Gönguferð um Þjórsárver 2018

Undir ArnarfelliVið stefnum á að fara í 5 daga göngu um Þjórsárver á tímabilinu 14.-20. júlí 2018.
Nákvæmlega hvaða daga verður farið ræðst af veðri.

Ferðaáætlun:
1.-2.  dagur. Ekið inn Kvíslaveituveg austan Þjórsár yfir innstu stíflu Þjórsárlóns. Ef hægt er að vaða Þjórsár verður það gert en að öðrum kosti verður að ganga upp á Þjórsárjökul og þaðan í Arnarfell. Það er talsvert lengri ganga.
Tjaldað undir Arnarfelli hinu mikla til tveggja nátta. Á meðan dvalið er þar verður gengið á Arnarfell hið mikla og einnig um stórklostlegt umhverfi kringum fellið að jökusporði Múlajökuls og Rótarjökuls, sem báðir eru að hopa og tröllalandslag kemur í ljós og inn í Jökulgil. Að auki gefst einstakt tækifæri til að spá í plöntur.

3. – 4. dagur. gengið frá Arnarfelli í Arnarfellsmúla. Ekki er ákveðið hvaðan við göngum þaðan, en það mun ráðast af ýmsum þáttum og áhuga manna.

5. dagur gengið í Tjarnaver og þaðan ekið niður Gnúpverjaafrétt til byggða.

Gist er í tjöldum og bera þarf allar vistir. Vaða þarf margar jökulár, á köflum geta þær verið erfiðar.

Hafir þú áhuga á að slást í för hafðu þá samband við:
Sigþrúði í síma 846 5247 eða á netfangið. gibba@pax.is eða
Tryggva á netfangið tryggvifel@gmail.com

 

Ágætu félagar – höldum hátíð!

LogoVTEins og þið væntanlega vitið þá hefur friðlandið í Þjórsárverum verið stækkkað og staðfesti umhverfisráðherra það með undirskrift sinni þann 9. október s.l. Auglýsing til kynningar tillögu að mörkum og friðlýsingarskilmálum kom út 4. júlí og var athugasemdafrestur til 3. október.
Í tilefni af þessum mikilvæga áfanga í verndun Þjórsárvera ætla Vinir Þjórsárvera að halda hátíð í Félagsheimilinu Árnesi þann 25. nóvember kl. 20:00
Það var einmitt í Árnesi sem baráttan gegn uppistöðulóni í Þjórsárverum hófst árið 1972, en þá voru uppi hugmyndir um 200km2 lón sem hefði eyðilagt mestan hluta Þjórsárvera. Þá risu Gnúpverjar upp og mótmæltu á fundi í Árnesi! Við eigum þeim sem að því stóðu mikið að þakka. Hefðu þau áform ekki verið stöðvuð, hefðu þau sem síðar stóðu vaktina ekkert getað gert því Þjórsárver væru löngu horfin í jökullón.

Við vonum að sem flestir félagsmenn og aðrir vinir Þjórsárvera komi og fagni saman.

Með bestu kveðju.
Stjórn Vina Þjórsárvera,
Sigþrúður Jónsdóttir,
Tryggvi Felixson,
Guðbjört Gylfadóttir,
Pálína Axelsdóttir Njarðvík
Jóhanna Höeg Sigurðardóttir

P.S. Gistihúsið Denami í Vestra-Geldingholti verður opið þessa helgi ef einhver kýs að gista í nágrenni Árness eftir hátíðina og njóta sveitarinnar ögn lengur. Bóka þarf gistingu í siðasta langi fimmtudaginn 23. nóvember sjá: www.denami.is

Aðalfundur Vina Þjórsárvera 2017

Aðalfundur Vina Þjórsárvera verður haldinn í Eystra-Geldingaholti í Gnúpverjarhreppi föstudaginn 21. júlí kl 18:00.

Hluti stjórnarinnar ásamt fylgifiskum fara í stutt óvissu-ferðalag inn á Gnúpverjarafrétt þann -20. júlí og fram á föstudag til setja niður þær stikur sem ekki tókst að klára í fyrra, er það hjá Geldingatanga rétt framan Gljúfurleitarfoss.

Að því loknu verður ekið og gegnið á valda staði á afréttinum. Það gæti verið Kjálkaversfoss, Tjarnaver,  Hnífárver, Kisugljúfur eða hinn sérstaki kofi við Kisu.

