Áskorun Náttúrverndarsamtakanna til ráðherra 2

Áhugahópurinn um verndun Þjórsárvera vill hvetja þig til að taka undir áskorun Náttúrverndarsamtaka Íslands um að umhverfisráðherra beiti sér fyrir stækkun friðlandsins í Þjórsárverum og að stækkunin yrði eitt að forgangsverkefnum þeirrar Náttúrverndaráætlunar sem ráðherra mun leggja fyrir Umhverfisþing 14. og 15. október nk. og Alþingi síðar í haust.

Áhugahópurinn vill einnig hvetja þig til að hvertja aðra til að taka undir þessa áskorun almennings í landinu.

birt 12.10.2003

Sjá á heimasíðu Náttúruverndarsamtakanna.

Áhugahópurinn skorar á umhverfisráðherra -2002

Vegna umfjöllunar síðustu daga um fyrirhugaða Norðlingaölduveitu vekur áhugahópur um verndun Þjórsárvera athygli á eftirfarandi fullyrðingu Landsvirkjunar: “Fyrirhuguð framkvæmd er því í samræmi við forsendur sem lágu að baki samkomulagi um friðlýsingu Þjórsárvera.” (sbr matsskýrslu um fyrirhugaðar framkvæmdir vegna Norðlingaölduveitu, bls. 168.)

Hið sannari er að þegar Þjórsárver voru friðlýst voru sett þau skilyrði fyrir framkvæmdum að : ” …enda sýni rannsóknir að slík lónsmyndun sé framkvæmanleg án þess að náttúruverndargildi Þjórsárvera rýrni óhæfilega að mati Náttúrverndarráðs (Náttúruverndar ríkisins). “

Áhugahópurinn um verndun Þjórsárvera vill benda á að Náttúruvernd ríkisins hefur komist að þeirri niðurstöðu og hafnar “…Norðlingaölduveitu við 575 m. y. s. eða öðrum lónshæðum eins og þeim er lýst í matsskýrslu Landsvirkjunnar. Náttúrvernd ríkisins telur að umtalsverð umhverfisáhrif verði vegna Norðlingaölduveitu og að náttúruverndargildi Þjórsárvera muni rýrna óhæfilega.” (Umsögn Náttúrverndar ríkisins um mat á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu sunnan Hofsjökuls í Þjórsárverum, bls. 1)

Áhugahópurinn skorar á umhverfisráðherra að árétta skilyrði friðlýsingarinnar og niðurstöðu Náttúruverndar ríkisins og verjafriðlandið í Þjórsárverum í samræmi við fyrri yfirlýsingar umhverfisráðherra og landbúnaðarráðherra.

fh. áhugahóps um verndun Þjórsárvera
Axel Árnason

birt 9.11.2002

Almennur fundur haldinn í Austurbæjarbíói -2002

Almennur fundur haldinn í Austurbæjarbíói 4. nóvember 2002 lýsir yfir eindreginni andstoðu við fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir með gerð uppistöðulóns í Þjórsárverum og mótmælir harðlega þeim vinnubrögðum sem beitt hefur verið til að fá samþykki fyrir þeim.

Með framkvæmdunum yrði spillt einstakri gróðurvin á hálendi Íslands sem á sér árþúsunda sögu þróttmikils lífríkis. Um leið yrði fórnað verðmætum sem hvorki við né næstu kynslóðir getum nokkurn tímann endurheimt. Verndargildi svæðisins er ótvírætt og því til staðfestingar hafa Íslendingar friðlýst hluta þess og jafnframt gengist undir alþjóðlegar skuldbindingar um að vernda það fyrir ágangi sem leitt getur til skemmda. Engir brýnir almannahagsmunir eru nú fyrir hendi sem réttlætt geta svik við þau fyrirheit.

Náttúruvernd ríkisins hefur skýrlega mælt gegn fyrirætlunum um virkjunarframkvæmdir í Þjósárverum og andstaða heimamanna er fyrir löngu ljós. Þá er í skýrslu Skipulagsstofnunar ítrekað bent á hið margfalda tjón sem hlýst af framkvæmdunum. Lokaniðurstaða stofnunarinnar stangast hins vegar á við málatilbúnaðinn að öðru leyti og vekur það spurningar um afgreiðslu málsins.

Almenn andstaða er í landinu við þær ráðagerðir sem nú eru uppi, og sjónarmið náttúruverndar fá síaukinn stuðning. Ráðamenn verða að hlusta á ákall tímans og taka tillit til nútímaviðhorfa.

