatnasvið fallvatns ofan þeirrar virkjunar sem nýtir fallið og farveg fallsvatnsins neðan virkjunar. Áformin ganga einnig beinlínis gegn þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, sem tilgreinir að mannvirki rétt við friðlandið yrði lýti og beinir athyglinni að sérstæðum fossum í Þjórsá sem yrðu fyrir neikvæðum áhrifum Norðlingaölduveitu.

Stjórnin hefur haft samráð við Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands og Náttúruverndarsamtök Suðurlands. M.a. hefur það samráð leitt til þess að umhverfisráðherra hefur verið sent sameiginlegt erindi, eins og lesa má í meðfylgjandi bréfi þar sem tillögu umhverfisráðherra um suðurmörk friðlandsins er mótmælt.

Stjórn félagsins hefur leitað ráða hjá lögmönnum til að skoða lögformleg atriði er varða friðlýsingu Þjórsárvera. Það er lögmannstofan Réttur sem veitir leiðsögn í málinu og hefur skilað ganglegri greinargerð um það. Þessu fylgir að sjálfsögðu nokkur kostnaður og því er sjóður félagsins nú tómur og enn eftir að greiða hluta þess kostnaðar (100.000 kr). Félagar eru því hvattir til að greiða árgjaldið fyrir starfsárið 2013-2014 nú þegar. Árgjaldið er 500 kr. Þar sem félagar eru aðeins um 30 talsins er þörf á hærri framlögum frá félögum sem hafa fjárhagslegt bolmagn svo endar nái saman. Reikningsnúmerið er : 0536-26-014501, og kt. 501111-0150. Félagar eru hvattir til að bregast skjótt við og greiða sitt árgjald, og eftir getu viðbótarframlag.

Baráttan fyrir verndun Þjórsárvera heldur áfram og félagið okkar Vinir Þjórsárvera verður á varðbergi og mun grípa til frekari aðgerða ef þörf krefur. Markmiðið er að ljúka 40 ára baráttu fyrir friðun svæðisins með stækkun friðlandsins í Þjórsárverum sem byggir á forsendum verndunar, en ekki virkjunar eins og nýtt útspil umhverfisráðherra ber með sér. Ef tilefni verður til mun málið enda fyrir dómsstólum.

Hollt er að minnast orða Guðmundar Páls Ólafssonar, eins stofnfélaga Vina Þjórsárvera. Í bók sinni Vatnið í náttúru Íslands kynnir hann nýja og framsækna hugmynd um Íslandsgarða. Þar segir hann m.a. „verndun lands verður að grundvallast á landslagsheildum – skilningi á vistkerfum – með öðrum orðum samhengi í náttúrunni.“ Sú tillaga sem umhverfisráðherra boðar nú er brot á þessu mikilvæga samhengi sem Guðmundur Páll beinir athyglinni að. Þetta samhengi verður að vera leiðarljós í nýju og stærra friðlandi Þjórsárvera.

Með góðri kveðju, frá stjórn félagsins

Sigþrúður Jónsdóttir
Árni Bragason
Tryggvi Felixson
Pálína Axelsdóttir Njarðvík
Óttar Ólafsson

Meðfylgjandi er bréf sem sent var til umhverfis- og auðlindaráðherra í dag.

Bréf til umhverfisráðherra 3. janúar 2014

Áskorun Náttúrverndarsamtakanna til ráðherra 2

Áhugahópurinn um verndun Þjórsárvera vill hvetja þig til að taka undir áskorun Náttúrverndarsamtaka Íslands um að umhverfisráðherra beiti sér fyrir stækkun friðlandsins í Þjórsárverum og að stækkunin yrði eitt að forgangsverkefnum þeirrar Náttúrverndaráætlunar sem ráðherra mun leggja fyrir Umhverfisþing 14. og 15. október nk. og Alþingi síðar í haust.

Áhugahópurinn vill einnig hvetja þig til að hvertja aðra til að taka undir þessa áskorun almennings í landinu.

birt 12.10.2003

Sjá á heimasíðu Náttúruverndarsamtakanna.

72% atkvæðisbærra Gnúpverja

72% atkvæðisbærra Gnúpverja

Þriðjudaginn 26. júní 2001 var Siv Friðleifsdóttur, umhverfisráðherra, Valgerði Sverrisdóttur, iðnaðarráðherra og Kartínu Fjelsted, alþingsmanni fyrir hönd Umhverfisnefnd Alþingis afhent undirskriftalistar sem áhugahópur um verndun Þjórsárvera stóð fyrir að safna í Gnúpverjahreppi 23.-25. júní 2001.