Allir félagar og velunnarar Þjórsárvera eru velkomnir að slást í för. Félagið býður upp á kvöldverð inn á afrétti, einhvers staðar þar sem ákveðið verður að gista -í tjöldum.

Vinsamlega látið Sigþrúði Jónsdóttur, s. 846 5247 vita ef þú vilt koma í óvissuferðina, þó fyrirvarinn sé skammur.

Að stika gönguleið að Dynk og Glúfurleitarfossi

Kæru félagar í Vinum Þjórsárvera

Eins og þið munið þá fékk félagið styrk árið 2014 til að stika gönguleiðina að fossunum í Þjórsá, Dynk og Glúfurleitarfossi. Í fyrra stóð til að fara í verkið en uðurm við að fella ferðina niður vegna kulda og ófræðar inn afréttinn. Nú virðar aldeilis betur og lítur vel út með færð og gróður. Við stefnum að því að fara og stika þessa undurfögru gönguleið helgina 9. -10. júlí n.k. Félagið hefur fengið fjallmannahúsið í Gljúfurleit þessa daga og þar höfum við aðstöðu til að elda borða og gista. Þetta er ágætt hús með eldhúsi, matsal og svefnlofti og bæði vatnssalerni og fínum kamri! Við fáum húsið og aðstöðuna án endurgjalds hjá sveitarfélaginu.
Aðalfundur Vina Þjórsárvera verður haldinn í þessari ferð.

Aðeins er jeppafært inn á þetta svæði svo við þurfum að skipuleggja ferðina og sameinast í bíla. Vinsamlega látið mig vita hvort þig getið komið í þessa vinnuferð og hvort þið hafið bíl til fararinnar eða þurfið far hjá öðrum.   Vona að við sjáumst sem flest. Fossagöngur hafa alltaf verið góðar. Vinsamlega munið að greiða árgjald félagsins sem er 500 kr.  kt: 501111-0150 banki: 0536-26-014501

Með kærum kveðjum, Sigþrúður Jónsdóttir, formaður s. 846 5247

Opið bréf til að vekja athygli á hættu vegna goss í Bárðarbungu

Opið bréf Gísla Más Gíslasonar og Þóru Ellenar Þórhallsdóttur til forstjóra Landsvirkjunar, iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra er birt hér. Í bréfinu er vakin er athygli á hættu á stórkostlegum skemmdum á lífríki Þjórsárvera, komi til goss í Bárðarbungu sem veitir flóðvatni til suðurs.

Reykjavík, 18. september 2014

Við viljum með þessu bréfi vekja athygli á hættu á stórkostlegum skemmdum á lífríki Þjórsárvera.

Við framkvæmdir við Kvíslaveitu á 9. og 10. áratug síðustu aldar var kvíslum sem falla í Þjórsá úr austri veitt í Þórisvatn með neti skurða og lóna. Stærsta lónið er Kvíslavatn austan Þúfuvers. Við vesturströnd lónsins, þ.e. ofan Þúfuvers, eru nokkrar stíflur og ein þeirra er flóðvar. Hún er lægri en hinar stíflurnar og hönnuð til þess að bresta við flóð en veitir um leið öllu vatninu beint niður í Þjórsárver. Kvíslaveita var byggð áður en lög um mat á umhverfisáhrifum voru sett og á þeim tíma sem Náttúruverndarráð fór með mál sem nú heyra undir umhverfisráðuneyti. Annað okkar (Þóra Ellen Þórhallsdóttir) sat í Náttúruverndarráði þegar unnið var við Kvíslaveitu og telur að ráðinu hafi ekki verið kunnugt um staðsetningu flóðvarsins fyrr en eftir að framkvæmdum við Kvíslavatn lauk. Staðsetning flóðvarsins var bersýnilega afleit í ljósi náttúruverndargildis Þjórsárvera en ekki var aðhafst neitt frekar. Á þeim tíma varð heldur ekki séð að stórt flóð gæti steypst niður Kvíslavatn og talið ólíklegt að veruleg hætta gæti skapast. Þetta breyttist því miður með Hágöngulóni.

