Opið bréf til að vekja athygli á hættu vegna goss í Bárðarbungu

Opið bréf Gísla Más Gíslasonar og Þóru Ellenar Þórhallsdóttur til forstjóra Landsvirkjunar, iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra er birt hér. Í bréfinu er vakin er athygli á hættu á stórkostlegum skemmdum á lífríki Þjórsárvera, komi til goss í Bárðarbungu sem veitir flóðvatni til suðurs.

Reykjavík, 18. september 2014

Við viljum með þessu bréfi vekja athygli á hættu á stórkostlegum skemmdum á lífríki Þjórsárvera.

Við framkvæmdir við Kvíslaveitu á 9. og 10. áratug síðustu aldar var kvíslum sem falla í Þjórsá úr austri veitt í Þórisvatn með neti skurða og lóna. Stærsta lónið er Kvíslavatn austan Þúfuvers. Við vesturströnd lónsins, þ.e. ofan Þúfuvers, eru nokkrar stíflur og ein þeirra er flóðvar. Hún er lægri en hinar stíflurnar og hönnuð til þess að bresta við flóð en veitir um leið öllu vatninu beint niður í Þjórsárver. Kvíslaveita var byggð áður en lög um mat á umhverfisáhrifum voru sett og á þeim tíma sem Náttúruverndarráð fór með mál sem nú heyra undir umhverfisráðuneyti. Annað okkar (Þóra Ellen Þórhallsdóttir) sat í Náttúruverndarráði þegar unnið var við Kvíslaveitu og telur að ráðinu hafi ekki verið kunnugt um staðsetningu flóðvarsins fyrr en eftir að framkvæmdum við Kvíslavatn lauk. Staðsetning flóðvarsins var bersýnilega afleit í ljósi náttúruverndargildis Þjórsárvera en ekki var aðhafst neitt frekar. Á þeim tíma varð heldur ekki séð að stórt flóð gæti steypst niður Kvíslavatn og talið ólíklegt að veruleg hætta gæti skapast. Þetta breyttist því miður með Hágöngulóni.

Í apríl 2008 sendi Landsvirkjun erindi til Umhverfisstofnunar og óskaði heimildar til að gera flóðvar í stíflu Þ-4 í Kvíslavatni. Það er sami staður og þegar var hannaður sem flóðvar fyrir Kvíslavatn. Í bréfi Landsvirkjunar (dags. 30.5.2008) segir „Tilgangur Landsvirkjunar með þessum aðgerðum var að minnka líkur á stórfelldum skemmdum á náttúru og mannvirkjum yrði sá ólíklegi atburður að flóð kæmi í Köldukvísl vegna eldgoss í Vatnajökli“. Erindinu var vísað áfram til Þjórsárveranefndar sem Gísli Már Gíslason veitti forstöðu. Fyrst þá varð ljóst að flóðvar Hágöngulóns hafði verið staðsett þannig að það veitti flóðvatni í Kvíslavatn og þaðan beint ofan í Þjórsárver. Ekki hafði verið vakin athygli á þessu í vinnu við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar 1996 og þessar breyttu forsendur virðast ekki hafa orðið náttúruverndaryfirvöldum ljósar fyrr en löngu eftir að framkvæmdum við Hágönglón var lokið.

Þjórsárveranefnd brást hart við. Í umsögn meirihluta nefndarinnar kemur fram að ný gögn hafi sýnt að við gos í Bárðarbungu sem veitti flóðvatni til suðurs, mætti gera ráð fyrir að allt að 6.000 m3/s rynnu í Köldukvísl og Hágöngulón í a.m.k. 4 sólarhringa en minna vatn eftir það. Ef ekki hefði verið búið að gera Hágöngulón hefði flóðið haldið áfram eftir farvegi Köldukvíslar og þaðan runnið í Tungnaá og loks Þjórsá við Sultartanga. Samkvæmt líkanreikningum myndu nú yfir 90% af flóðinu fara í Kvíslavatn og þaðan í Þjórsárver. Farvegur Þjórsár þrengist við Sóleyjarhöfða neðan við Tjarnaver og Þúfuver og vegna þessarar fyrirstöðu er gert ráð fyrir að flóðvatnið næði að 581 m.y.s. og myndaði 30 km2 lón í neðanverðum Þjórsárverum. Þar færu undir vatn mestallt Þúfuver, neðri hluti Oddkelsvers og neðsti hluti Tjarnavers. Svo vill til að þessi hæð, 581 m, er vatnsborð stóra miðlunarlónsins sem umhverfisráðherra hafnaði árið 2000. Erfitt er að gera sér í hugarlund áhrif á gróður og lífríki Þjórsárvera. Í versta lagi (flóð um vor eða sumar og með miklum aurburði) gæti allur eða nær allur gróður undir 581 m drepist og 30 km2 flóðasvæðið sem að mestu er með margra metra þykkum jarðvegi, orðið geigvænleg uppspretta áfoks sem ógna myndi gróðri ofar í verunum. Ef hlaup kæmi á frosna jörð um vetur yrðu áhrifin væntanlega minni en þó færi það mjög eftir setburði í flóðvatninu.

Í framhaldi af umræðum í Þjórsárveranefnd, fól fulltrúi Landsvirkjunar í nefndinni verkfræðistofunni VST að vinna athugasemdir við umsögn meirihluta Þjórsárveranefndar. Minnisblað VST er dagsett 21.5.2008. Þar er gert ráð fyrir að án inngripa mannsins (þ.e. ef hvorki Kvíslavatn né Hágöngulón væru til) hefði flóðvatn sem rynni til suðurs við gos í Bárðarbungu, farið í farveg Þúfuverskvíslar og þaðan niður í Þjórsárver. Nánar tiltekið er áætlað að 40% vatnsins færu sunnan við Syðri Hágöngu, síðan í Þúfuverskvísl og þaðan í Þjórsárver. Sú sviðsmynd á væntanlega að rökstyðja þá staðhæfingu VST að staðsetning flóðvarsins muni „milda áhrif flóðsins á verin“.

Engin merki sjást um að stórflóð hafi farið um Þúfuver, neðri hluta Oddkelsvers eða Tjarnavers. Rannsóknir á jarðvegi í Þúfuveri, Oddkelsveri og Tjarnaveri, m.a. með 3-7 m djúpum borkjörnum, hafa aldrei sýnt ummmerki um stórfelld flóð. Áfok er mikið í efstu 0,5-1 m en neðar er móríkur jarðvegur sem ber vitni um mörg þúsund ára órofna sögu vistkerfa í neðri hluta Þjórsárvera. Ekkert bendir því til þess að flóð frá Bárðarbungu hafi farið um neðri hluta Þjórsárvera um langan tíma, líklega þúsundir ára. Saga flóða frá Bárðarbungu er ekki vel þekkt en talið er að flóð í Þjórsá árið 1766 megi rekja til atburða í Bárðarbungu. Sigurður Þórarinsson taldi að það hlaup hefði fyrst komið niður í Tungnaá en í ljósi þess sem nú er vitað um landslag og ísaskil undir Vatnajökli er miklu líklegra að slíkt flóð frá Bárðarbungu hefði farið í Köldukvísl og þaðan í Þjórsá. Ekkert bendir til að það hafi farið í Þúfuver. Til dæmis hefði Einar Brynjólfsson frá Stóra-Núpi væntanlega séð ummerki slíks flóðs þegar hann fór þar um á leið norður Sprengisand 6 árum síðan og látið þess getið í ferðalýsingu sinni.

Í bréfum og minnisblöðum Landsvirkjunar og VST er gert lítið úr hættu vegna Bárðarbungu og flóð í Köldukvísl nefnt „sá ólíklegi atburður“. Við sendum þetta bréf í ljósi þess að nú eru uppi breyttar aðstæður. Gos í Bárðarbungu gæti verið yfirvofandi og stórflóði þaðan til suðurs hefur með mannlegum inngripum verið beint í Þjórsárver.

Við erum sammála forstjóra Landsvirkjunar um að hönnun Hágöngulóns minnki líkur á skemmdum á stíflum og öðrum virkjunarmannvirkjum á Þjórsár-Tungnaársvæðinu en það er ekki forsvaranlegt að búa þannig um hnútana að Þjórsárverum sé fórnað í staðinn. Við bendum á umsögn Þjórsárveranefndar frá 2008 þar sem lagt er til hvernig flóðvatni megi veita aftur í Köldukvísl handan Hágöngulóns.

Við trúum því að engir vilji verða til þess með gáleysislegri hönnun að eyðileggja sérstæðasta og líklega verðmætasta vistkerfið á miðhálendinu. Við förum þess á leit að flóði til suðurs frá Bárðarbungu verði beint frá Þjórsárverum þannig að það valdi ekki óbætanlegum skaða á lífríki Þjórsárvera.

Virðingarfyllst,
Gísli Már Gíslason og Þóra Ellen Þórhallsdóttir

Höfundar hafa unnið að náttúrurrannsóknum í Þjórsárverum. Þóra Ellen vann að rannsóknum um áhrif lóns á náttúru veranna og Gísli hefur verið formaður Þjórsárveranefndar síðan 1987, en hún er Umhverfisstofnun og stjórnvöldum til ráðgjafar um allt sem varðar málefni Þjórsárvera.

Þjórsárver, stjórnvöld fari að leikreglum – Tryggvi Felixson

Fyrir um fjórtán árum síðan höfðu tveir ráðherrar Framsóknarflokksins frumkvæði að því að leggja upp í þá vegferð sem gengur undir nafninu »rammaáætlun«. Uppruninn liggur í áætlanagerð sem hófst þegar Steingrímur Hermannsson var forsætisráðherra en málið komst fyrst á rekspöl í ráðherratíð Sivjar Friðleifsdóttur og Finns Ingólfssonar. Ákvörðun þeirra byggði á hugmynd um að skoða margar tillögur um virkjanir samtímis og draga þær í þrjá dilka; landsvæði sem vænlegt væri að virkja (nýtingarflokk), svæði sem skoða þyrfti betur (biðflokk) og svæði sem heppilegast væri að hlífa við virkjunarframkvæmdum (verndarflokk). Þáverandi formaður Landverndar, Jón Helgason, fyrrverandi forseti Alþingis, vann ötullega að því að koma þessu verkefni í gang. Markmiðið var að ná sem víðtækastri sátt um landnýtingu með víðtæku samráði, opnu matsferli og greiningu hæfustu sérfræðinga. Þær leikreglur sem fyrrgreindir ráðherrar lögðu grunn að voru lögfestar 16. maí 2011 í lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Í 6. gr. segir: »stjórnvöld skulu þegar Alþingi hefur samþykkt verndar- og nýtingaráætlun hefja undirbúning að friðlýsingu landssvæða sem ástæða þykir til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu samkvæmt verndarflokki áætlunarinnar«. Í skýringum við frumvarpið er tekið fram að virkjunarsvæði í vatnsafli miðist við allt vatnasvið fallvatns ofan þeirrar virkjunar sem nýtir fallið og farveg fallsvatnsins neðan virkjunar. Einnig er tilgreind sú meginregla að hvers konar framkvæmdir og rannsóknir vegna virkjunarkosta í verndarflokki séu óheimilar.