72% atkvæðisbærra Gnúpverja til kosningar til sveitarstjórnar undirrituðu áskorunina.
Skorað er á stjórnvöld að tryggja til frambúðar verndun Þjórsárvera og heimila engar frekari virkjunarframkvæmdir þar og í efri hluta Þjórsár. Ennfremur er minnt á fyrri samþykktir Gnúpverja um þessi mál.

Fimmtudaginn 28. júní 2001 var sveitarstjórn Gnúpverjahrepps afhent sömu undirskriftalistar.

birt 29.6.2001

Opinn fundur í Norræna húsinu 7. október 2003

Opinn fundur í Norræna húsinu 7. október 2003 kl. 16.30-18.30

Lón, náttúra og lögfræðileg álitmála vegna Þjórsárvera
Hver verða áhrif lóns í 568 m.y.s á Þjórsárver og setlóna og veitu austan Arnarfells?
Hvaða er í húfi í Eyvafeni?
Hefur verið farið að lögum?

Þetta eru spurningar sem reynt verður að svara á opnum fundi í Norræna húsinu í Reykjavík þriðjudaginn 7. október n.k.

Áhugahópur um verndun Þjórsárvera boðar til opins fundar í Norræna húsinu til að fjalla um áhrif uppistöðulóns í 568 m.y.s. á lífríki og landslag í Þjórsárverum. Á fundinum verður einnig fjallað um lögfræðileg álitamál vegna úrskurðar Jóns Kristjánssonar setts umhverfisráðherra og ákvörðunar Samvinnunefndar um miðhálendi Íslands að taka til umfjöllunar og efnislegrar meðferðar tillögu Landsvirkjunar um breytingar á skipulagi miðhálendisins, í trássi við vilja viðkomandi sveitafélags. Meðal frummælenda á fundinum verða Katrín Theodórsdóttir lögmaður, Hlynur Óskarsson náttúrufræðingur og Þóra Ellen Þórhallsdóttir líffræðingur. Á fundinum mun Jóhann Ísberg sýna nýlegar myndir úr Þjórsárverum. Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.

birt 3.10.2003

Héraðsdómur Reykjavíkur ógilti hluta úrskurðar Jóns Kristjánssonar, setts umhverfisráðherra

Héraðsdómur Reykjavíkur ógilti í gær (27.6. 2006) þann hluta úrskurðar Jóns Kristjánssonar, setts umhverfisráðherra, frá í janúar árið 2003 að gerð set- og miðlunarlóns Norðlingaölduveitu, í norðausturhluta Þjórsárvera, þyrfti ekki að sæta umhverfismati. Með úrskurði sínum fyrir þremur árum felldi Jón úr gildi eldri úrskurð Skipulagsstofnunar en þar var fallist á byggingu Norðlingaölduveitu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum

Áhugahópur um verndun Þjórsárvera og ýmsir einstaklingar stefndu íslenska ríkinu, Skipulagsstofnun og Landsvirkjun og kröfðust þess að úrskurður Jóns Kristjánssonar yrði felldur úr gildi í heild sinni.Héraðsdómur sýknaði stefndu af þeim kröfum. Íslenska ríkinu og Landsvirkjun var gert að greiða stefnendum 1,5 miljón króna í málskostnað.

Dómurinn staðfestir þann málflutning Áhugahópsins að mat á umhverfisáhrifum hafi ekki verið lögformlega rétt.

Mikilvægasta atriði málsins var, að í matsferlinu var bætt við framkvæmdum sem ekki höfðu verið kynntar og metnar með lögformlegum hætti. Sú viðbót sem fólst í lónum og veitum austan við Arnarfell hefði valdið mjög alvarlegum umhverfisárhrifum og dregið stórlega úr náttúruverndargildi Þjórsárvera. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri ólögmætt.

Víðtæk og vaxandi samstaða hefur verið að myndast um þá tillögu Áhugahópsins að stækka beri friðlandið í Þjórsárverum og að fallið verði alfarið frá öllum áformum um virkjunarframkvæmdir þar. Niðurstaða Héraðsdóms styrkir enn frekar þennan málflutning.

Áhugahópurinn hvetur nýjan umhverfisráðherra til að fylgja fráfarandi kollega sínum að málum og vinna að því að stækka friðlandið í Þjórsárverum þannig að það nái til svæðisins í heild.