Í apríl 2008 sendi Landsvirkjun erindi til Umhverfisstofnunar og óskaði heimildar til að gera flóðvar í stíflu Þ-4 í Kvíslavatni. Það er sami staður og þegar var hannaður sem flóðvar fyrir Kvíslavatn. Í bréfi Landsvirkjunar (dags. 30.5.2008) segir „Tilgangur Landsvirkjunar með þessum aðgerðum var að minnka líkur á stórfelldum skemmdum á náttúru og mannvirkjum yrði sá ólíklegi atburður að flóð kæmi í Köldukvísl vegna eldgoss í Vatnajökli“. Erindinu var vísað áfram til Þjórsárveranefndar sem Gísli Már Gíslason veitti forstöðu. Fyrst þá varð ljóst að flóðvar Hágöngulóns hafði verið staðsett þannig að það veitti flóðvatni í Kvíslavatn og þaðan beint ofan í Þjórsárver. Ekki hafði verið vakin athygli á þessu í vinnu við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar 1996 og þessar breyttu forsendur virðast ekki hafa orðið náttúruverndaryfirvöldum ljósar fyrr en löngu eftir að framkvæmdum við Hágönglón var lokið.

Þjórsárveranefnd brást hart við. Í umsögn meirihluta nefndarinnar kemur fram að ný gögn hafi sýnt að við gos í Bárðarbungu sem veitti flóðvatni til suðurs, mætti gera ráð fyrir að allt að 6.000 m3/s rynnu í Köldukvísl og Hágöngulón í a.m.k. 4 sólarhringa en minna vatn eftir það. Ef ekki hefði verið búið að gera Hágöngulón hefði flóðið haldið áfram eftir farvegi Köldukvíslar og þaðan runnið í Tungnaá og loks Þjórsá við Sultartanga. Samkvæmt líkanreikningum myndu nú yfir 90% af flóðinu fara í Kvíslavatn og þaðan í Þjórsárver. Farvegur Þjórsár þrengist við Sóleyjarhöfða neðan við Tjarnaver og Þúfuver og vegna þessarar fyrirstöðu er gert ráð fyrir að flóðvatnið næði að 581 m.y.s. og myndaði 30 km2 lón í neðanverðum Þjórsárverum. Þar færu undir vatn mestallt Þúfuver, neðri hluti Oddkelsvers og neðsti hluti Tjarnavers. Svo vill til að þessi hæð, 581 m, er vatnsborð stóra miðlunarlónsins sem umhverfisráðherra hafnaði árið 2000. Erfitt er að gera sér í hugarlund áhrif á gróður og lífríki Þjórsárvera. Í versta lagi (flóð um vor eða sumar og með miklum aurburði) gæti allur eða nær allur gróður undir 581 m drepist og 30 km2 flóðasvæðið sem að mestu er með margra metra þykkum jarðvegi, orðið geigvænleg uppspretta áfoks sem ógna myndi gróðri ofar í verunum. Ef hlaup kæmi á frosna jörð um vetur yrðu áhrifin væntanlega minni en þó færi það mjög eftir setburði í flóðvatninu.

Í framhaldi af umræðum í Þjórsárveranefnd, fól fulltrúi Landsvirkjunar í nefndinni verkfræðistofunni VST að vinna athugasemdir við umsögn meirihluta Þjórsárveranefndar. Minnisblað VST er dagsett 21.5.2008. Þar er gert ráð fyrir að án inngripa mannsins (þ.e. ef hvorki Kvíslavatn né Hágöngulón væru til) hefði flóðvatn sem rynni til suðurs við gos í Bárðarbungu, farið í farveg Þúfuverskvíslar og þaðan niður í Þjórsárver. Nánar tiltekið er áætlað að 40% vatnsins færu sunnan við Syðri Hágöngu, síðan í Þúfuverskvísl og þaðan í Þjórsárver. Sú sviðsmynd á væntanlega að rökstyðja þá staðhæfingu VST að staðsetning flóðvarsins muni „milda áhrif flóðsins á verin“.