Á vorþingi 2013 var samþykkt þingsályktun sem setur hugmyndir um Norðlingaölduveitu í verndarflokk. Mörk þess svæðis sem um er að ræða má skilgreina bæði með þeim lögskýringum sem að framan greinir og í skýrslu verkefnistjórnar rammaáætlunar. Ekki fer á milli mála að átt er við Þjórsá frá upphafskvíslum allt suður að Sultartangalóni. Þar sem vatnasviði að austan hefur þegar verið raskað með Kvíslaveitum er aðeins um vatnasviðið að vestan að ræða. Kvíslaveitur fékk Landsvirkjun á sínum tíma heimilaðar þegar ljóst var að veruleg andstaða var við allar hugmyndir um veitur eða virkjanir sem hefðu áhrif á Þjórsárver. Litu margir svo á að það væri sátt sem fæli í sér að ekki yrði frekar gengið á vatnasviðið í ofanverðri Þjórsá. Það varð því miður ekki reyndin.

Umhverfisráðherra boðaði til fundar 19. júní sl. þar sem ætlunin var að staðfesta stækkun friðlandsins um Þjórsárver á þann hátt að útlokaði Norðlingaölduveitu. Það var í góðu samræmi við fyrrnefnd lög, niðurstöðu rammaáætlunar og samþykkt Alþingis. Ráðherra hugðist gera það sem honum ber samkvæmt lögum, enda væri hann að öðrum kosti að ganga gegn lögum. Við þessi tíðindi greip Landsvirkjun til örþrifaráða. Fyrirtækið gleymdi loforðum að fara að niðurstöðu rammaáætlunar. Ráðherra var hótað lögsókn skrifaði hann undir. Þessi viðbrögð Landsvirkjunar sköpuðu tímabundna óvissu um hvort lögformlega væri rétt að öllu staðið. Nú hefur málið verið skoðað og ljóst er að rétt hefur verið að öllu staðið. Því ætti ekkert að vera að vanbúnaði fyrir umhverfisráðherra að fara að lögum og hefja hið snarasta undirbúning að friðlýsingu til að ljúka þeim deilum um þetta svæði sem staðið hafa í liðlega hálfa öld. Við sem trúum enn á réttarríkið Ísland treystum því að umhverfisráðherra gangi frá málinu, í samræmi við lög og þá hugmyndafræði sem ráðherrar Framsóknarflokksins lögðu grunn að, þegar vinna við rammaáætlun hófst árið 1999. Að breyta leikreglum nú yrði engum til vegsauka og skapaði réttaróvissu um niðurstöður rammaáætlunar í heild.

Látið Þjórsárver lifa í friði -Þorsteinn Ólafsson

Inni á hálendi Íslands, sem fljótt á litið virðist vera jöklum klætt, eru Þjórsárver einstök gróðurvin. Sunnan við Arnarfellsjökul (Hofsjökul) er þetta furðulega gróðurland, sem fyllist af litfögrum blómplöntum á sumrin. Þetta furðulega land sem virðist nærast á sífreranum og hefur staðist eyðingaöfl jökulkvíslanna og sínagandi sandsins sem engu eirir á þessu vindblásna hálendi. Þeir sem koma í þessa paradís verða snortnir af því ótrúlega kraftaverki sem alltaf endurtekursig á hverju ári. Áður en snjóa leysir er gæsin búin að gera sér hreiður og er orpin. Kúrir sig niður og lætur fenna yfir sig. Svo belja stórfljótin undan jökulröndinni og snjórinn hverfur. Ungarnir skríða úr eggjunum. Gróðurinn vaknar til lífsins áður en skaflarnir eru horfnir og fuglarnir komast á beit. Blómin birtast svo í allri sinni litadýrð. Samt er jörðin alltaf frosin. Kannski gerist þetta kraftaverk vegna þess að frostið skammtar gróðrinum vökvun.

Gnúpverjum er annt um þessa gróðurvin lengst inni á afréttinum sínum. Þessa gróðurvin sem þeir hafa fleiri heyrt um en séð, öðru vísi en í hugskoti sínu. Þeir gera sér grein fyrir að þessi vin eins og allar vinjar eyðimarkanna er viðkvæm. Það má ekkert út af bera. Hún hverfur kannski ef aðeins hlýnar í veðri. Hún gæti horfið ef Þjórsá fer úr farvegi sínum og hættir að verja landið með vatninu sínu. Hún getur horfið ef gert verður lón neðst í verinu. Grunnt lónið mun einhvern tíma fyllast af jökulleir sem getur hjálpað vindinum að sverfa úr bökkunum. Við fjöruborð lónsins fær vindurinn næringu sína. Við þekkjum þennan vikurblandaða jarðveg, sem fýkur á landið niður í Norðurleit. Við viljum ekki að tekin sé nein áhætta. Við erum og höfum alltaf verið ofurseld náttúruöflunum. Þjórsárver eru í þeirra hendi. Við viljum ekki að græðgi mannskepnunar verði til þess að leggja eyðingaröflum náttúrunnar vopn í hendur.

Gnúpverjar hafa áður tekist á við utansveitarmenn um landið sitt. Um miðja 19. öldina tókust þeir á við nágranna sína á Skeiðunum um beit fyrir tryppi á afréttinum sínum. Þeim tókst að koma í veg fyrir að Skeiðamenn héldu áfram að reka tryppi á fjall. Um líkt leyti fengu þeir fulltingi sýslumanns Árnesinga til þess að skógarhögg var takmarkað í Búrfelli. Gekk á þeim árum mjög á skóginn í Skriðufelli og Búrfelli vegna kolagerðar og Rangvellingar sóttu mjög í Búrfellsskóg.

Rúmlega einni öld síðar þurftu Gnúpverjar aftur að rísa upp og verja landið. Nú voru uppi hugmyndir um að vinna annars konar eldivið. Nú þurfti ekki að smíða ljái. Uppi voru hugmyndir um að setja gróðurvinina, ævintýralandið undir vatn. Eldiviðurinn var rafmagn og smíðisefnið ál. Árið 1972 voru til bændur í Gnúpverjahreppi sem vissu að landið getur verið mikilsvirði eins og það er, með blómum tjörnum, fuglum og jafnvel tófum.

Nú eru miklu fleiri sem vita að fegurð landsins eru gæði sem við höfum efni á og nú finnst Gnúpverjum nóg komið. Við viljum þyrma Þjórsárverum, við viljum eiga það sem eftir er af Dynk, Kjálkaversfossi og Gljúfurleitarfossi.

Höfundur er Þorsteinn Ólafsson og ættaður úr uppsveitum Árnessýslu
greinin var birt 26.6.2001

Erindi Björns Þorsteinssonar á Umhverfisþingi 14. október 2003

Fundarstjóri ráðherra góðir gestir

Í röðum frálsra félagasamtaka um náttúruvernd gætti þess misskilnings um skeið að umhverfisþing hlyti að vera vettvangur frjálsra skoðanaskipta um náttúruvernd á forsendum náttúruverndar. Eins og þið sjáið af dagskránni fundarmenn góðir þá er það ekki þannig. Þetta er þing umhverfisráðherra og ráðuneytis hans og stofnana í fremur þröngum skilningi. Hér verða ekki samdar ályktanir eða stjórnvöld gagnrýnd sem heitið getur, enda mun ráðherra sjálfur draga saman hér meign niðurstöður. Sjónarhornið eru þarfir atvinnuveganna og ýmissa efnahagslegra hagsmuna fyrst og náttúruverndverndar svo. Frá sjónarhorni náttúruverndasamtaka eru áherslurnar hins vegar aðrar, þ.e. náttúruverndvernd á forsendum náttúruverndar, og siðferðilegar skuldbindingar okkar sem ríkjandi tegund í heimi hér.

Í sjálfumgleði okkar mannanna teljum við okkur vita flest harla vel. Við höfum sérfræðinga í mörgum efnum og suma hverja vissulega vel færa á sínum sviðum. Menn telja sig geta sagt fyrir um áhrif ýmissa inngripa okkar í náttúruna af nokkurru vissu og má það til sans vegar færa. Hins vegar er það þannig með fjölmörg inngrip mannanna að þau hafa svo flókin áhrif eða við vitum svo lítið um að það er ekki nokkur leið að segja til með vissu hver áhrifin verða. Sumir sem gefa sig út fyrir að vera sérfræðingar, sérstaklega þeir sem tengdir eru sterkum atvinnuhagsmunum, víla þó ekki fyrir sér að setja fram einfaldar fullyrðingar um flókna hluti t.d. um áhrif nýrra innfluttra tegunda í vistkerfi, erfðamengun vegna blöndunar aðfluttra dýra, áhrif breytts vatnafars á umhverfi osfrv. Reynslan segir okkur hins vegar að þessi mál eru oft mun flóknari en svo að hægt sé að leggja mat á tiltekna aðgerð eða framkvæmd með neinni þeirri vissu að réttlætanlegt sé að taka áhættuna. Þessu hafa auðvitað hugsandi menn áttað sig á og inn í hinn mjög svo mannmiðaða Ríó sáttmnála var sett in s.k. varúðarregla til að minna á þetta vandamál..

Í ljósi undangenginna átaka í virkjanamálum virðist okkur náttúruverndarfólki þessi regla ekki hátt skrifuð í raun hjá stjórnvöldum. Okkur virðist að það séu allt of oft pólitískir eða efnahaglegir skammtímahagsmunir fremur en þeir náttúruverndarlegu séu látnir njóta vafans. Það skortir þannig á að stjórnvöld og sum fyrirtæki umgangist náttúruna með tilhlíðilegri virðingu og lítillæti og láti hana njóta vafa og varúðar.

Ýmiskonar glappaskot fortíðarinnar töldu menn þjóðráð á þeim tíma sem þau voru gerð, hvort sem menn voru að hella niður DDT á bakka Sogsins til að fá vinnufrið fyrir flugu á meðan verið var að virkja þar, eða þegar stjórnvöld báðu bandaríkjaher að varpa djúpsprengjum á höfrunga sem voru að trufla fiskveiðar á Faxaflóa – eða þegar gengist var fyrir því að flytja inn karakúlfé til til að bæta íslensk sauðkind. Það er jafnvíst að í okkar samtíma erum við að líka gera mistök sem við eigum eftir að iðrast síðar meir.

