Ágætu félagar – höldum hátíð!

LogoVTEins og þið væntanlega vitið þá hefur friðlandið í Þjórsárverum verið stækkkað og staðfesti umhverfisráðherra það með undirskrift sinni þann 9. október s.l. Auglýsing til kynningar tillögu að mörkum og friðlýsingarskilmálum kom út 4. júlí og var athugasemdafrestur til 3. október.
Í tilefni af þessum mikilvæga áfanga í verndun Þjórsárvera ætla Vinir Þjórsárvera að halda hátíð í Félagsheimilinu Árnesi þann 25. nóvember kl. 20:00
Það var einmitt í Árnesi sem baráttan gegn uppistöðulóni í Þjórsárverum hófst árið 1972, en þá voru uppi hugmyndir um 200km2 lón sem hefði eyðilagt mestan hluta Þjórsárvera. Þá risu Gnúpverjar upp og mótmæltu á fundi í Árnesi! Við eigum þeim sem að því stóðu mikið að þakka. Hefðu þau áform ekki verið stöðvuð, hefðu þau sem síðar stóðu vaktina ekkert getað gert því Þjórsárver væru löngu horfin í jökullón.

Við vonum að sem flestir félagsmenn og aðrir vinir Þjórsárvera komi og fagni saman.

Með bestu kveðju.
Stjórn Vina Þjórsárvera,
Sigþrúður Jónsdóttir,
Tryggvi Felixson,
Guðbjört Gylfadóttir,
Pálína Axelsdóttir Njarðvík
Jóhanna Höeg Sigurðardóttir

P.S. Gistihúsið Denami í Vestra-Geldingholti verður opið þessa helgi ef einhver kýs að gista í nágrenni Árness eftir hátíðina og njóta sveitarinnar ögn lengur. Bóka þarf gistingu í siðasta langi fimmtudaginn 23. nóvember sjá: www.denami.is

Aðalfundur Vina Þjórsárvera 2017

Aðalfundur Vina Þjórsárvera verður haldinn í Eystra-Geldingaholti í Gnúpverjarhreppi föstudaginn 21. júlí kl 18:00.

Hluti stjórnarinnar ásamt fylgifiskum fara í stutt óvissu-ferðalag inn á Gnúpverjarafrétt þann -20. júlí og fram á föstudag til setja niður þær stikur sem ekki tókst að klára í fyrra, er það hjá Geldingatanga rétt framan Gljúfurleitarfoss.

Að því loknu verður ekið og gegnið á valda staði á afréttinum. Það gæti verið Kjálkaversfoss, Tjarnaver,  Hnífárver, Kisugljúfur eða hinn sérstaki kofi við Kisu.

Allir félagar og velunnarar Þjórsárvera eru velkomnir að slást í för. Félagið býður upp á kvöldverð inn á afrétti, einhvers staðar þar sem ákveðið verður að gista -í tjöldum.

Vinsamlega látið Sigþrúði Jónsdóttur, s. 846 5247 vita ef þú vilt koma í óvissuferðina, þó fyrirvarinn sé skammur.

Þjórsárver – afmælisdagskrá í Árnesi 17. mars 2012 kl. 14:00

Þjórsárver – afmælisdagskrá í Árnesi 17. mars 2012 kl. 14:00Fjörutíu ár eru nú liðin síðan barátta heimamanna í Gnúpverjahreppi fyrir verndun Þjórsárvera hófst.

Nú hyllir undir lok þeirrar baráttu og því ber að fagna.

Þann 17. mars 1972 boðaði landgræðslunefnd Ungmennafélags Gnúpverja til almenns sveitarfundar um Þjórsárver og þá ógn sem steðjaði að þeim vegna hugmynda um risastórt miðlunarlón sem hefði sökkt verunum. Þessi atburður markaði upphaf varðstöðunnar um Þjórsárver sem markaði tímamót í sögu náttúruverndar á Íslandi.

Fundurinn var fjölmennur og stóð fram á nótt. Þar kom fram einhugur um að vernda bæri Þjórsárver. Samþykkt var ályktun þar að lútandi og til er ítarleg fundargerð. Þegar hún er lesin – nú 40 árum síðar – er ljóst að þessi fundur skipti sköpum um framgang mála á þeim tíma og fyrir baráttuna alla tíð síðanÍ tilefni þessara tímamóta boða Vinir Þjórsárvera, Áhugahópur um verndun Þjórsárvera, Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands til fundar í félagsheimilinu Árnesi. Skyggnst verður inn í tíðarandann í Gnúpverjahreppi fyrir fjörutíu árum, litið yfir farinn veg og horft til framtíðar.
Meðal framsögumanna eru Birgir Sigurðsson rithöfundur, sem var einn þeirra sem stóðu fyrir fundinum árið 1972, Gísli Már Gíslason prófessor og formaður Þjórsárveranefndar og Helga Ögmundardóttir mannfræðingur sem hefur rannsakað bakgrunn þess að Gnúpverjar tóku sér svo afgerandi stöðu með náttúrunni, óbyggðunum og fuglum himinsins. Flutt verður tónlist og kaffiveitingar verða á boðstólum.