Fundarmenn kalla á forystumenn þjóðarinnar til að standa vörð um verðmætin sem við eigum í einstæðri náttúru á hálendi Íslands. Þjórsárver eru náttúrugersemi sem öll þjóðin ber ábyrgð á og þeim má aldrei tortíma fyrir von um skjótfenginn gróða. Næstu kynslóðir eiga sinn rétt til auðæfanna sem ofar standa hagsmunum líðandi stundar og þann rétt verður að virða.

birt 5.11.2002

Áhugahópur um verndun Þjórsárvera skorar á stjórnvöld -2007

Áhugahópur um verndun Þjórsárvera skorar á stjórnvöld að stækka friðlandið í Þjórsárverum þannig að allar hugmyndir um Norðlingaöldulón verði úr sögunni. Þannig getur umhverfisráðherra útkljáð margra áratuga deilumál og stigið stórt skref í þágu náttúruverndar á Íslandi. Mjög brýnt er að þessi ákvörðun verði tekin nú þegar.

Fram hefur komið að umhverfisráðherra hefur lýst góðum vilja sínum en hefur greinilega ekki fengið þann stuðning í ríkisstjórn sem til þarf. Munar þar mestu um að iðnaðarráðherra, forsætisráðherra og fjármálaráðherra, handhafi hlutabréfa ríkisins í Landsvirkjun, hafa ekki lýst yfir stuðningi sínum við afstöðu umhverfisráðherra.

Áhugahópurinn leggur áherslu á að sveitarstjórnarmenn í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Ásahreppi og Rangárþingi ytra hafa ekki umboð til að koma í veg fyrir friðlýsingu. Þvert á móti hefur meirihluti hreppsnefndar Gnúpverja og síðar Skeiða- og Gnúpverjahrepps hafnað Norðlingaölduveitu á undanförnum árum. Því eru það mikil vonbrigði að fulltrúi hreppsins í umræddri nefnd hafi tekið svo einarða afstöðu gegn allri þeirri þróun í áraraðir og vandséð hvernig sú afstaða fáist rökstudd.

Áhugahópurinn skorar á ríkisstjórn Íslands og einkum ofangreinda ráðherra, að lýsa afdráttarlausum vilja sínum til að stækka friðlandið þannig að friður náist um framtíð Þjórsárvera.

30. apríl 2007
fyrir hönd Áhugahóps um verndun Þjórsárvera
Halla Guðmundsdóttir

 

 

Áskorun fundar á stjórnvöld -Norræna húsinu 7. janúar 2006

Þjórsárver eru þjóðargersemi – þeim má ekki spilla

Fundur til stuðnings verndunar Þjórsárvera, haldinn í Norræna húsinu 7. janúar 2006, skorar á stjórnvöld að stöðva áform Landsvirkjunar um frekari virkjunarframkvæmdir í Þjórsárverum. Þess í stað verði friðlandið stækkað í samræmi við tillögur Umhverfisstofnunar frá 2003.

Umhverfisráðherra hefur með úrskurði sínum 29. desember 2005 sett skipulag Þjórsárvera aftur á byrjunarreit og jafnframt opnað fyrir þann möguleika að allar hugmyndir um virkjanir á svæðinu verði teknar út úr skipulagi. Samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins hefur rík málefnaleg rök fyrir því að hafna alfarið Norðlingaölduveitu við skipulag Þjórsárvera og þess í stað að vinna að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Fundurinn telur að umhverfisráðherra sé skylt að styðja slíka ákvörðun.

Þjórsárver eru óumdeilanlega eitt verðmætasta svæðið á hálendi Íslands. Fundurinn telur það að eitt brýnasta verkefnið í náttúruvernd á Íslandi að stækka verndarsvæðið þannig að það falli að náttúrulegum mörkum veranna.

Þjórsárver eru miklu víðfeðmari en núverandi friðland. Þar er að finna eitt víðáttumesta og fjölbreyttasta gróðursvæði á hálendinu sem hýsir mesta heiðagæsavarp í heimi. Þýðing þessarar gróðurvinjar fyrir náttúruauðlegð Íslands og alls heimsins er ótvíræð enda er hún á lista Ramsarsáttmálans um votlendi er hafa alþjóðlegt mikilvægi, einkum fyrir vatnafugla. Landslagsheild Þjórsárvera er ægifögur með jökul sem bakgrunn, fjölbreytt gróðurlendi, tjarnir og vötn, mikið fugla- og smádýralíf, jökulár svo ekki sé minnst á víðerni. Virtir erlendir sérfræðingar telja vel mögulegt að Þjórsárver verði sett á Heimsminjaskrá UNESCO fari stjórnvöld þess á leit.

