Meirihluti fulltrúa í hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps hafna Norðlingaölduveitu -2005

Á 52.fundi hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps þriðjudeginum 3. maí 2005 lagði oddviti fram eftirfarandi tillögu: ,,Hreppsnefnd samþykkir að fresta endanlegri afgreiðslu Aðalskipulags þar til Samvinnunefnd miðhálendis hefur afgreitt breytingu í Svæðisskipulagi miðhálendis. Hreppsnefnd fer fram á við Skipulagsstofnun að lagabundnir frestir verði framlengdir sem því nemur.”

Tillagan samþykkt samhljóða.

Oddviti lagði eftirfarandi bókun fyrir hönd meirihluta hreppsnefndar fskj 1.

Undirritaðir fulltrúar í hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps hafna Norðlingaölduveitu.

Víðtæk umfjöllun hefur farið fram um tillögu að Aðalskipulagi fyrir Skeiða- og Gnúpverjahrepp. Allan tímann hafa verið miklar efasemdir meðal meirihluta hreppsnefndarmanna, íbúa og annara landsmanna um ágæti þess að samþykkja gerð Norðlingaölduveitu á Gnúpverjaafrétti. Við lokaafgreiðslu aðalskipulagstillögunnar hvílir mikil ábyrgð á herðum hreppsnefndarmanna ekki síst hvað varðar Norðlingaölduveitu sem er stórtækt inngrip í annars ósnortið landsvæði innan marka hreppsins.

Ekki hefur tekist að sýna framá að íbúar Skeiða- og Gnúpverjahrepps hafi neina hagsmuni af framkvæmd Norðlingaölduveitu hvað varðar atvinnuuppbyggingu til lengri eða skemmri tíma. Þvert á móti álíta undirritaðir hreppsnefndarmenn að bygging Norðlingaölduveitu skaði hagsmuni ferðaþjónustunnar sem er eina vaxandi atvinnugreinin í hreppnum. Með því að samþykkja Norðlingaölduveitu í Aðalskipulagi væri hreppsnefnd að ganga þvert á fyrsta markmið skipulagslaga sem segir: ,,að þróun byggðar og landnotkunar á landinu öllu verði í samræmi við skipulagsáætlanir sem
hafi efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi að leiðarljósi.”

Ekki hefur verið sýnt framá þjóðhagslega nauðsyn þess að Norðlingaölduveita verði að veruleika. Raforkuframleiðsla á Íslandi er nú á fleiri höndum en áður eins og sannast á því að aðilar aðrir en Landsvirkjun hafa svarað eftirspurn og gert samninga um raforku til stóriðju. Skeiða- og Gnúpverjahreppur hefur innan sinna marka tvær virkjanir. Því til viðbótar liggur fyrir að samþykktar verða tvær virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Þar með telja undirritaðir fulltrúar í hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps að stuðningur við raforkuframleiðslu í landinu hafi verið með fullum sóma frá hendi Skeiða- og Gnúpverjahrepps þó að nú verði látið staðar numið.

Aðalsteinn Guðmundsson
Matthildur E. Vilhjálmsdóttir
Hrafnhildur Ágústsdóttir
Tryggvi Steinarsson

Þrándur Invarsson lagði fram eftirfarndi bókun: Förum þess á leit að hreppsnefnd standi við samkomulag sem gert var við Landsvirkjun og samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á hreppsnefndarfundi 1. júní 2004. Svohljóðandi:” Erindi frá Landsvirkjun varðandi aðalskipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2003-2015 Norðlingaöldulón. Í erindinu fer Landsvirkjun framá að yfirfallshæð stíflu við Norðlingaöldulón verði 567.8 m y.s. Að vetrarlagi yrði lónið rekið í um 567,5 m y.s. til þess að komast hjá alvarlegum vandamálum vegna ísmyndunar. Oddviti lagði til að hreppsnefnd samþykkti að gera ráð fyrir þeirri tilhögun í aðalskipulagi. Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða”.

Þrándur Ingvarsson
Gunnar Örn Marteinsson
Ólafur Fr. Leifsson.

birt 4.5.2005

Félagar í Áhugahópi um verndun Þjórsárvera lýsa yfir ánægju með þá ákvörðun Landsvirkjunar að fresta áformum -2003

Félagar í Áhugahópi um verndun Þjórsárvera lýsa yfir ánægju með þá ákvörðun Landsvirkjunar að fresta áformum um Norðlingaöldveitu.

Náttúrufarsleg sérstaða og mikilvægi Þjórsárvera er óumdeilt en djúpstæður ágreiningur var um í hvaða mæli mannvirki myndu spilla þessum verðmætum. Með úrskurði Jóns Kristjánssonar setts umhverfisráðherra fyrr á þessu ári virtist komin fram sátt í málinu. Ástæða er til að undirstrika að sú útfærsla Landsvirkjunar sem sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hafnaði var ekki sú lausn sem kynnt var með úrskurði ráðherra. Í útfærslu Landsvirkjunnar var miðlunarlónið tvöfalt stærra að flatarmáli og þétt við mörk friðlandsins.

Því hefur ítrekað verið lýst yfir af hálfu Landsvirkjunar að virkjun í Þjórsárverum væri forsenda orkusölu til stækkunar álvers Norðuráls í Hvalfirði, – Norðlingaölduveita væri eini virkjunarkosturinn sem fullgera mætti innan þess skamma tíma sem til framkvæmda gafst, þ.e. svo hefja mætti orkusölu árið 2006. Nú hefur komið fram að það kunni að vera til aðrar og heppilegri leiðir til að mæta þessari orkuþörf. Því virðist óþarft að hrófla við Þjórsárverum. Svo dýrmætu svæði á ekki að raska nema ríkir þjóðarhagsmunir séu í húfi. Stærstu og verðmætustu gróðurvin landsins á að vernda óspillta sé þess nokkur kostur.