Vanþekkingunni og skorti á náttúrufarslegum grunngögnum getum við mætt að nokkru leyti með því að hlúa að rannsókna og þekkingarstofnunum, ekki síst skólakerfinu á öllum stigum. Á Íslandi vitum við lítið svo dæmi sé tekið um útbreiðslu lágplantna og hryggleysingja. Hér vantar miklar rannsóknir til þess eins að við getum fullyrt hvort tiltekin lífvera sé sjaldgæf, eða mjög sjaldgæf, í útrýmingarhættu eða ekki. Skortur er á vel menntuðum náttúrufræðikennurum í grunnskólunum og víðar og hlutfallslega fáir kennaranemar velja náttúrufæði sem aðalgrein í KHÍ. Ekkert frambærilegt þjóðarnáttúrugripasafn er til í landinu og hefur það málefni verið látið reka á reiðanum í áratugi sem er bagalegt fyrir náttúrufræðifræðsluna.

Menntunarstig almennings er lykilatriði. Sá sem gengur yfir eingi og móa og þekkir enga jurt eða kvikindi hefur ekki frá neinu að segja þegar hann kemur heim. Menntakerfið er lykill sem opnar heima og glæðir meðvitund um m.a. um umhverfið og náttúruna. – Staðreyndaþekking á náttúrunni er þó ekki nóg, það þarf líka að kenna um hin mjúku gildi. Sá sem gleðst yfir fegurð himinsins, litabrigðum mýrarinnar, og klettaröðlanna handanvið, á auðveldari dag framundan, og hann lætur sig líka varða um þessi verðmæti.

Það kemur nefnilega í ljós að mælikvaðrar hagvaxtar og verðmiða er ekki það mikilvægasta í lífinu heldur það sem okkur er tilfinningalega heilagt. Þar getum við nefnt fjölskylduna, almenn mannréttindi, dýravelferð, náttúruna og landslagið.

Neyslugræðgi, orkusóun og mannfjölgun fela hins vegar í sér aðför að náttúrunni og spegla rangt jafnvægi í gildismati milli þátta sem hafa verðmiða, og þátta sem ekki hafa verðmiða.

Vandamál náttúruverndar þannig ekki bara þekkingarskortur og vöntun á náttúrufarslegum grunngögnum heldur einnig vandamál af siðferðilegum toga. Til eru nefnilega þeir sem vilja láta vaða í framkvæmdir, þótt fólk sem vit hefur til, hafi gert grein fyrir hugsanlegum afleiðingum og bent á að þær verði alvarlegar, óafturkræfar og eða illfyrirsjánlegar. Framkvæmdamenn eru almennt ekki uppnæmir fyrir því að einhver sjaldgæf mosategund sem örfáir náttúrufræðingar þekkja fari undir veg. Framkvæmdamenn virðast meira að segja ekki uppnæmir fyrir því að flytja ár milli vatnasviða vegna virkjana. – Þetta er allt í lagi segja þeir – þetta er misskilningur að þetta sé svona alvarlegt – eru gjarnan svör hinna framkvæmdaglöðu við gagnrýni náttúruverndarfólks.

Í siðfræði er talað um tómhyggju þegar hin siðferðilegu viðmið eins og fljóta um eftir hentugleikum, engin mörk eru virt, allt er leyfilegt. Það þarf vart að taka fram að slík afstaða er hættuleg afstaða og er vond fyrir samfélagið á öllum sviðum og þar með sambúðina við náttúruna.

Við getum sagt að það sem er sameiginlegt mannréttindamálum, dýravernd og náttúruvernd að þar er gerð tilraun til að móta takmörk sem við viljum setja okkur í þessum efnum. Þarna getum ekki stuðst við raunvísindaleg viðmið nema að litlu leyti, hér þróast siðferðileg og heimspekileg viðmið sem eftir atvikum er sett inn í lögggjöf og óskrifaðar reglur samfélagsins. Við virðum eigingildi og rétt hverrar manneskju, og við níðumst ekki á skepnum.

Við erum skemur á veg komin að virða eigingildi landsins og hinnar villtu náttúru. Í þessum efnum þarf hugsun þeirra sem hafa gott hjartalag og langtímasýn að ráða ferðinni. Í náttúruvernd þarf að hugsa í hundruðum ára fremur en áratugum, vegna þess hve langvarandi áhrif eru af mörgum athöfnum okkar. Skammtímahagsmunir eiga ekki við þegar stórar ákvarðanir eru teknar. Hagsmunir einstakra fyrirtækja eða stjórnmálamanna eru nær ætíð skammtímahagsmunir á þeim tímakvarða sem hér er nauðsynlegt að nota. Stjórnmálamenn hugsa oft í kjörtímabilum og fyrirtæki í uppgjörstímabilum eða endingartíma framleiðslutækja sem eru stutt augnablik á tímakvarða náttúrunnar. Við eigum eftir að stíga mörg skref í að þroska almenna vitund fólks um hvaða mörk við setjum í umgengi við náttúruna. Þetta er erfitt verkefni því álitamálin eru mörg og þekking okkar er takmörkuð

Nú er það þannig að sterkustu öflin sem móta framvinduna í samfélaginu eru hagsmunaöfl skammtímahagsmuna. Það eru mun veikari öfl sem standa vörð um langtímahagsmunina og þau verðmæti sem ekki hafa verðmiða þ.e. siðferðileg og tilfinnigarleg gildi eins og náttúrverndargildi eru að hluta til. Þess vegna er þátttaka almennings í mótun náttúruverndar nauðsynleg ekki síst á vettvangi frjálsra félagasamtaka um náttúruvernd. Það vantar mun fleiri félaga í frjáls náttúruverndarsamtök til þess að bolmagn þeirra nái að standa undir einhverju starfsmannahaldi. Því eru mikil takmörk sett hve mikið starf er hægt að reka alfarið á sjálfboðaliðastarfi eingöngu. Þetta er lífsnauðsyn vegna þess ójafnræðis og aflsmunar sem er á milli náttúruverndarhagsmuna og ýmissa annarra hagsmuna.

Það má segja það sama um Rammaáætlun og náttúruverndaáætlun, hennar hlutverk er að búa til yfirvegaðan langtímafarveg fyrir athafnir okkar á tilteknu sviði þ.e. orkuvinnslu. Með Rammaáætlun hefur verið brotið blað í aðferðafræði við mat á náttúruverðmætum. Allir sem áhuga hafa á náttúruvernd hljóta að fagna þeirri aðferðafræði sem er að þróast með áætluninni, og það er mikilvægt að þessi aðferðafræði fái nú að þróast áfram. Augljóst er að þessi aðferðafræði getur nýst við annarskonar mat en mat á virkjanakostum, m.á. þar nefna mat á mismunandi kostum í vegamálum, skipulagsmálum og svo framvegis.

Niðurstaða Rammaáætlunar segir okkur nú að út frá þeim valkostum sem þar voru skoðaðir að af þeim 50 kostum sem þar eru bornir saman væri Kárahnjúkavirkjun sú framkvæmd sem við ættum næst síðast að leggja út í. Þetta staðfestir þá sýn sem
náttúruverndarfólk hafði á framkvæmdina – það er staðfest með Rammaáætlun að það var rangt að svara þeim skammtímahagsmunum sem uppi voru og leggja í virkjunina þar sem hún er óforsvaranleg miðað við þá lítt umdeildu mælikvarða sem þar er stuðst við í mati Rammaáætlunar.

Annað alvarlegt dæmi um hvernig skammtímahagsmunir hafa hleypt í uppnám góðum náttúruverndaráformum eru málefni Þjórsárvera. Verksmiðjueiganda nokkrum datt í hug að panta orku fyrir verksmiðju sína frá Landsvirkjun, en það yrði þá að vera fljótlega. Fyrirtækið kvaðst þá ekki hafa aðra kosti en Norðlingaölduveit- og ef þeir fengju ekki að ganga í það verk, þá yrði ekki af neinum viðskiptum. Stjórnmálamönnum og þjóðinnni var stilllt upp við vegg. En svo kom allt í einu í ljós að það voru aðrir aðilar sem gátu útvegað iðnrekandanum orku. Við náttúruverndafólk önduðum léttar í bili, en bara í bili, draugur skammtímahugsunarinnar vaknar alltaf aftur og hefur síðan þetta var rumskað nokkrum sinnum.

Til að Náttúruverndaráaætlun standi undir nafni þá verður okkar helsta Ramsarsvæði – Þjórsárver að vera tryggð full vernd – þess vegna er það krafa frjálsra félagasamtaka að möguleikum á öllum frekari framkvæmdum í og í kring um Þjórsárverin verði ýtt út af borðinu og svæðið fái þá vernd sem það verðskuldar.

Að lokum þetta. Náttúruverndaráætlun og Rammaáætlun ber að fagna og þessi verkefni eru vel unnin svo langt sem þau ná. En -lítið gagn er af góðum aðferðum og vönduðum vinnubrögðum ef stjórnvöld á hverjum tíma hafa ekki getu eða áhuga á að fara eftir þeim niðurstöðum sem út úr þeim koma.

birt 14.10.2003 höfundur Björn Þorsteinsson, prófessor Hvanneyri

Þjórsárver og heimskupör Landsvirkjunar

Aðeins þremur mánuðum eftir að settur umhverfisráðherra kvað upp úrskurð í kærumálum vegna miðlunar í Þjórsárverum er niðurstaða hans komin í uppnám. Ástæðan er þokukennd framsetning í úrskurðinum og óbilgirni Landsvirkjunar sem er á fullri ferð með að túlka úrskurðinn á annan veg en ráðherra hefur gert gagnvart alþjóð og Alþingi. Þar teflir Landsvirkjun í skjóli iðnaðarráðherra og Jóhannesar Sigurgeirssonar stjórnarformanns en þessir samflokksmenn hafa unnið eins og síamstvíburar að undirbúningi stóriðjuframkvæmda allt kjörtímabilið og ekki þurft að hafa áhyggjur af umhverfisráðuneytinu. Úrskurður Jóns Kristjánssonar, sem margir urðu fljótir til að fagna, er þannig að snúast í andhverfu sína. Forysta Framsóknarflokksins er áfram í aðalhlutverki sem gerandi en náttúruperlan Þjórsárver er þolandinn.
Fylgiskjöl hluti úrskurðar

 


Undirritaður sló strax varnagla við úrskurði ráðherra eins og sjá má í grein sem birtist í Morgunblaðinu 15. febrúar 2003. Athugasemdir mínar vörðuðu aðallega veitulónið norðan Arnarfells sem samkvæmt úrskurðinum er heimilað sem “mótvægisaðgerð”. Ég sá þá ekki fyrir þau dæmalausu heimskupör ábyrgðarmanna Landsvirkjunar, sem nú eru komin á daginn, þar sem fyrirtækið ráðgerir að hækka stíflumannvirki við Norðlingaöldu og tvöfalda stærð lónsins syðst í verunum umfram það sem settur umhverfisráðherra kynnti 30. janúar síðastliðinn.
Af niðurstöðu og kynningu ráðherrans er augljóst að líta beri á úrskurðinn og skýrslu Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddssens (VST) sem eina órjúfanlega heild. Skýrsla verkfræðistofunnar er fylgiskjal með úrskurðinum og öll umræða og túlkun í kjölfarið hefur gengið út frá lóni í 566 metra yfir sjávarmáli, eins og gerð er grein fyrir í máli og myndum í skýrslu VST. Um þetta vitnar meðal annars frásögn á fréttavef Morgunblaðsins af blaðamannafundi sama daginn og ráðherra kynnti úrskurðinn.
Leikur að eldi

 


Í ljósi umrædds úrskurðar er það fádæma bíræfni af hálfu Landsvirkjunar að vinna að þeirri útfærslu sem nú hefur sett Þjórsárveramál í uppnám á nýjan leik. Talsmenn fyrirtækisins, með stjórnarformanninn í fararbroddi, virðast hvorki gera sér grein fyrir réttarstöðu sinni í málinu né hvað skynsamlegt sé fyrir fyrirtækið að aðhafast í ljósi almannaálits. Svo gæti farið að þessi síðasti leikur Landsvirkjunar að eldi leiði til þess að allar fyrirliggjandi hugmyndir um virkjunarframkvæmdir í Þjórsárverum og grennd verði afskrifaðar. Taki ráðherrar Framsóknarflokksins ekki í taumanna á meðan þeir enn sitja að völdum, hlýtur að reyna á frekari málsmeðferð og réttarstöðu í kjölfar alþingiskosninga.