Engin merki sjást um að stórflóð hafi farið um Þúfuver, neðri hluta Oddkelsvers eða Tjarnavers. Rannsóknir á jarðvegi í Þúfuveri, Oddkelsveri og Tjarnaveri, m.a. með 3-7 m djúpum borkjörnum, hafa aldrei sýnt ummmerki um stórfelld flóð. Áfok er mikið í efstu 0,5-1 m en neðar er móríkur jarðvegur sem ber vitni um mörg þúsund ára órofna sögu vistkerfa í neðri hluta Þjórsárvera. Ekkert bendir því til þess að flóð frá Bárðarbungu hafi farið um neðri hluta Þjórsárvera um langan tíma, líklega þúsundir ára. Saga flóða frá Bárðarbungu er ekki vel þekkt en talið er að flóð í Þjórsá árið 1766 megi rekja til atburða í Bárðarbungu. Sigurður Þórarinsson taldi að það hlaup hefði fyrst komið niður í Tungnaá en í ljósi þess sem nú er vitað um landslag og ísaskil undir Vatnajökli er miklu líklegra að slíkt flóð frá Bárðarbungu hefði farið í Köldukvísl og þaðan í Þjórsá. Ekkert bendir til að það hafi farið í Þúfuver. Til dæmis hefði Einar Brynjólfsson frá Stóra-Núpi væntanlega séð ummerki slíks flóðs þegar hann fór þar um á leið norður Sprengisand 6 árum síðan og látið þess getið í ferðalýsingu sinni.

Í bréfum og minnisblöðum Landsvirkjunar og VST er gert lítið úr hættu vegna Bárðarbungu og flóð í Köldukvísl nefnt „sá ólíklegi atburður“. Við sendum þetta bréf í ljósi þess að nú eru uppi breyttar aðstæður. Gos í Bárðarbungu gæti verið yfirvofandi og stórflóði þaðan til suðurs hefur með mannlegum inngripum verið beint í Þjórsárver.

Við erum sammála forstjóra Landsvirkjunar um að hönnun Hágöngulóns minnki líkur á skemmdum á stíflum og öðrum virkjunarmannvirkjum á Þjórsár-Tungnaársvæðinu en það er ekki forsvaranlegt að búa þannig um hnútana að Þjórsárverum sé fórnað í staðinn. Við bendum á umsögn Þjórsárveranefndar frá 2008 þar sem lagt er til hvernig flóðvatni megi veita aftur í Köldukvísl handan Hágöngulóns.

Við trúum því að engir vilji verða til þess með gáleysislegri hönnun að eyðileggja sérstæðasta og líklega verðmætasta vistkerfið á miðhálendinu. Við förum þess á leit að flóði til suðurs frá Bárðarbungu verði beint frá Þjórsárverum þannig að það valdi ekki óbætanlegum skaða á lífríki Þjórsárvera.

Virðingarfyllst,
Gísli Már Gíslason og Þóra Ellen Þórhallsdóttir

Höfundar hafa unnið að náttúrurrannsóknum í Þjórsárverum. Þóra Ellen vann að rannsóknum um áhrif lóns á náttúru veranna og Gísli hefur verið formaður Þjórsárveranefndar síðan 1987, en hún er Umhverfisstofnun og stjórnvöldum til ráðgjafar um allt sem varðar málefni Þjórsárvera.

Bréfi til Vina Þjórsárvera, frá 3. janúar 2014

Bréfi til Vina Þjórsárvera

3. janúar 2014

Kæru félagar, gleðilegt ár.

Það er nokkuð liðið frá því að bréf hefur verið sent út til félaga og því löngu tímabært að flyta fréttir af starfi stjórnar.

Fyrst er að greina frá því að ekkert varð af aðalfundi félagsins s.l. sumar eins og boðað var í byrjun í júní. Þegar til kastanna kom var það veðrið sem setti strik í reikninginn og gönguferðin um Þjórsárver féll niður. Endurskoðaðir reikningar, skýrsla stjórnar og kjör stjórnar bíða því afgreiðslu aðalfundar sumarið 2014.

Stjórnin hefur þó ekki setið auðum höndum og hefur haft ýmsu að sinna undanfarin misseri. Þann 21. júní var áformað að skrifa undir nýjan friðlýsingarsáttmála um Þjórsárver sem hefði getað orðið lokapunktur í 41 árs baráttu fyrir að vernda svæðið fyrir virkjunarmannvirkjum. Því miður aflýst umhverfisráðherra fundi í Árnesi þar sem skrifa átti undir nýja og bætta friðlýsingarskilmála. Ástæðan var að Landsvirkjun kom með hótanir um málaferli ef ekki yrðir tekið tillit til hagsmuna fyrirtækisins.