Minnt er á að andstaða heimamanna gegn virkjunarframkvæmdum er mjög sterk og á sér langa sögu. Ennfremur er mikill stuðningur meðal almennings um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Ráðamenn verða að hlusta á kall nýrra tíma og taka tillit til viðhorfa sem fela í sér mat á gildi óspilltrar náttúru.

Það er löngu tímabært að ríkisstjórn Íslands og Alþingi taki af skarið og lýsi yfir að ekki verði af frekari virkjunaframkvæmdum í eða við Þjórsárver, og að friðlandið verði stækkað til samræmis við náttúruleg mörk veranna.

birt 7.1.2006

Ályktun almenns sveitarfundar Gnúpverja haldinn í Árnesi 24. maí 2001

Ályktun almenns sveitarfundar Gnúpverja haldinn í Árnesi 24. maí 2001

Almennur fundur haldinn í Árnesi 24. maí 2001, lýsir eindreginni andstöðu við Norðlingaölduveitu og aðrar fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir í Þjórsárverum og efri hluta Þjórsár.

Þjórsárver og efri hluta Þjórsár ber að vernda sem einstætt vistkerfi og landslagsheild og minnt skal á að framkvæmdir á þessu svæði verða ekki aftur teknar.

Fundurinn bendir á margþættar rannsóknir færustu vísindamanna sem sanna sérstöðu svæðisins í íslenskri náttúru, þar sem þeir vara við allri röskun af manna völdum, enda er svæðið þekkt víða um heim og stór hluti þess friðlýst.

Fundurinn vekur athygli á því að nú þegar er hefur orðið veruleg röskun á vatnafari Þjórsár með 1.-5. áfanga Kvíslaveitu.

Fundurinn minnir á ályktun fundar í Árnesi 17. mars 1972 og ítrekar fyrri mótmæli þar.

Samþykkt samhljóða

Greinargerð með ályktun um verndun Þjórsárvera

Þjórsárver eru langstærsta, fjölbreyttasta og gróskumesta gróðurvin hálendisins, auðug af fugla- og dýralífi.

Sýnt hefur verið fram á að Þjórsárver eru einstætt vistkerfi á heimsvísu og eitt helsta varpland heiðagæsar í heiminum. Þjórsárver eru friðlýst svæði og þau eru alþjóðlegt verndarsvæði samkvæmt Ramsarsáttmálanum um verndun votlendis.

Lón í Þjórsárverum orsakar öldurof og strandmyndun í vel grónu landi við Þjórsá og í kjölfarið hæfist uppblástur sem mjög erfitt yrði að stöðva og hefði víðtæk áhrif á gróður á stóru svæði.

Líta ber á Þjórsárverasvæðið sem eina heild utan sem innan markaðs friðlands vegna hins einstæða náttúrufars. Aðgerðir utan friðlands hafa keðjuverkandi áhrif innan friðlandsins.

Vatnsmagn Þjórsár hefur stórminnkað með 1.-5. áfanga Kvíslaveitu og frekari miðlun spillir hinum einstæðu fossum, Kjálkaversfossi, Dynk og Gljúfurleitarfossi.

Norðlingaölduveita stangast á við áform um sérstakt náttúruverndarsvæði með Þjórsá, sem gert er ráð fyrir í Svæðisskipulagi Miðhálendis og rýrir mikilvægi svæðisins sem útivistar- og ferðamannasvæði.

Í friðlýsingarskilmálum Þjórsárvera frá 1987 er heimild veitt til að gera uppistöðulón með stíflu við Norðlingaöldu í allt að 581 metra hæð yfir sjávarmáli, enda sýni rannsóknir að slík lónsmyndun sé framkvæmanleg án þess að náttúruverndargildi Þjórsárvera rýrni óhæfilega að mati Náttúruverndarráðs (nú Náttúruvernd ríkisins). Með áföngum Kvíslaveitu 1.-5. sem samið var um í sömu skilmálum er hinum ásættanlegu mörkum náð enda ber skilyrðislaust að líta á umrætt svæði sem eina heild. Allar frekari framkvæmdir hafa í för með sér svo mikla röskun að óverjandi er.