Birt 2.5.2003

Lýðræði og virkjanir -Ólafur Páll Jónsson

(Birt með leyfi höfundar)

Um nokkurt skeið hefur legið fyrir að virkjað verði við Kárahnjúka. Andstæðingar virkjunarinnar verða að játa að fátt virðist geta komið í veg fyrir hana, fylgismenn virkjunar segja að fátt geti nú staðið í vegi fyrir henni. Og þó er málið langt frá því útrætt. Andstæðingar virkjunarinnar saka stjórnvöld landsins um að hafa brugðist lýðræðinu og stjórnvöld saka umhverfisverndarsinna um að standa í ólýðræðislegri baráttu. Hvað skyldi vera til í þessum ásökunum?

Tvenns konar lýðræði

Reynum fyrst að átta okkur á því hvað lýðræði er. Lýðræði er annars vegar tiltekin stjórnskipan. Hins vegar er lýðræði aðferð eða tæki til að taka bindandi ákvarðanir. Sem stjórnskipan þjónar lýðræðið því hlutverki að gera fólki kleift að velja og skipta um valdhafa á friðsaman hátt. Þessu hlutverki hefur lýðræðið á Íslandi þjónað mjög vel. Andstæða lýðræðis í þessum skilningi er t.d. konungsvald, harðstjórn eða stjórnleysi.
Lýðræði sem tæki til að taka bindandi ákvarðanir um hagsmunamál fólks – sem það kann þó að vera ósammála um – snýst ekki um að útdeila valdi heldur einfaldlega um hvernig skuli taka ákvörðun í hópi fólks. Ákvörðun getur verið lýðræðisleg í þessum skilningi hvort sem hún er ákvörðun krakka um að kaupa bland í poka frekar en súkkulaði eða ákvörðun þjóðar um að afsala sér sjálfstæði.

En hverjar eru þá leikreglur lýðræðislegrar ákvörðunar? Byrjum með litlu dæmi: Ef sá sem er stærstur og sterkastur í bekknum ákveður að farið skuli í fótbolta, einfaldlega vegna þess að hann er stærstur og sterkastur og hann langar í fótbolta, þá kúgar hann aðra í bekknum, jafnvel þótt flesta hafi langað meira í fótbolta en að gera eitthvað annað. Ákvörðunin er í engum skilningi þeirra eigin jafnvel þótt hún sé þeim í hag. Þeir sem eru sammála þeim stóra geta unað slíkri ákvörðun – að minnsta kosti um sinn. Þeir gætu hins vegar átt erfitt með að una því að vera seldir undir geðþóttavald þess stóra. En hvað ef sá stóri leyfir að kosið skuli á milli fótbolta og blaks. Geta þá allir unað glaðir við niðurstöðuna? Er lýðræðinu þá fullnægt? Ekki endilega. Hvers vegna skyldu þessir tveir kostir vera á borðinu en ekki einhverjir aðrir? Lýðræðinu er ekki fullnægt með því einu að hafa kosningar um tiltekna kosti, því ef kostirnir eru ekki þeir sem máli skipta er ákvörðinunin ekki sjálfráð ákvörðun þeirra sem kjósa. Leikreglur lýðræðisins felast ekki einungis í því að þeir sem málið varðar fái að kjósa.
Í lýðræðislegri ákvörðun er kosning aldrei nema lokaskref á langri leið, og jafnvel þótt lokaskrefið sé tekið eftir settum reglum þá dugir það ekki ef ferlið er að öðru leyti gallað. En hvernig þarf þá ferlið að vera, sem endar með kosningu, til að niðurstaðan úr kosningunni sé réttnefnd lýðræðisleg ákvörðun? Við getum nefnt fjögur skilyrði sem slíkt ferli þarf að uppfylla:

1. Bindandi ákvarðanir skulu einungis teknar af þeim sem eiga hagsmuna að gæta.

2. Allir þeir sem málið varðar skulu hafa sömu tækifæri til að leggja sínar skoðanir á vogarskálarnar, bæði skoðanir um hvaða kosti valið eigi að standa um og hvers vegna skuli velja einn kost frekar en annan.

3. Allir þeir sem málið varðar skulu hafa jöfn tækifæri til að meta þá kosti sem kosið erum með tilliti til eigin hagsmuna og verðmætamats.

4. Á lokastigi skal vægi atkvæða vera jafnt.

Skilyrði (1) ætti að vera nokkuð ljóst. Það tekur t.d. til þess að íbúar í Súðavík eigi ekki að kjósa um skipulagsmál á Neskaupsstað, eða að einungis þeir sem eiga börn í leikskólum eða vinna þar skuli kjósa um hvenær leikskólunum verði lokað vegna sumarleyfa. Skilyrði (2) gerir þá kröfu að áður en til kosninga kemur skuli hafa farið fram opin umræða. Umræðan skal ekki einungis vera opin í þeim skilningi að fólk geti látið í ljósi hvort það sé með eða á móti tilteknum kostum, heldur á fólk einnig að hafa um það að segja hverjir kostirnir eru sem kosið er um. Þegar taka á bindandi ákvarðanir er sjaldnast fyrirfram gefið hverjir kostirnir eru, heldur er það hlutverk hinnar opnu umræðu að setja fram valkosti og afmarka hvaða kostir koma helst til greina. Þetta skilyrði gerir þá sérstöku kröfu til alþingismanna, að þegar fyrir þingi liggja mál sem fjallað er um í opinberri umræðu utan þings, eins og oft er raunin, þá sé tekið mið af þeirri umræðu við afgreiðslu málanna. Við getum orðað þetta svo að opinber umræða almennings verði að geta náð inn í sali Alþingis.

Skilyrði (3) kveður á um að fólk skuli hafa tækifæri til að mynda sér upplýsta skoðun á þeim kostum sem á endanum er kosið um. Þetta skilyrði leggur sérstakar skyldur á herðar stjórnvalda, háskóla, fjölmiðla og annarra stofnana samfélagsins sem ráða yfir sérþekkingu og getu til að miðla upplýsingum og þekkingu. Þetta atriði gerir t.d. þá kröfu til sérfræðinga og vísindamanna að þegar þeir tjá sig í opinberri umræðu um þau mál sem fyrir liggja geri þeir það á hlutlægan hátt og á “mannamáli”, þ.e. á þann hátt sem er aðgengilegur venjulegu fólki. Þriðja skilyrðið gerir líka þá kröfu til stjórnvalda að þau haldi úti stofnunum eins og háskólum og tryggi sjálfstæði skólanna og þeirra sem þar vinna bæði gagnvart sérhagsmunahópum og stórfyrirtækjum en ekki síður gagnvart framkvæmdavaldinu. Af þessum sökum vega stjórnmálamenn beinlínis að stoðum lýðræðisins þegar þeir beita sér, í krafti stöðu sinnar, gegn því að vísinda- og fræðimenn taki þátt í opinberri umræðu.

Skilyrði (4) er ekki jafn einfalt og það gæti virst við fyrstu sýn. Það felur til dæmis ekki í sér að það sé andlýðræðislegt að atkvæði á bak við hvern þingmann séu mismörg. Ef Alþinigiskosningar væru ekkert annað en óbein leið til að kjósa um það sem borið er undir atkvæði á Alþingi, þá bryti misvægi atkvæða í bága við þetta skilyrði og fæli í sér meinbugi á lýðræðinu. En Alþingiskosnúingar eru ekki óbeinar kosningar um þingmál. Alþingi er ekki einungis kosningavettvangur heldur einnig, og kannski miklu fremur, umræðuvetvangur. Skilyrði (2) að ofan gæti jafnvel beinlínis kallað á ójafnt atkvæðavægi til að tryggja að sú umræða sem er nauðsynlegur undanfari lýðræðislegra kosninga standist kröfur lýðræðisins.

Lýðræði sem stjórnskipan og lýðræði sem tæki til að taka bindandi ákvarðanir skarast þegar lýðræðislega kjörnir fulltrúar hafa það hlutverk að taka bindandi ákvarðanir sem varða hagsmuni fólks. Til þess að ákvörðun um málefni sem varða hagsmuni þjóðarinnar geti talist lýðræðisleg þá þarf slík ákvörðun að vera lýðræðinu samkvæm í hvorutveggja skilningnum hér að ofan. Ákvörðun getur því brugðist að vera lýðræðisleg ef hún er tekin af röngum aðilum en einnig ef hún brýtur í bága við leikreglur lýðræðislegrar ákvörðunar, jafnvel þótt hún sé tekin af réttum aðilum.
Hver sá sem fer með vald í lýðræðisríki verður að virða margvíslegar skorður. Valdhafi sem í athöfnum sínum brýtur í bága við siðferðið getur gerst sekur um siðlaust athæfi, jafnvel þótt hann brjóti ekki lög. Þá er talað um að sé löglegt en siðlaust. Lýðræðið sem hugsjón um hvernig taka skuli bindandi ákvarðanir setur valdhöfum einnig skorður sem eru ekki einberar siðferðilegar skorður og ekki nema að litlu leyti bundnar í lög.


Er barátta náttúruverndarsinna ólýðræðisleg?