Í kjölfarið hefur stjórn félagsins sent viðkomandi aðilum bréfi þar sem hvatt var til að farið verði að niðurstöðu rammaáætlunar. Einning voru skrifaðar blaðagreinar til að vekja athygli á málinu. Þá átti stjórnin fund með umhverfisráðherra 20. september s.l. Á fundinum upplýsti ráðherra að ákvörðun hans um að fresta frágangi málsins myndi ekki að hafa áhrif á hvar suðurmörk friðlandsins yrðu dregin. Annað hefur því miður komið á daginn. Þann 27. desember s.l. sendi umhverfisráðuneytið bréf til Skeiða- og Gnúpverjahrepps með tillögu að friðlandsmörkum þar sem búið var að draga suðurmörkin með þeim hætti að Landsvirkjun gæti komið þar fyrir veitumannvirkjum, fleygur inní friðlandið upp með Þjórsá við Eyvafenskrókinn. Friðlýsing á forsendum Landsvirkjunar. Það er ekki boðlegt.

Að mati stjórnar félagsins er ný tillaga umhverfisráðherra um friðlandsmörkin ekki í samræmi við gildandi lög og þingsályktun. Í lögum segir að „stjórnvöld skulu þegar Alþingi hefur samykkt verndar- og nýtingaráætlun hefja undirbúning að friðlýsingu landssvæða sem ástæða þykir til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu samkvæmt verndarflokki áætlunarinnar“. Í skýringum við frumvarpið er tekið fram að virkjunarsvæði í vatnsafli miðist við allt vatnasvið fallvatns ofan þeirrar virkjunar sem nýtir fallið og farveg fallsvatnsins neðan virkjunar. Áformin ganga einnig beinlínis gegn þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, sem tilgreinir að mannvirki rétt við friðlandið yrði lýti og beinir athyglinni að sérstæðum fossum í Þjórsá sem yrðu fyrir neikvæðum áhrifum Norðlingaölduveitu.

Stjórnin hefur haft samráð við Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands og Náttúruverndarsamtök Suðurlands. M.a. hefur það samráð leitt til þess að umhverfisráðherra hefur verið sent sameiginlegt erindi, eins og lesa má í meðfylgjandi bréfi þar sem tillögu umhverfisráðherra um suðurmörk friðlandsins er mótmælt.

Stjórn félagsins hefur leitað ráða hjá lögmönnum til að skoða lögformleg atriði er varða friðlýsingu Þjórsárvera. Það er lögmannstofan Réttur sem veitir leiðsögn í málinu og hefur skilað ganglegri greinargerð um það. Þessu fylgir að sjálfsögðu nokkur kostnaður og því er sjóður félagsins nú tómur og enn eftir að greiða hluta þess kostnaðar (100.000 kr). Félagar eru því hvattir til að greiða árgjaldið fyrir starfsárið 2013-2014 nú þegar. Árgjaldið er 500 kr. Þar sem félagar eru aðeins um 30 talsins er þörf á hærri framlögum frá félögum sem hafa fjárhagslegt bolmagn svo endar nái saman. Reikningsnúmerið er : 0536-26-014501, og kt. 501111-0150. Félagar eru hvattir til að bregast skjótt við og greiða sitt árgjald, og eftir getu viðbótarframlag.

Baráttan fyrir verndun Þjórsárvera heldur áfram og félagið okkar Vinir Þjórsárvera verður á varðbergi og mun grípa til frekari aðgerða ef þörf krefur. Markmiðið er að ljúka 40 ára baráttu fyrir friðun svæðisins með stækkun friðlandsins í Þjórsárverum sem byggir á forsendum verndunar, en ekki virkjunar eins og nýtt útspil umhverfisráðherra ber með sér. Ef tilefni verður til mun málið enda fyrir dómsstólum.

Hollt er að minnast orða Guðmundar Páls Ólafssonar, eins stofnfélaga Vina Þjórsárvera. Í bók sinni Vatnið í náttúru Íslands kynnir hann nýja og framsækna hugmynd um Íslandsgarða. Þar segir hann m.a. „verndun lands verður að grundvallast á landslagsheildum – skilningi á vistkerfum – með öðrum orðum samhengi í náttúrunni.“ Sú tillaga sem umhverfisráðherra boðar nú er brot á þessu mikilvæga samhengi sem Guðmundur Páll beinir athyglinni að. Þetta samhengi verður að vera leiðarljós í nýju og stærra friðlandi Þjórsárvera.

Með góðri kveðju, frá stjórn félagsins

Sigþrúður Jónsdóttir
Árni Bragason
Tryggvi Felixson
Pálína Axelsdóttir Njarðvík
Óttar Ólafsson

Meðfylgjandi er bréf sem sent var til umhverfis- og auðlindaráðherra í dag.