Í nýlegum drögum að náttúruverndaráætlun eru kynntar tillögur um að færa mörk friðlandsins til samræmis við náttúrleg mörk Þjórsárvera. Með ákvörðun Landsvirkjunar er rutt úr vegi síðustu hindrunum til þess að svo megi verða.

Nánari upplýsingar gefa Sigurður Steinþórsson, Hæli, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, sími 486-6033, 897 9833 og Sigþrúður Jónsdóttir, Tröð, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, sími 486-6057.

birt 5.9.2003

Almennur fundur haldinn í Austurbæjarbíói -2002

Almennur fundur haldinn í Austurbæjarbíói 4. nóvember 2002 lýsir yfir eindreginni andstoðu við fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir með gerð uppistöðulóns í Þjórsárverum og mótmælir harðlega þeim vinnubrögðum sem beitt hefur verið til að fá samþykki fyrir þeim.

Með framkvæmdunum yrði spillt einstakri gróðurvin á hálendi Íslands sem á sér árþúsunda sögu þróttmikils lífríkis. Um leið yrði fórnað verðmætum sem hvorki við né næstu kynslóðir getum nokkurn tímann endurheimt. Verndargildi svæðisins er ótvírætt og því til staðfestingar hafa Íslendingar friðlýst hluta þess og jafnframt gengist undir alþjóðlegar skuldbindingar um að vernda það fyrir ágangi sem leitt getur til skemmda. Engir brýnir almannahagsmunir eru nú fyrir hendi sem réttlætt geta svik við þau fyrirheit.

Náttúruvernd ríkisins hefur skýrlega mælt gegn fyrirætlunum um virkjunarframkvæmdir í Þjósárverum og andstaða heimamanna er fyrir löngu ljós. Þá er í skýrslu Skipulagsstofnunar ítrekað bent á hið margfalda tjón sem hlýst af framkvæmdunum. Lokaniðurstaða stofnunarinnar stangast hins vegar á við málatilbúnaðinn að öðru leyti og vekur það spurningar um afgreiðslu málsins.

Almenn andstaða er í landinu við þær ráðagerðir sem nú eru uppi, og sjónarmið náttúruverndar fá síaukinn stuðning. Ráðamenn verða að hlusta á ákall tímans og taka tillit til nútímaviðhorfa.

Fundarmenn kalla á forystumenn þjóðarinnar til að standa vörð um verðmætin sem við eigum í einstæðri náttúru á hálendi Íslands. Þjórsárver eru náttúrugersemi sem öll þjóðin ber ábyrgð á og þeim má aldrei tortíma fyrir von um skjótfenginn gróða. Næstu kynslóðir eiga sinn rétt til auðæfanna sem ofar standa hagsmunum líðandi stundar og þann rétt verður að virða.

birt 5.11.2002

Áskorun fundar á stjórnvöld -Norræna húsinu 7. janúar 2006

Þjórsárver eru þjóðargersemi – þeim má ekki spilla

Fundur til stuðnings verndunar Þjórsárvera, haldinn í Norræna húsinu 7. janúar 2006, skorar á stjórnvöld að stöðva áform Landsvirkjunar um frekari virkjunarframkvæmdir í Þjórsárverum. Þess í stað verði friðlandið stækkað í samræmi við tillögur Umhverfisstofnunar frá 2003.

Umhverfisráðherra hefur með úrskurði sínum 29. desember 2005 sett skipulag Þjórsárvera aftur á byrjunarreit og jafnframt opnað fyrir þann möguleika að allar hugmyndir um virkjanir á svæðinu verði teknar út úr skipulagi. Samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins hefur rík málefnaleg rök fyrir því að hafna alfarið Norðlingaölduveitu við skipulag Þjórsárvera og þess í stað að vinna að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Fundurinn telur að umhverfisráðherra sé skylt að styðja slíka ákvörðun.

Þjórsárver eru óumdeilanlega eitt verðmætasta svæðið á hálendi Íslands. Fundurinn telur það að eitt brýnasta verkefnið í náttúruvernd á Íslandi að stækka verndarsvæðið þannig að það falli að náttúrulegum mörkum veranna.

Þjórsárver eru miklu víðfeðmari en núverandi friðland. Þar er að finna eitt víðáttumesta og fjölbreyttasta gróðursvæði á hálendinu sem hýsir mesta heiðagæsavarp í heimi. Þýðing þessarar gróðurvinjar fyrir náttúruauðlegð Íslands og alls heimsins er ótvíræð enda er hún á lista Ramsarsáttmálans um votlendi er hafa alþjóðlegt mikilvægi, einkum fyrir vatnafugla. Landslagsheild Þjórsárvera er ægifögur með jökul sem bakgrunn, fjölbreytt gróðurlendi, tjarnir og vötn, mikið fugla- og smádýralíf, jökulár svo ekki sé minnst á víðerni. Virtir erlendir sérfræðingar telja vel mögulegt að Þjórsárver verði sett á Heimsminjaskrá UNESCO fari stjórnvöld þess á leit.

Minnt er á að andstaða heimamanna gegn virkjunarframkvæmdum er mjög sterk og á sér langa sögu. Ennfremur er mikill stuðningur meðal almennings um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Ráðamenn verða að hlusta á kall nýrra tíma og taka tillit til viðhorfa sem fela í sér mat á gildi óspilltrar náttúru.

Það er löngu tímabært að ríkisstjórn Íslands og Alþingi taki af skarið og lýsi yfir að ekki verði af frekari virkjunaframkvæmdum í eða við Þjórsárver, og að friðlandið verði stækkað til samræmis við náttúruleg mörk veranna.

birt 7.1.2006