Lítum fyrst á þá ásökun, sem m.a. hefur komið frá Valgerði Sverrisdóttur iðnaðarráðherra, að barátta umhverfisverndarsinna sé ólýðræðisleg. Valgerður hefur sagt að baráttan sé ólýðræðisleg vegna þess að hún skaði íslenska hagsmuni og ákvörðun um málið hafi þegar verið tekin af réttum lýðræðislega kjörnum aðilum. Spyrjum fyrst: Er nóg að réttir aðilar hafi tekið ákvörðun til þess að andstaða við hana sé ólýðræðisleg? Svarið er augljóslega „Nei“. Þótt réttir lýðræðislega kjörnir aðilar taki ákvörðun, þá getur ýmislegt brugðist. Í spillingarmálum eru það einmitt réttir aðilar sem taka rangar og ólýðræðislegar ákvarðanir. Þess vegna eru slík mál spillingarmál frekar en t.d. kúgunarmál eða óbreytt svik. Ákvörðun sem tekin er af lýðræðislega kjörnum meirihluta er ekki sjálfkrafa lýðræðisleg. Það er raunar grundvallaratriði lýðræðislegs stjórnarfars að ávallt sé opinn möguleiki á að gagnrýna athafnir valdhafa.

Hvað þá með það umkvörtunarefni Valgerðar að gagnrýni náttúruverndarsamtaka skaði íslenska hagsmuni? Þetta atriði er tvíeggjað. Náttúruverndarsamtök telja sig einmitt vera að berjast fyrir íslenskum hagsmunum og telja að íslensk stjórnvöld séu að fórna minni hagsmunum fyrir meiri. Það er að vísu ljóst að gagnrýni náttúruverndarsinna og ýmissa annarra skaðar það sem íslensk stjórnvöld telja sína hagsmuni, en ekki má gleyma því að hagsmunir stjórnvalda eru ekki það sama og hagsmunir Íslendinga. Ein af þeim hugsjónum sem liggur lýðræðinu til grundvallar er einmitt að hagsmunir stjórnvalda skuli ekki vega þyngra á vogarskálunum en hagsmunir almennings. Ef það á að vera hægt að taka ásakanir Valgerðar alvarlega verður að vera sýnt að þeir hagsmunir sem gagnrýni náttúruverndarsinna skaðar séu ekki einungis hagsmunir stjórnvalda, heldur almennir hagsmunir Íslendinga. En hver dæmir um það hvað séu almennir íslenskir hagsmunir? Ekki stjórnvöld. Það er raunar eitt megineinkenni ofríkis, eins og það birtist t.d. í ofríki kommúnistastjórna Austur-Evrópu á síðustu öld, að stjórnvöld taka sér vald til að dæma um hvað séu hagsmunir almennings. Ef fella á dóm um það hvaða hagsmunir séu raunverulega í húfi verður slíkur dómur að vera niðurstaða opinnar umræðu og í tilviki sem þessu hlýtur slík umræða að teygja sig út fyrir landsteinana. Á þetta lagði Jón Kristjánsson áherslu í úrskurði sínum um Norðlingaölduveitu. Þessi gagnrýni Valgerðar er því ekki á rökum reist.

Auk Valgerðar setti Jóhannes Geir Sigurgeirsson stjórnarformaður Landsvirkjunar fram svipaða gagnrýni. Gagnrýni af þessu tagi virðist raunar ekki miðast við annað en að þagga niður í tiltekinni umræðu og ekki með efnislegum rökum heldur með því að gefa í skyn að hvatinn að baki umræðunni sé á einhvern hátt annarlegur. Sér í lagi var vegið að starfsheiðri vísindamanna sem höfðu bent á að rökstuðningur í matsskýrslu um umhverfisáhrif væri ófullnægjandi. Slíkt er ekki til annars en að fæla þá sem síst skyldi frá því að taka þátt í þeirri opinberu umræðu sem er nauðsynleg forsenda þess að ákvörðun geti á endanum talist lýðræðisleg. Það er því ekki nóg með að ásakanir Valgerðar og Jóhannesar Geirs missi marks, heldur er þessi gagnrýni sjálf beinlínis ólýðræðisleg.


Hafa stjórnvöld brugðist lýðræðinu?

En víkjum þá að gagnrýni náttúruverndarsinna þess efnis að stjórnvöld hafi brugðist lýðræðinu þegar þau heimiluðu virkjun við Káranhjúka. Gagnrýni náttúruverndarsinna hefur einkum byggst á þremur atriðum. Í fyrsta lagi að umhverfismatið sem fyrir lá hafi verið ófullnægjandi frá vísindalegum sjónarhóli og því ekki boðlegt sem forsenda fyrir ákvörðun um að virkja. Í öðru lagi að kostirnir sem stillt var upp hafi verið ósanngjarnir. Í þriðja lagi að umræðan um kostina sem þó voru til umræðu hafi ekki verið fyllilega opin. Lítum fyrst á þessi gagnrýnisatriði og reynum síðan að átta okkur á því hvort þau styðji þá gagnrýni að framganga stjórnvalda hafi verið ólýðræðisleg.

Er virkjun nauðsynleg?

Ákvörðun um að virkja eða virkja ekki er byggð á þrenns konar forsendum. Í fyrsta lagi að virkjun sé nauðsynleg eða yfirleitt æskileg, í öðru lagi að arðsemi framkvæmdanna sé tryggð og í þriðja lagi að umhverfisáhrif séu ásættanleg. Hvað fyrstu forsenduna varðar, hefur aldrei verið sýnt fram á að virkjun sé nauðsynleg, hvað þá virkjun af þeirri stærðargráðu sem þarna á að ráðast í. Vissulega hafa Austfirðir átt undir högg að sækja, fólk hefur flutt þaðan og sóknarfæri virðast fá. En fólk hefur ekki flutt frá Austfjörðum vegna þess að þar vantaði álver og virkjun. Að vísu hafa stjórnvöld hagað því svo að um langt skeið hafa Austfirðingar beðið eftir álveri, og kannski hefur það bitnað á annarri uppbyggingu á svæðinu.
Auk þess er ekki ljóst að sú uppbygging sem álver á Reyðarfirði hefur í för með sér sé heppilegasta lausnin á þeim byggðavanda sem fyrir liggur. Í nýlegri rannsókn kemur fram að háskólamenntun er misskipt eftir landshlutum. Hlutfall menntafólks hefur lækkað á landsbyggðinni en hækkað á Reykjavíkursvæðinu. Það úrræði að reisa virkjun og álver til að stemma stigu við fólksfækkun á Austfjörðum mun gera lítið til að snúa þessari þróun við, og þó er hún ekki síður varhugaverð en einber fólksfækkun.

Hver er arðsemin, hver eru umhverfisáhrifin?

Segja má að arðsemishorfur séu einkamál þeirra sem taka fjárhagslega áhættu með því að fara út í framkvæmdir. Það flækir að vísu málið að í þessu tilviki er fyrirtækið, sem kemur til með að hljóta arð eða tap af framkvæmdinni, í opinberri eigu. Látum það liggja á milli hluta. Að því gefnu að arðsemiskrafan sé fullnægjandi og að aðrar forsendur séu réttar, er arðsemin ekki deiluefni. En hverjar eru þessar forsendur? Virkjun við Kárahnjúka nýtir eina auðlind á kostnað annarrar, stöðuorka fallvatna er nýtt á kostnað ósnortinnar náttúru. En er rétt að fórna ósnortinni náttúrunni án þess að meta hana til fjár? Ég held ekki. Ekki frekar en við ættum að fórna stöðuorku fallvatnanna fyrir ósnortna náttúru án þess að meta hana til fjár.
Hér dugir ekki að bera því við að erfitt sé að meta víðernin til fjár. Þegar slíkar ástæður standa í vegi fyrir athöfnum heitir það leti. Auk þess er býsna nærtækt að setja ósnortin víðernin í fjárhagslegt samhengi. Íslensk stjórnvöld stefna að því að stórauka ferðamannastraum til landsins á næstu árum. Það kemur fram í opinberum yfirlýsingum og áætlunum. Markaðssetning Íslands erlendis leggur t.d. áherslu á hreina og ósnortna náttúru landsins. Framkvæmd eins og Kárahnjúkavirkjun gerir þessi áform vissulega ekki að engu, en óneitanlega þrengir hún kosti þeirra sem koma til með að vinna við ferðamannaþjónustu.
Spurningin um það með hvernig meta skuli verðgildi ósnortinnar náttúru er hagsmunamál allra Íslendinga og ákvörðun um að fórna ósnortnum viðernum, sem óumdeilanlega hafa mikið og sívaxandi gildi, bæði tilfinningalegt og fjárhagslegt, verður að taka með lýðræðislegum hætti. Um þessi efni hefur raunar verið mikil opin umræða, en sú pólitíska ákvörðun að fórna ósnortnum víðernunum hefur algerlega sniðgengið þessa umræðu. Sú ákvörðun að gefa Landsvirkjun víðernin, eins og útgerðarmenn fengu kvótann forðum daga, var tekin í krafti aflsmuna, ekki sem niðurstaða af lýðræðislegri umræðu.

Hvaða kostir standa opnir?

Ýmsir hafa haldið því fram að ekki sé forsvaranlegt að taka ákvörðun um jafn afdrifaríka framkvæmd og Kárahnjúkavirkjun án þess að setja hana í samhengi við aðra virkjanakosti. Það liggur fyrir að nóg er til af virkjanlegri vatnsorku á landinu. Talið er að hagkvæmt sé að virkja um 37 TW-stundir á ári, en þegar hafa verið virkjaðar um 7 TW-stundir á ári. Kárahnjúkavirkjun er um 0,5 TW-stundir á ári. Það eru því ýmsir aðrir kostir í stöðunni en að virkja við Kárahnjúka. Af þessu er ljóst að þegar þingmenn spyrja úr ræðustóli Alþingis hvort þeir sem eru mótfallnir virkjun haldi að þjóðin geti lifað af því að tína fjallagrös, gera þeir sig seka um grófa vanþekkingu. En hvers vegna er málinu þá stillt þannig upp að annað hvort verði virkjað við Kárahnjúka og byggt álver í Reyðarfirði, eða að það verði ekkert álver byggt og engin stór virkjun reist á næstunni? Er málið kannski einfaldlega að engin önnur virkjun er tilbúin á teikniborðum Landsvirkjunar? Kannski er það á endanum svarið, og kannski er svipuð ástæða fyrir því að Landsvirkjun vildi miðla vatni við Þjórsárver – friðlandi með alþjóðlega viðurkenningu – frekar en að leita annarra kosta.
Landsvirkjun er að vísu nokkur vorkunn. Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma er ekki tilbúin. Á síðasta ári var sett fram tilraunamat á nokkrum virkjanakostum. Þar kemur fram að umhverfisspjöll af völdum Kárahnjúkavirkjunar eru mjög mikil og meiri en við aðrar virkjanir, en að vísu er Kárahnjúkavirkjun mun stærri en þær. Beinn samanburður er því mjög erfiður. Í tilraunamatinu kemur reyndar einnig fram að stofnkostnaður á hverja orkueiningu við ýmsar aðrar virkjanir er svipaður og í Kárahnjúkavirkjun og því ættu þessar virkjanir að vera valkostur við hliðina á henni. En staðreyndin er sú að Rammaáætlunin er ekki tilbúin og er hún þó algjör forsenda fyrir allri vitrænni umræðu um virkjanir fallvatnanna, og þar með forsenda fyrir lýðræðislegum ákvörðunum um virkjanir. Af þessum sökum stöndum við frammi fyrir afarkostum sem ráðast kannski öðrum þræði af hugmyndaflugi og gildismati verkfræðinga Landsvirkjunar.