Bréf til umhverfisráðherra 3. janúar 2014

Þjórsárver, stjórnvöld fari að leikreglum – Tryggvi Felixson

Fyrir um fjórtán árum síðan höfðu tveir ráðherrar Framsóknarflokksins frumkvæði að því að leggja upp í þá vegferð sem gengur undir nafninu »rammaáætlun«. Uppruninn liggur í áætlanagerð sem hófst þegar Steingrímur Hermannsson var forsætisráðherra en málið komst fyrst á rekspöl í ráðherratíð Sivjar Friðleifsdóttur og Finns Ingólfssonar. Ákvörðun þeirra byggði á hugmynd um að skoða margar tillögur um virkjanir samtímis og draga þær í þrjá dilka; landsvæði sem vænlegt væri að virkja (nýtingarflokk), svæði sem skoða þyrfti betur (biðflokk) og svæði sem heppilegast væri að hlífa við virkjunarframkvæmdum (verndarflokk). Þáverandi formaður Landverndar, Jón Helgason, fyrrverandi forseti Alþingis, vann ötullega að því að koma þessu verkefni í gang. Markmiðið var að ná sem víðtækastri sátt um landnýtingu með víðtæku samráði, opnu matsferli og greiningu hæfustu sérfræðinga. Þær leikreglur sem fyrrgreindir ráðherrar lögðu grunn að voru lögfestar 16. maí 2011 í lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Í 6. gr. segir: »stjórnvöld skulu þegar Alþingi hefur samþykkt verndar- og nýtingaráætlun hefja undirbúning að friðlýsingu landssvæða sem ástæða þykir til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu samkvæmt verndarflokki áætlunarinnar«. Í skýringum við frumvarpið er tekið fram að virkjunarsvæði í vatnsafli miðist við allt vatnasvið fallvatns ofan þeirrar virkjunar sem nýtir fallið og farveg fallsvatnsins neðan virkjunar. Einnig er tilgreind sú meginregla að hvers konar framkvæmdir og rannsóknir vegna virkjunarkosta í verndarflokki séu óheimilar.

Á vorþingi 2013 var samþykkt þingsályktun sem setur hugmyndir um Norðlingaölduveitu í verndarflokk. Mörk þess svæðis sem um er að ræða má skilgreina bæði með þeim lögskýringum sem að framan greinir og í skýrslu verkefnistjórnar rammaáætlunar. Ekki fer á milli mála að átt er við Þjórsá frá upphafskvíslum allt suður að Sultartangalóni. Þar sem vatnasviði að austan hefur þegar verið raskað með Kvíslaveitum er aðeins um vatnasviðið að vestan að ræða. Kvíslaveitur fékk Landsvirkjun á sínum tíma heimilaðar þegar ljóst var að veruleg andstaða var við allar hugmyndir um veitur eða virkjanir sem hefðu áhrif á Þjórsárver. Litu margir svo á að það væri sátt sem fæli í sér að ekki yrði frekar gengið á vatnasviðið í ofanverðri Þjórsá. Það varð því miður ekki reyndin.

Umhverfisráðherra boðaði til fundar 19. júní sl. þar sem ætlunin var að staðfesta stækkun friðlandsins um Þjórsárver á þann hátt að útlokaði Norðlingaölduveitu. Það var í góðu samræmi við fyrrnefnd lög, niðurstöðu rammaáætlunar og samþykkt Alþingis. Ráðherra hugðist gera það sem honum ber samkvæmt lögum, enda væri hann að öðrum kosti að ganga gegn lögum. Við þessi tíðindi greip Landsvirkjun til örþrifaráða. Fyrirtækið gleymdi loforðum að fara að niðurstöðu rammaáætlunar. Ráðherra var hótað lögsókn skrifaði hann undir. Þessi viðbrögð Landsvirkjunar sköpuðu tímabundna óvissu um hvort lögformlega væri rétt að öllu staðið. Nú hefur málið verið skoðað og ljóst er að rétt hefur verið að öllu staðið. Því ætti ekkert að vera að vanbúnaði fyrir umhverfisráðherra að fara að lögum og hefja hið snarasta undirbúning að friðlýsingu til að ljúka þeim deilum um þetta svæði sem staðið hafa í liðlega hálfa öld. Við sem trúum enn á réttarríkið Ísland treystum því að umhverfisráðherra gangi frá málinu, í samræmi við lög og þá hugmyndafræði sem ráðherrar Framsóknarflokksins lögðu grunn að, þegar vinna við rammaáætlun hófst árið 1999. Að breyta leikreglum nú yrði engum til vegsauka og skapaði réttaróvissu um niðurstöður rammaáætlunar í heild.