Hvaða kostur er Kárahnjúkavirkjun?

Ef taka á lýðræðislega ákvörðun um tiltekið mál er ekki nóg að stilla upp valkostum og velja svo einn. Það verður líka að vera ljóst hvað hver kostur felur í sér. Þegar stórvirkjun eins og Kárahnjúkavirkjun liggur fyrir er umhverfismat ein tilraun til að leiða í ljós hvað framkvæmdin felur í sér. Hversu vel þjónaði umhverfismatið sem lagt var fram fyrir Kárahnjúkavirkjun þessu hlutverki? Skipulagsstofnun komst í stórum dráttum að tvenns konar niðurstöðu um umhverfismatið. Í fyrra lagi að matið væri ekki fullnægjandi frá vísindalegum sjónarhóli. Í seinna lagi að framkvæmdin hefði of mikil náttúruspjöll í för með að svo miklu leyti sem matið leiddi þau í ljós. Landsvirkjun kærði þessa niðurstöðu og umhverfisráðherra féllst í grundvallaratriðum á þá kæru. Niðurstaðan varð sú að framkvæmdin var leyfð með litlum breytingum. Bæði fyrir og eftir að umhverfisráðherra felldi sinn dóm komu fram alvarlegar athugasemdir bæði við efnislegt innihald matsskýrslunnar og þær forsendur sem hún var byggð á. Vísindamenn töldu að rangt hefði verið farið með staðreyndir, að ýmsir áhættuþættir væru vanmetnir og að rannsóknir væru ónógar. Sem dæmi um hið síðastnefnda má nefna að tölur um rofhættu byggja einungis á tveggja ára veðurgögnum. Þetta er aðeins eitt dæmi, en það varðar mikilsverða þætti framkvæmdanna og sýna að skýrslan byggir á ófullnægjandi rannsóknum hvað þá varðar. Sú niðurstaða matsskýrslunnar að fokhætta sé innan ásættanlegra marka getur út af fyrir sig verið rétt, en höfundar skýrslunnar hafa ekki stutt hana fullnægjandi rökum.
En hvers vegna skiptir það máli frá sjónarhóli lýðræðisins hvort umhverfismatið hafi verið fullnægjandi? Lýðræðið krefst þess ekki að í máli sem þessu séu allir sammála um hvort umhverfismat gefi tilefni til framkvæmda áður en ákvörðun er tekin. Það er hins vegar algjörlega nauðsynlegt að menn séu sammála um að slíkt mat gefi rétta mynd af því hvaða hagsmunir eru í húfi. Ef það er ekki ljóst er ekki er hægt að taka lýðræðislega ákvörðun um að fórna tilteknum hagsmunum fyrir aðra; það er einfaldlega ekki ljóst hverju er verið að fórna fyrir hvað.

Niðurstaða

Þegar við tölum um lýðræðislega umræðu, þá eigum við ekki aðeins við umræðu sem felur í sér einber skoðanaskipti. Lýðræðisleg umræða miðar að ákveðnu marki – að taka bindandi ákvörðun um hagsmuni fólks. Eins og ég sagði að ofan þá er hlutverk slíkrar umræðu bæði að draga fram í dagsljósið hvaða hagsmunir eru í húfi og að skilgreina þá kosti sem valið stendur um.

Ég hef nú gert stutta grein fyrir því (i) að ákvörðun um að virkja var ekki tekin á vísindalegum forsendum heldur á grundvelli umhverfismats sem var, af vísindalegum ástæðum, ófullnægjandi, (ii) að umræðan var ekki opin í þeim skilningi að þeir sem málið varðar gátu haft áhrif á hvaða valkostir voru í boði, (iii) að ekki var til umræðu hvernig meta skyldi verðmæti þeirrar ósnortnu náttúru sem yrði óhjákvæmilega fórnað, og loks (iv) að umræðan var ekki opin í þeim skilningi að allir gætu óhindrað lagt sitt til málanna.


Niðurstaðan er því sú að í þessum máli hafa stjórnvöld brugðist lýðræðinu. Og þau brugðust vegna þess að þau sinntu ekki því sem þeim bar og misbeittu því valdi sem þeim hafði verið trúað fyrir.

birt 9.3.2003 Höfundur: Ólafur Páll Jónsson, heimspekingur

Ef við fáum ekki álver, þá erum við farnir… -Katrín Fjelsted

Hluti af ávarpi sem flutt var á fundi á Grand Rokk 23. nóvember 2002

Mér er mikill heiður að fá að ávarpa ykkur á þessum fundi. Eins og þið vitið hef ég lýst miklum efasemdum um viturleika þess að Íslendingar fylgi stóriðjustefnu og tel að mun farsælla sé fyrir okkur að nýta fegurð fjalla og hreinleika íslenzkrar náttúru á umhverfisvænan hátt, svo sem með því að geta státað af stærstu ósnortnu víðernum í Evrópu. Samkvæmt skilgreiningu á ósnortnu víðerni er þar gert ráð fyrir að ekki séu neinar raflínur, miðlunarlón, orkuver eða uppbyggðir vegir í amk 5 km fjarlægð og ekki gæti beinna ummerkja mannsins. Þar fær náttúran að þróast án álags vegna mannlegra umsvifa.

Enginn má við margnum segir gamalt máltæki og þegar lög um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal voru samþykkt á Alþingi í apríl 2002 greiddi ég þeim ekki atkvæði mitt heldur lýsti ég því yfir að mín sýn á framtíðina væri önnur og hið sama mætti segja um marga sjálfstæðismenn sem ég er málsvari fyrir. Ég er þó hlynnt því að nýta auðlindir okkar innan hóflegra marka og á sjálfbæran hátt en snúa þarf við orkustefnu Íslendinga og nota aðra og vistvænni orkugjafa svo sem jarðhita.Við verðum að hætta að einblína á orku úr vatni.

Núverandi virkjunaráform munu skaða hálendi Íslands meira en hægt er að sætta sig við.

Ég tel að arðsemi af fyrirhuguðum framkvæmdum sé ekki slík að hún réttlæti svo stórfelld náttúruspjöll. Fyrir utan það að njóta ríkisábyrgðar sem nema kann á annað hundrað milljarða króna er framkvæmdaaðili undanþeginn sköttum og skyldum og loks kostar landið sem spillt verður ekki neitt. Ég álít að stórfelld ríkisafskipti af atvinnustarfsemi í landinu eigi að heyra fortíðinni til. Verkefni hins opinbera á að vera að setja atvinnustarfsemi almenna ramma, eins og núverandi ríkisstjórn hefur að jafnaði gert. Þannig eru markaðinum búin eðlileg skilyrði og frumkvæði einstaklinganna getur notið sín.

Nokkrir einstaklingar hafa kynnt sér arðsemisútreikninga Landsvirkjunar og skrifað fjölda blaðagreina um þá. Vil ég sérstaklega þakka Sigurði Jóhannessyni hagfræðingi og Þorsteini Siglaugssyni fyrir afar upplýsandi greinar og fyrirlestra.

Önnur hlið er á þessu máli en það er staðsetning álvers við Reyðarfjörð. Samkvæmt mínum upplýsingum er staðsetningin 3-5 km frá þéttbýlinu á Búðareyri. Við könnun á Keilisnesi, Eyjafirði og Reyðarfirði sem fram fór á vegum staðarvalsnefndar í tíð Jóns Sigurðssonar sem iðnaðarráðherra var reyndar mælt gegn því að álver yrði byggt í firði. Í fjörðum eru veðraskil þannig að kalt loft er undir en heitt ofan á, SO2 lendir á milli laga og safnast þar saman, einkum í logni. Á Reyðarfirði háttar svo til að logn er um 46% af tímanum. Nokkuð víst má telja að í 13 km fjarlægð frá þéttbýli, eins og t.d. við Eyjafjörð muni ungbörn, asthmaveikir og gamlir fá einkenni frá lungum eftir 2-4 daga logn. Í lygnum firði eins og Reyðarfirði þar sem fjarlægðin er enn minni má vera ljóst að óbúandi verður á Búðareyri í námunda við álver. Reyðfirðingar segja: Ef við fáum ekki álver erum við farnir. Ég segi: Ef þið fáið álver þá farið þið. Á bak við hvert starf í álveri við Reyðarfjörð eru u 250 mKr

Einnig hef ég átt frumkvæði að umræðu um að neyzluvatn verði skilgreint sem auðlind og nýtt til útflutnings. Ég er þess fullviss að átök í heiminum muni í vaxandi mæli tengjast vatnsskorti, því eins og þið vitið búa fjölmargar þjóðir við vatnsskort nú þegar. Haft er við orð að umhverfisverndarsinnar séu á móti öllu, en þeir eru þó fyrst og fremst með því að vernda hálendið. Með tillögu minni um vatnið er ég að benda á hráefni sem Íslendingar ráða yfir öfugt við álframleiðslu, þar sem hráefnið er á forræði annarra og sala afurðarinnar sömuleiðis.

Þjórsárver eru friðland. Þau hafa verið friðuð skv. íslenzkum lögum og erlendum sáttmála sem kenndur er við Ramsar. Þegar hefur verið gengið á Þjórsárver með virkjanaframkvæmdum. Norðlingaöldulón kæmi í neðsta hluta þeirra eins og þið vitið. Kvíslarveitur 1-5 hafa haft mikil áhrif. Núv. áform gætu rýrt af vatnstöðu veranna um 20-30% en vatnsmagn Þjórsár hefur nú þegar verið rýrt um 40%. Hægt er að afla orku til þess að stækka Norðurál með því að virkja við Urriðafoss og Núp eða þá með jarðhita en ákefðin er mikil og alltaf liggur lífið á. Nær væri að gefa sér tíma og virkja einungis þar sem þokkaleg sátt getur náðst um.

Skv bandarískum stöðlum þarf 2-3x stærra flatarmál lands til að bæta fyrir skemmdir á óröskuðu votlendi en minna ef því hefur verið raskað. Ef 27 km2 fara undir lón þá þarf 54-81 km2 til að bæta fyrir það. Hvar ætla menn að finna svæði til að bæta fyrir það? Á landinu er talið að grafnir hafi verið um 33 þús. km af skurðum til að ræsa fram votlendi og mokað hefur verið ofan í örfáa, vel innan við tíu km.

Í magnaðri grein Elínar Pálmadóttur, “Ég ákæri”, í Mbl 8. nóvember s.l. kemur fram að ef rofin verða öll grið í umhverfismálum, brotnir samningar skv. ísl. lögum um friðun jafnt sem alþjóðlegar skuldbindingar okkar í Ramsarsáttmála, heimafólk í viðkomandi hreppum hundsað, valið umfram aðra staði að ráðast í eyðileggingu á langsérstæðasta og dýrmætasta friðaða svæði okkar á lands- og alþjóðavísu og haldið áfram ofbeldisaðferðum þá verði aldrei um neina sátt að ræða í framtíðinni. Enginn getur framar treyst þeim sem allt rýfur. Það eina sem getur bjargað og þar með sáttagrundvelli landsmanna í framtíðinni, svo sem norðan jökla, er að Norðlingaölduveitu verði hafnað í yfirvofandi úrskurði ráðherra.

Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur talaði á sínum tíma um unaðsstundir í stað kílóvattstunda. Ég vil gera þau orð að mínum. Slík er mín framtíðarsýn.

birt hér 24.11.2002

Þjórsárverin þín -Guðmundur Páll Ólafsson

Snemma vors þegar jörð er enn grámuð af sinu og hvíttuð af snjó mæta tugþúsundir heiðagæsa í þögul Þjórsárver, treysta hjúskap sinn og leita að varpsetri. Fram á haust iða verin af lífi og fullyrða má að tilvera og framtíð heiðagæsar, sem tegundar, sé undir hálendi Íslands og þá einkum Þjórsárverum komin. Þarna er langstærsta heiðagæsavarp á jörðinni. Þetta er árlegur viðburður í hringrás sem hefur fengið að þróast eftir eigin lögmálum í þúsundir ára.

Þjórsárver eru helg vé á hálendi Íslands. Þau eru ríkidæmi sem lifað hefur með þjóðinni í veruleika og þjóðsögum frá öndverðu; þau eru söguslóðir og varðveita ævintýri, stórbrotna fegurð, kyrrð og þróttmikið lífríki – í senn allar dásemdir og djöfulsskap villtrar náttúru.

Þjórsárver eru landslagsheild í grunnri kvos eða um 140 ferkm. flæmi á milli hásléttu Sprengisands og Hofsjökuls. Þarna er votlendi veranna og lífæðar þeirra eru Þjórsá og vatnakvíslar hennar sem halda uppi hárri vatnsstöðu í flám og flóum, undir jökulöldum og melum. Vatnsstaðan er grundvöllur þessa einstæða, volduga lífríkis.

Engan verkfræðing þarf til að átta sig á að flatlendið gerir verin afar óhentug til stíflugerðar og til að safna vatnsforða fyrir virkjanir. Sennilega er leitun að sléttara stíflulandi á hálendi Íslands. Þess vegna snýst stíflugerðin – um þjófnað – að ræna vatni veranna – taka lífæð þeirra úr sambandi.
Fjöregg heimsinser varðveitt í villtri náttúrunni. Samt skilja menn ekki samhengið til hlýtar – sjálft hlutverk vistkerfa – þótt þeim sé ljóst að þar leynist skilningstréð. Um allan heim eru búsvæði og vistkerfi eyðilögð og það ásamt mengun hefur hrundið af stað mesta fjöldadauða tegunda í 60 milljón ár – þá er risaeðlur dóu út. Alvarlegust er eyðilegging regnskóga Amason drifin áfram af græðgi og hamagangi mannsins, ímynduðum framförum rétt eins og hér. Vegna alls þessa er óvíst hvort manninum auðnast að skilja hlutverk vistkerfa – áður en það er um seinan.

Sennilega voru Þjórsárver umvafin víðáttumiklum gróðurlendum forðum daga. Líta má á þau nú sem eyju eða vin í eyðimerkurhafinu – og slíkar “eyjar” eru viðkvæmar. Samt sem áður eru Þjórsárver gróðurfarslegt stórveldi í 600 metra hæð yfir sjávarmáli. Þau eru Amason-svæði Íslands – regnskógarnir okkar – þar sem fjölbreytni í gróðurfari og dýralífi er einstakt. Af þessum sökum eru Þjórsárver viskubrunnur framtíðar sem getur veitt innsýn í stóra samhengið.

Fyrr á öldum voru Þjórsárver í þjóðbraut. Um þau lá Arnarfellsvegur en við Bólstað í Tjarnaveri er ævafornt vað yfir Þjórsá á Sprengisands- eða Biskupavegi og lengi vel fór glaðvært sveitafólk á grasafjall “upp undir Arnarfelli”. Þangað sóttu líka útilegumenn en öldum saman hafa verin verið afréttur og nytjaland friðsælla bænda – og öðrum fremur hafa þeir haldið hlífiskyldi yfir verunum til þessa.

Ennþá eru Þjórsárver lokaður heimur. Gildi þeirra til fræði-iðkana og kennslu er ótvírætt en samt sem áður verða Þjórsárver ávallt mikilvægust vegna lífríkis og fjölbreytileika villtu náttúrunnar. Þess vegna eru Þjórsárver komin á svokallaða Ramsarskrá yfir mikilvægustu votlendi heimsins. Þetta gerðist loks árið 1990. Nú er sú staða í hættu.

Mörgum árum fyrr hafði Landsvirkjun stillt Náttúruverndarráði – þá ígildi umhverfisráðuneytis – upp við vegg með hótunum um að virkja bæði Dettifoss og Gullfoss léti ráðið ekki undan kröfu Landsvirkjunar um stíflu, jafnvel tvær stíflur í Þjórsárverum. Þrautalendingin var Kvíslaveita en með henni var friðland tryggt í Þjórsárverum. Þarna stóðu Gnúpverjar dyggan vörð sem endranær. Grið voru sett árið 1981 og Þjórsárver urðu friðland. Íslendingar höfðu loks ákveðið að vernda Þjórsárver til eilífðar. Engin stífla var framar heimil – myndi hún skerða verndargildi Þjórsárvera. Náttúruverndarráð, nú Náttúruvernd ríkisins, stóð vörðinn með ráðgjöf Þjórsárveranefndar að leiðarljósi.

Allir töldu stíflu í Þjórsárverum úr sögunni – nema Landsvirkjun. Og nú hefur hún með fulltingi iðnaðar-umhverfisráðuneytis gengið á griðin.

Á Amason-svæðinu fara barbarar um skóga með eldi og jarðýtum og naga rætur skilningstrésins. Á Íslandi umturna þeir vistkerfum og fegurð lands með dínamíti og jarðýtum í skjóli valdhafa og Alþingis.
Uppistöðulón neðst í Þjórsárverum er ávísun á eyðileggingu þeirra í heild sinni. Hún manngerir öll Þjórsárver og þurrkar upp fossa-djásnin miklu í Þjórsá. Stífla ofan veranna, eins og Skipulagsstofnun hefur boðið upp á myndi hraða eyðileggingunni – en lengja lífdaga virkjunarinnar. Einu sinni undirrituðu Íslendingar alþjóðlegan sáttmála um að náttúran fengi að njóta vafans. Nú eiga uppistöðulón – þessar manngerðu kransæðastíflur í náttúrunni – að njóta vafans. Til hvers er umhverfisráðuneyti?
Viðhorf valdhafa gagnvart þjóð endurspeglast í meðferð þeirra á náttúrunni – en líka á gömlu fólki og öryrkjum. Íslensk náttúra á engan málsvara í ríkisstjórn og friðlýsingar hafa ekkert gildi lengur. Öll grið hafa verið rofin.

Úrslitaorrustan um náttúruauðæfi Íslands er í algleymingi. Ógn eyðileggingar og valds svífur yfir undrum Þjórsárvera, Héraðsöræfa og hjörtum okkar. Baráttan snýst um frelsið og öræfin, lífsgleði okkar og manndáð. Hún varðar þrótt auðlinda og framtíð þjóðar. Töpum við – verður fátt til varnar vorum sóma.

Heitum því að það skal aldrei henda. Munum; Við höfum alla burði til að SIGRA.
Lifið heil!

Hafa skal það sem sannara reynist -Sigþrúður Jónsdóttir

Í GREIN á miðopnu Morgunblaðsins 11. september 2002 rekur Jóhann Már Maríusson, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, sögu og stöðu virkjanaframkvæmda í Þjórsárverum og verður tíðrætt um misskilning og vanþekkingu á málinu. Við sem beitum okkur fyrir verndun Þjórsárvera höfum mörg hver fylgst með gangi mála í áratugi og búið í návígi við Þjórsárver og mennina sem um málið hafa fjallað.

Það er fjarstæða að fulltrúar Gnúpverja í Þjórsárveranefnd hafi nokkurn tíma talið að lón í 575 my.s. gæti verið viðunandi né fallist á slíkt, eins og Jóhann Már gefur í skyn. Þeir hafa hins vegar skoðað alla kosti faglega þótt það hafi ekki leitt til samkomulags. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að núverandi virkjanahugmyndir ganga ekki eins langt og fyrstu áætlanir, sem hefðu sett nær öll Þjórsárver undir vatn. Lónið mun samt kaffæra neðsta hluta veranna og auk þess stefna í hættu stóru svæði vegna rofs, áfoks, bakvatnsáhrifa og beinna og óbeinna áhrifa af hraðri aursöfnun efst í lóninu og ofan þess.

Hjá hverjum liggur misskilningurinn?

Með fyrrnefndri grein fylgdi kort af Þjórsárverum þar sem búið var að færa inn lón að 575 m og setlón austur af Arnarfelli mikla. Það sýndi hins vegar aðeins hluta af mannvirkjum Norðlingaölduveitu og gefur villandi mynd af umhverfisáhrifum hennar. Á kortið vantaði m.a. varnargarða sem skv. upplýsingum Landsvirkjunar þarf að reisa eftir nokkra áratugi og verða þeir 2-3 m háir og munu liggja upp með Þjórsá báðum megin og að austan ná alveg upp að Biskupsþúfu, um 11 km inn í friðlandið. Það verður líka að gera athugasemd við hvernig mannvirkjasvæðið umhverfis setlónið nyrst í Þjórsárverum var sýnt á kortinu en þar vantaði haugstæði sem verða fyrirferðarmikil í landslaginu þegar tímar líða. Á kortið sem hér fylgir með, er búið að bæta inn helstu mannvirkjum sem vantaði og það gefur réttari mynd af lágmarksáhrifasvæði veitunnar. Á því má einnig sjá hvernig framkvæmdin kemur til með að skerða ósnert víðerni Þjórsárvera. Mörk mannvirkjasvæðisins eru dregin skv. þeirri skilgreiningu sem miðað er við í íslenskum lögum, þ.e. við 5 km radíus út frá mannvirkjum. Á bæði kortin vantar vegi sem þó hljóta að vera nauðsynlegir. Ljóst er að áhrifasvæði Norðlingaölduveitu með mótvægisaðgerðum mun ná allt frá Sultartangalóni að Þjórsárjökli en ekki takmarkast við lítinn hluta friðlandsins eins og Landsvirkjun heldur fram.