Látið Þjórsárver lifa í friði -Þorsteinn Ólafsson

Inni á hálendi Íslands, sem fljótt á litið virðist vera jöklum klætt, eru Þjórsárver einstök gróðurvin. Sunnan við Arnarfellsjökul (Hofsjökul) er þetta furðulega gróðurland, sem fyllist af litfögrum blómplöntum á sumrin. Þetta furðulega land sem virðist nærast á sífreranum og hefur staðist eyðingaöfl jökulkvíslanna og sínagandi sandsins sem engu eirir á þessu vindblásna hálendi. Þeir sem koma í þessa paradís verða snortnir af því ótrúlega kraftaverki sem alltaf endurtekursig á hverju ári. Áður en snjóa leysir er gæsin búin að gera sér hreiður og er orpin. Kúrir sig niður og lætur fenna yfir sig. Svo belja stórfljótin undan jökulröndinni og snjórinn hverfur. Ungarnir skríða úr eggjunum. Gróðurinn vaknar til lífsins áður en skaflarnir eru horfnir og fuglarnir komast á beit. Blómin birtast svo í allri sinni litadýrð. Samt er jörðin alltaf frosin. Kannski gerist þetta kraftaverk vegna þess að frostið skammtar gróðrinum vökvun.

Gnúpverjum er annt um þessa gróðurvin lengst inni á afréttinum sínum. Þessa gróðurvin sem þeir hafa fleiri heyrt um en séð, öðru vísi en í hugskoti sínu. Þeir gera sér grein fyrir að þessi vin eins og allar vinjar eyðimarkanna er viðkvæm. Það má ekkert út af bera. Hún hverfur kannski ef aðeins hlýnar í veðri. Hún gæti horfið ef Þjórsá fer úr farvegi sínum og hættir að verja landið með vatninu sínu. Hún getur horfið ef gert verður lón neðst í verinu. Grunnt lónið mun einhvern tíma fyllast af jökulleir sem getur hjálpað vindinum að sverfa úr bökkunum. Við fjöruborð lónsins fær vindurinn næringu sína. Við þekkjum þennan vikurblandaða jarðveg, sem fýkur á landið niður í Norðurleit. Við viljum ekki að tekin sé nein áhætta. Við erum og höfum alltaf verið ofurseld náttúruöflunum. Þjórsárver eru í þeirra hendi. Við viljum ekki að græðgi mannskepnunar verði til þess að leggja eyðingaröflum náttúrunnar vopn í hendur.

Gnúpverjar hafa áður tekist á við utansveitarmenn um landið sitt. Um miðja 19. öldina tókust þeir á við nágranna sína á Skeiðunum um beit fyrir tryppi á afréttinum sínum. Þeim tókst að koma í veg fyrir að Skeiðamenn héldu áfram að reka tryppi á fjall. Um líkt leyti fengu þeir fulltingi sýslumanns Árnesinga til þess að skógarhögg var takmarkað í Búrfelli. Gekk á þeim árum mjög á skóginn í Skriðufelli og Búrfelli vegna kolagerðar og Rangvellingar sóttu mjög í Búrfellsskóg.

Rúmlega einni öld síðar þurftu Gnúpverjar aftur að rísa upp og verja landið. Nú voru uppi hugmyndir um að vinna annars konar eldivið. Nú þurfti ekki að smíða ljái. Uppi voru hugmyndir um að setja gróðurvinina, ævintýralandið undir vatn. Eldiviðurinn var rafmagn og smíðisefnið ál. Árið 1972 voru til bændur í Gnúpverjahreppi sem vissu að landið getur verið mikilsvirði eins og það er, með blómum tjörnum, fuglum og jafnvel tófum.

Nú eru miklu fleiri sem vita að fegurð landsins eru gæði sem við höfum efni á og nú finnst Gnúpverjum nóg komið. Við viljum þyrma Þjórsárverum, við viljum eiga það sem eftir er af Dynk, Kjálkaversfossi og Gljúfurleitarfossi.

Höfundur er Þorsteinn Ólafsson og ættaður úr uppsveitum Árnessýslu
greinin var birt 26.6.2001