Hvað segja rannsóknir?

Það er rétt að umfangsmiklar rannsóknir hafa verið gerðar á náttúrufari í Þjórsárverum áratugum saman. Með því að segja að þær hafi leitt í ljós að Noðlingaölduveita valdi ekki óhæfilegum umhverfisáhrifum er verið að útiloka staðreyndir. Niðurstöður náttúruvísindamanna ber allar að sama brunni, Norðlingaölduveita mun valda óhæfilegum umhverfisáhrifum og undir það er hvað eftir annað tekið í úrskurði Skipulagsstofnunar. Þannig er það mat Skipulagsstofnunar að lóninu muni fylgja veruleg og óafturkræf skerðing á gróðri, freðmýrarústum, jarðvegi, vatnafari, smádýralífi og veruleg staðbundin og óafturkræf áhrif á heiðagæs og aðra fugla. Skipulagsstofnun telur einnig að framkvæmdinni fylgi veruleg og óafturkræf breyting á landslagi. Í ljósi þessa verður niðurstaða Skipulagsstofnunar afar torskilin. Það er því misskilningur hjá aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar að með Norðlingaölduveitu geti farið saman “mikill efnahagslegur ávinningur og að fullt tillit er tekið til verndunar hinnar sérstöku náttúruperlu sem nefnist Þjórsárver”.

Þegar unnið var að friðlýsingu Þjórsárvera árið 1981 var þegar kominn þrýstingur frá Landsvirkjun um að nýta svæðið til virkjana. Var þar bæði um að ræða svonefnda Kvíslaveitu og miðlunarlón neðst í Verunum. Landsvirkjun kom því að friðlýsingarvinnunni sem hagsmunaaðili og hafði sín áhrif eins og skýrt kemur fram í grein Jóhanns Más. Það er augljóst að þegar friðlandsmörkin voru ákvörðuð voru náttúruverndarsjónarmið ekki látin ráða ferðinni og urðu þau því fullknöpp og fara ekki eftir náttúrufarslegum línum. Tímabært er að laga þau að raunverulegum mörkum Þjórsárvera.

Margir hafa á undanförnum misserum reynt að draga mörk Veranna jafnvel enn þrengra en gert er í friðlýsingarskilmálunum í þeim tilgangi einum að sýna fram á meinleysi Norðlingaölduveitu. Láta þeir hinir sömu sig engu skipta að rannsóknir sem gerðar voru á svæðinu sunnan friðlandsins sumarið 2001 sýndu að þar er engu síður fjölbreytt og verðmætt náttúrufar en innan núverandi friðlands.

Það er því bein niðurstaða rannsóknanna að huga beri að stækkun friðlandsins í stað þess að skerða það með lóni og öllu því raski sem af þeirri framkvæmd hlýst.

Í huga heimamanna er nafngiftin Þjórsárver ekki bundin sérstökum verum, sú nafngift er komin frá þeim sem stunduðu rannsóknir á fuglalífi svæðisins upp úr 1950. Heimamönnum er tamara að tala um ,,fyrir innan Sand”. Fjallmenn fara inn yfir Sand og koma til byggða með glampa í augum og endurnærðir eftir kynni af seiðmagni þessa lands með öllum þess andstæðum þar sem ,,störin nemur nærri við / nakta jökulfætur”.

Þjórsárver eru gróðurvin, umlukin auðnum sem vekja spurningar um tilvist og varðveislu þessarar perlu, sem skipar stóran sess í huga Gnúpverja og margra annarra innanlands og utan, óháð línum misviturra manna sem hafa jafnvel dregið þær þvert um algróin ver.

Enn og aftur þarf að ítreka, að þótt í friðlýsingarskilmálunum sé undanþáguákvæði um að möguleiki sé á því að mynda uppistöðulón með stíflu við Norðlingaöldu þá fylgir því skilyrði að það sé framkvæmanlegt án þess að náttúruverndargildi Þjórsárvera rýrni óhæfilega að mati Náttúruverndarráðs. Það var sérstaklega tekið fram hver skyldi meta þau áhrif. Náttúruvernd ríkisins tók við hlutverki Náttúruverndarráðs og sérfræðingar þess hafa komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin rýri náttúrverndargildi Þjórsárvera óhæfilega.

Skilyrðið hefur ekki verið uppfyllt. Það er því verið að reyna að brjóta þennan samning.

birt 9.10.2002. Höfundur er Sigþrúður Jónsdóttir, náttúrufræðingur

Orkunýting og náttúruvernd -Guðmundur Páll Ólafsson

Náttúruauðlindir eru fjöregg hverrar þjóðar og nýting þeirra lýsir menningu hennar og þroska. Íslendingar hafa lengst af stundað hráefnisvinnslu, frumvinnslu, sem einkennir nýlendur og ber vott um veikleika í menntun og menningu.

Orka er hluti þessara náttúruauðlinda. Hún er mjólk úr einum spena kostakýrinnar Auðhumlu en ekki kýrin sjálf. Ennþá gjöfulli og safaríkari auðæfi streyma úr öðrum spenum hennar. Því verður að spyrja: Til hvers á að virkja? Fer orkan til frumvinnslu eða bara í jörðina eins og rafmagn Blönduvirkjunar forðum? Eyðileggur orkuvinnslan aðrar auðlindir, ef til vill dýrmætari og endingarbetri?

Í Íslandsklukku Halldórs Laxness er sagt að sú hafi verið tíð að Íslendingar áttu aðeins eina sameign sem metin var til fjár. Það var klukka – koparklukka sem konungurinn í Kaupmannahöfn girntist og vildi bræða. Í upphafi 21. aldar eru Íslendingar loks að skilja hvað þeir eiga margvíslegar auðlindir – margar Íslandsklukkur.

Á meðan við erum að enn að skynja hverjum klukkurnar glymja í töfralandinu og hvernig við getum lært að semja stef okkar og lífsstíl að hljómfalli þeirra hafa þau tíðindi hins vegar gerst á kontórum að íslenskum ráðherrum hefur vitrast hjól iðnvæðingar. Þeir vasast í stóriðjum og risa-vatnsaflsvirkjunum og stefna á iðnbyltingu þar sem Ísland á að taka að sér aðalhlutverk sem álbræðslu-nýlenda heimsins.

Enginn vafi er á því að orkulindir okkar nægja þjóðinni til eilífðarnóns, en þó aðeins ef við vöndum hvert skref og byrjum núna. Við verðum þá að gera okkur ljóst að orkuhít málmbræðslu verður aldrei fullnægt, en málmbræðsla á kannski ekki langa framtíð fyrir sér einmitt vegna orkusóunar.

Ísland býður upp á fjölmarga kosti grænnar orku. Í grænni orku felst þroskað viðhorf til lands og þjóðar þar sem fyrsta og síðasta boðorð er að trufla ekki gangráð náttúrunnar. Þar gegna þjóðgarðar veigamiklu hlutverki í verndun, fræðslu og atvinnu-þróun. Hér vantar þennan þjóðarsáttmála – vegna þess að illa grundaðar framkvæmdir geta umbreytt eðli orkunnar í svarta eyðileggingu.
Lífsnauðsyn er að vanda til verka eins og Eysteinn Jónsson fyrrum ráðherra krafði þingheim um stax árið 1971 og þá þurfa leikreglur náttúruverndar og lýðræðis að standa traustum fótum – í kerfinu og í opnu og frjálsu samfélagi.

En hér bregðast öll krosstré.

Lögvarðar leikreglur sem eitt sinn héldu hlífi-skildi yfir náttúrugersemum, svo sem friðlýsingar, sértækar verndanir og alþjóðlegir sáttmálar, eru vart pappírsins virði lengur. Stofnanir sem stóðu vörðinn hafa ýmist verið lagðar af eða lamaðar svo að þær rækta ekki lögboðin hlutverk. Engar bremsur í kerfinu virka og matsferlið sem átti að koma í veg fyrir óafturkræf náttúruspjöll getur ekki einu sinni bjargað dýrmætustu gróðurvinjum og heimsfrægu votlendi á hálendi Íslands, Þjórsárverum, sem friðuð eru í bak og fyrir.

Orkuöflun er versti höfuðverkur landsmanna. Ofuráhersla er lögð á, svarta orku vatnsaflsvirkjana, sem er eins konar námugröftur með aurstíflum á svæðum sem eru auðlindir út af fyrir sig. Dýrmætu vatnafari er gjörbreytt. Þetta eru fornaldarleg vinnubrögð og afar ófrumleg. Orkufrek málmbræðsla þarf á svona virkjunum að halda – en ekki við. Á ofan er orka til stóriðju niðurgreidd og arðsemi hennar fer úr landi. Þessi áform og virkjanaframkvæmdir taka auk þess til sín stórfé frá öðrum arðbærari verkefnum þjóðarinnar.

Virkjanir á Íslandi eiga að framleiða græna orku, vera endurnýjanlegar, arðbærar og auka lífsgæði. Kárahnjúkavirkjun er glórulaus frá öllum þessum sjónarmiðum. Með því einu að bera saman byggingarkostnað og hæsta hugsanlega orkuverð er deginum ljósara að framkvæmdin er fallít frá fyrsta degi.
Á þjóðgarði getur enginn tapað.

Kárahnjúkavirkjun og Norðlingaölduveita í Þjórsárverum eru prófsteinar á þolrif þjóðar og sárgrætileg dæmi um svarta orku sem dugar aðeins í örfáa mannsaldra. Þær taka lífæðar náttúrunnar úr sambandi og naga rætur menningar og framfara. Þær hafa strax stórspillt sambúð fólks í landinu og munu reynast grafalvarleg slys.

Segja má að hagkvæmni virkjana sé fljótandi hugtak. Tvennt höfum við þó fast undir fótum. Villt náttúra, heilbrigð vistkerfi, fegurð og náttúrutöfrar verða æ dýrmætar auðlindir á meðan risavirkjanir verða sífellt óvinsælli og æ fleirum þykja þær algjörlega óásættanleg náttúruspjöll. Auðæfi Íslands eru mikil en lang mest í sérstæðri, villtri náttúru. Þau eru margfalt arðbærari, eftirsóttari fyrir þekkingarsamfélag framtíðar og mikilvægari fyrir umheiminn en sú orka sem Ísland býður upp á um stundir.

Þessum fjöreggjum megum við ekki spilla heldur að annast þau af kostkæfni – eins og börnin okkar – fyrir börnin – þeirra.

birt 19.9.2002. Höfundurinn er náttúrfræðingur og rithöfundur